Kristjana heimsmeistari
Kristjana Gunnarsdóttir úr Reykjanesbæ keppti með vinkonu sinni, Camillu Åbergh á alþjóðlegu Hyrox móti og þær gerðu sér lítið fyrir og urðu heimsmeistarar í sínum aldursflokki. Fleiri Suðurnesjakonur náðu góðum árangri á mótinu en Hyrox er nýlegt form á þrekkeppni þar sem keppt er í mörgum greinum í styrk, þreki og þoli. Keppnin var haldin í Bella center í Kaupmannahöfn.
„Við settum heimsmet í Hyrox doubles Pro (parakeppni) í flokki 50-59 ára. Við bættum fyrrum heimsmet um 3 mínútur en tíminn okkar var 1.04.26 klst. Við kynntumst á heimsmeistaramótinu í Hyrox í Nice í Frakklandi þar sem að við vorum mótherjar í einstaklingskeppni. Eftir að hafa spjallað saman í haust þá ákváðum við að við myndum skella okkur saman í parakeppni með það að markmiði að slá nýtt heimsmet í okkar flokki. Við höfðum aldrei æft saman en planið okkar gekk mjög vel upp og uppskeran varð nýtt heimsmet. Við höfum báðar langan keppnisferil í allskyns þrekkeppnum og hlaupum í gegnum árin. Þessi árangur færir okkur þáttökurétt á heimsmeistaramótinu í Hyrox 2025 sem haldið verður í Chicago, en við munum þó ekki taka því boði að þessu sinni. Ég hef þó nú þegar öðlast þáttökurétt á heimsmeistaramótinu í HyroxPro einstaklingsflokki og hef ég þegið það boð. Við erum fjórar frá Sporthúsinu í Reykjanesbæ sem höfum unnið okkur inn þátttökurétt á heimsmeistaramótinu en auk mín en ég mun keppa í einstaklingskeppni verða þær Ásta Katrín Helgadóttir og Árdís Lára Gísladóttir í parakeppni og svo bættist Jóhanna Júlía Júlíusdóttir við í hópinn núna um helgina eftir glæsilegan árangur í Hyrox womens pro sem færði henni 2. sæti í flokki 25-29 ára.
Að sögn Kristjönu er Hyrox alþjóðleg keppni fyrir almenning og afreksíþróttafólk. Keppnin inniheldur 8 x 1 km hlaup og fjölbreyttar æfingar (skierg, ýta sleða, draga sleða, burpeeshopp, róður, bóndaganga, framstigsganga með sandpoka og wall ball) sem reyna vel á úthald og styrk keppandans.
„Hyrox er orðið gríðarlega vinsæl keppnisgrein á alþjóðavettvangi og hafa ýmsir þekktir íþróttamenn verið meðal þátttakenda, en þátttakendafjöldi hefur vaxið mjög hratt en talið er að um 550 þúsund þáttakendur taki þátt á þessu keppnistímabili sem lýkur í júní,“ sagði Kristjana.