Leikfélag Glanni
Leikfélag Glanni

Íþróttir

Keflavík komið í holu, 0-2 undir í seríunni á móti Tindastóli
Ty-Shon Alexander var stigahæstur Keflvíkinga en fór illa að ráði sínu undir lok leiksins.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 6. apríl 2025 kl. 21:36

Keflavík komið í holu, 0-2 undir í seríunni á móti Tindastóli

Keflavík og Tindstóll mættust í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum Bónusdeildar karla í Keflavík í kvöld. Tindastóll vann fyrsta leikinn og því var mjög mikilvægt fyrir Keflavík að jafna seríuna strax. Eftir jafnan leik og æsispennandi lokamínútur þar sem Keflavík reyndi að jafna leikinn með þriggja stiga skoti, vann Tindastóll, 93-96 og er því aðeins einum sigri frá sæti í undanúrslitunum.

Keflavík leiddi eftir fyrsta fjórðung, 25-23 en Stólarnir áttu betri annan leikhluta og leiddu í hálfleik með þremur stigum, 45-48. Tindastóll byrjaði seinni hálfleikinn mun betur og voru fljótlega komnir með 11 stiga forystu, 47-58. Jaka Brodnik setti þá stóran þrist og fyrirliðinn Halldór Garðar fylgdi á eftir með öðrum. Vörnin hertist hjá Keflvíkingum og Halldór Garðari skoraði körfu og brotið á honum, frábært svar Keflvíkinga sem hefðu á einhverjum tímapunkti í vetur brotnað við mótlætið í byrjun seinni hálfleiks. Afdrifaríkt atvik átti sér stað stuttu síðar, Halldór Garðar fékk dæmda fjórðu villu sína, kvartaði við dómarann og fékk sénsins en hélt svo áfram og þar með þraut þolinmæði dómarans og Halldór Garðar fékk tæknivillu og þar með sína fimmtu. Hilmar Pétursson kom inn á í hans stað og mætti fullur sjálfstrausts, skoraði góðar körfur og spilaði góða vörn. Staðan eftir þrjá leikhluta, 71-70 fyrir Keflavík.

Stólarnir áttu fyrsta sprettinn í lokafjórðungnum og komust fjórum stigum yfir, 77-73. Hilmar Péturs átti áfram góðan leik og setti fimm stig, staðan 78-79 og spennan í algleymi. Stólarnir settu stóra þrista og virtust ætla taka völdin í leiknum, staðan 80-85 og tæpar fimm mínútur eftir. Keflvíkingar neituðu hins vegar að gefast upp og Jaka setti körfu og brotið á honum. Á þessum tíma var Hilmar Pétursson allt í öllu, hann tók fráköst, gaf stoðsendingu eða skoraði, jafnaði leikinn 85-85 og 3:15 eftir. Liðin skiptust á körfum en Keflavík komst loks yfir þegar tæpar tvær mínútur lifðu leiks, 88-87. Stærsti leikmaður Stólanna reyndi langan þristi í næstu sókn, hann geigaði en minnsti leikmaðurinn á vellinum, Dedrick Basile tók sóknarfrákastið og skoraði. Ty-Shon Alexander fór illa að ráði sínu, missti boltann og fékk dæmda á sig tæknivillu og var vikið úr húsi því hann hafði fengið aðra villu á sig fyrr í leiknum. Stólarnir áttu góða sókn sem endaði með körfu Basile, staðan 88-92 og 26 sekúndur eftir. Keflavík tók leikhlé, upp úr því kom þriggja stiga skot frá Callum Lawson sem geigaði en Keflvíkingar náðu sóknarfrákastinu og seinni tilraun Lawson gekk, 18 sekúndur eftir en Keflavík braut þó ekki fyrr en tíu sekúndur voru eftir. Basile setti bæði vítin niður og Stólarnir því þremur stigum yfir, 91-94. Upp úr leikhléi brutu Stólarnir og Jaka Brodnik setti bæði vítin niður. Keflavíkingar brutu, Stólarnir settu bæði vítin niður og flautuskot Callum Lawson geigaði og Tindastólsleikur því staðreynd, 93-96.

VF Krossmói
VF Krossmói

Hilmar Pétursson var besti leikmaður Keflavíkur, hann kom mjög sterkur inn og sýndi það sem hann hefur ekki nógu oft getað sýnt í vetur. Hilmar endaði með 20 stig og 5 fráköst. Ty-Shon Alexander var stigahæstur með 22 stig en fór illa að ráði sínu í lokin með tæknivillunni sem hann fékk.

Tindastóll því komið í 2-0 forystu og getur tryggt sig í undanúrslitin með sigri í næsta leik á heimavelli.

Keflavík-Tindastóll 93-96 (25-23, 20-25, 26-22, 22-26)
http://kki.is/widgets_game.asp?season_id=128582&game_id=6023115
Keflavík: Ty-Shon Alexander 22/4 fráköst, Hilmar Pétursson 20/5 fráköst, Callum Reese Lawson 16/7 fráköst, Jaka Brodnik 12/6 fráköst, Nigel Pruitt 11, Halldór Garðar Hermannsson 6, Igor Maric 3/5 fráköst, Remu Emil Raitanen 3/6 fráköst, Frosti Sigurðsson 0, Finnbogi Páll Benónýsson 0, Jakob Máni Magnússon 0, Nikola Orelj 0.
Tindastóll: Dimitrios Agravanis 26/7 fráköst, Dedrick Deon Basile 23/7 fráköst/5 stoðsendingar, Adomas Drungilas 20, Davis Geks 10/5 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 8, Pétur Rúnar Birgisson 7, Giannis Agravanis 2, Hannes Ingi Másson 0, Sigurður Stefán Jónsson 0, Víðir Elís Arnarsson 0, Axel Arnarsson 0.
Dómarar: Bjarki Þór Davíðsson, Gunnlaugur Briem, Birgir Örn Hjörvarsson
Áhorfendur: 800.

Páll Ketilsson ræddi við Sigurð Ingimundarson í lokin og má sjá hér að neðan.

Hilmar Pétursson var bestur Keflvíkinga. Hér er hann í baráttu við einn besta mann Stólanna, Basile.