Njarðvíkingar töpuðu á heimavelli gegn Álftanesi
Njarðvíkingar töpuðu fyrir Álftanesi í fyrstu umferð úirslitakeppni Bónus deildar karla í körfubolta í Icemar höllinni í kvöld. Eftir spennandi leik voru það gestirnir sem voru sterkari og unnu fyrstu rimmuna.
Leikurinn byrjaði með miklum látum og spiluðu bæði lið mjög stíft frá fyrstu mínútu leiks. Njarðvíkingar byrjuðu fyrsta leikhluta betur og tóku Álftnesingar leikhlé þegar 5 mínútur voru liðnar af fyrsta leikhluta til að stöðva blæðinguna. Þrátt fyrir að Njarðvík hafi verið betra liðið í fyrsta leikhluta náðu þeir ekki að slíta sig frá Álftnesingun en leiddu þó með fimm stigum, 29-24.
Áfram hélt baráttan inn í annan leikhluta og komust Álftnesingar í fyrsta sinn í forskot um miðjan leikhluta. Álftanes höfðu algjöra yfirburði yfir Njarðvíkingum í leikhlutanum og unnu hann með þrettán stigum, staðan í hálfleik 47-55.
Njarðvíkingar mættu heldur betur með blóð á tönnunum og klárir inn í seinni hálfleik og voru fljótir að jafna metin með frábærum varnarleik og kröftugum sóknarleik leiddan af Khalil Shabazz, staðan í lok þriðja leikhluta 72-70.
Fjórði leikhluti var æsispennandi og skiptust liðin á forystu en að lokum var það skipulagður sóknarleikur Álftnesinga sem skóp sigurinn hjá þeim. Lokaniðurstaða 89-95. Það var því tap hjá öllum Suðurnesjaliðunum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Khalil Shabazz var stigahæstur heimamanna og gerði margar flottar körfur en hann skoraði 30 stig en Dwayne Lautier og Milka voru með 17 stig hvor. Justin James skoraði mest hjá Álftanesi eða 23 stig.
„Auðvitað er svekkjandi að tapa í fyrsta leik og það á heimavelli en við mætum bara grimmir í næsta leik á mánudaginn. Þetta eru áþekk lið og leikir okkar gegn þeim í vetur voru jafnir þó svo sigrarnir hafi lent okkar megin. Nú er úrslitakeppnin og svona er körfuboltinn,“ sagði Logi Gunnarsson, aðstoðarþjálfari UMFN eftir leikinn, meðal annars í viðtali eftir leikinn sem sjá má hér á síðunni.
Njarðvík-Álftanes 89-95 (29-24, 18-31, 25-15, 17-25)
http://kki.is/widgets_game.asp?season_id=128582&game_id=6023112
Njarðvík: Khalil Shabazz 30, Dwayne Lautier-Ogunleye 17/5 fráköst/6 stoðsendingar, Dominykas Milka 17/10 fráköst, Mario Matasovic 12/7 fráköst, Veigar Páll Alexandersson 8/7 fráköst, Snjólfur Marel Stefánsson 5, Maciek Stanislav Baginski 0, Brynjar Kári Gunnarsson 0, Guðmundur Aron Jóhannesson 0, Sigurbergur Ísaksson 0, Alexander Smári Hauksson 0, Patrik Joe Birmingham 0.
Álftanes: Justin James 23/5 fráköst, Haukur Helgi Briem Pálsson 18/4 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 14/4 fráköst, David Okeke 10/6 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 9, Dimitrios Klonaras 8/13 fráköst, Dúi Þór Jónsson 7, Lukas Palyza 6, Viktor Máni Steffensen 0, Arnar Geir Líndal 0, Hjörtur Kristjánsson 0, Dino Stipcic 0.
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Jóhannes Páll Friðriksson, Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson
Áhorfendur: 532
Texti, myndir og viðtal: Jón Ragnar Magnússon.
Guðni Jóhannesson, stuðningsmaður Álftaness reyndi fyrir sér í pútti í hléi í leiknum.
Myndir/JónRagnar.