Elianna Rós sigraði Stóru upplestrar-keppnina í Suðurnesjabæ og Vogum
Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fyrir Suðurnesjabæ og Voga fór fram með hátíðlegum hætti í Stóru-Vogaskóla þann 20. mars síðastliðinn. Þrír grunnskólar tóku þátt í keppninni í ár: Gerðaskóli, Sandgerðisskóli og Stóru-Vogaskóli.
Elianna Rós Viray úr Gerðaskóla bar sigur úr býtum í keppninni, en í öðru sæti varð Ásþór Fannar Hilmarsson úr Sandgerðisskóla og í því þriðja Jóhann Bragi Freysson, einnig úr Gerðaskóla. Allir keppendur fengu viðurkenningu, bók og rós fyrir framúrskarandi frammistöðu og sigurvegarar hlutu einnig peningaverðlaun.
Stóra upplestrarkeppnin hefst ár hvert 16. nóvember og lýkur með lokakeppni í mars. Markmið keppninnar er að gera upplestur að læsishvetjandi viðfangsefni í 7. bekk og stuðla að betri framburði, sjálfstrausti og framkomu nemenda. Áhersla er lögð á túlkun, líkamsstöðu, raddbeitingu og virðingu fyrir íslensku máli.
Nemendur fluttu að þessu sinni brot úr skáldsögunni Draumurinn eftir Hjalta Halldórsson, ljóð úr bókinni Allt fram streymir, auk þess sem keppendur völdu sér ljóð að eigin vali – og gaman var að sjá að tveir þeirra fluttu eigið ljóð.
Hver skóli bauð einnig upp á tónlistaratriði þar sem nemendur léku og sungu, og gestir gæddu sér á veitingum sem 7. bekkingar sáu um í kaffihléi.
Mennta- og tómstundasvið Suðurnesjabæjar styrkir og skipuleggur keppnina ár hvert. Dómarar á lokakeppninni stóðu frammi fyrir krefjandi verki enda stóðu allir keppendur sig með prýði, segir í tilkynningu.