TR - bjöllutónleikar
TR - bjöllutónleikar

Mannlíf

Þetta er eins og höll
Ingibjörg og Sif í hreyfisalnum. Glæsilegt útisvæðið hinum megin við glerið.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 4. apríl 2025 kl. 06:15

Þetta er eins og höll

Asparlaut er nýr og glæsilegur heilsuleikskóli í Hlíðarhverfi í Reykjanesbæ. „Erum öll í skýjunum,“ segir leikskólastjórarnir Ingibjörg og Sif.

„Það var alveg átak að kveðja fimmtíu ára gamlan leikskóla sem ég hafði unnið á í 36 ár en við erum í skýjunum með þann nýja, Asparlaut sem er bæði fallegur og frábær,“ segir Ingibjörg Guðjónsdóttir, leikskólastjóri nýjasta leikskóla Reykjanesbæjar en byggingin er um 1200 fermetrar auk stórrar leikskólalóðar og stóðu framkvæmdir yfir í um tvö ár.

Asparlaut leysir leikskólann Garðasel af hólmi en hann var einn elsti leikskóli bæjarins, opnaður í apríl/maí 1974 og fagnaði því hálfrar aldar afmæli í fyrra. Garðasel var gefin af sænskum barnasamtökum Reddabarnet vegna eldgossins í Vestmannaeyjum en í Keflavík spratt upp heilt Eyjahverfi heimila Vestmannaeyinga sem misstu hús sín í gosinu.

VF Krossmói
VF Krossmói
Líður vel á nýjum stað

B. Sif Stefánsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri hefur verið í eldlínu flutningsins með Ingibjörgu og öðru starfsfólki heilsuleikskólans Garðasels sem fluttist með börnunum á nýja heilsuleikskólann Asparlaut í Hlíðarhverfi í Keflavík. „Við erum bara nýflutt en börnin og starfsfólkið una sér mjög vel í nýjum og glæsilegum leikskóla. Okkur líður mjög vel á nýjum stað. Það er allt nýtt, ekki bara byggingin, heldur líka allt annað, innréttingar, húsgögn og leikföng. Við skoðuðum nýja leikskólann Grænuborg í Sandgerði sem er sama teikning og hönnun og náðum að sjá nokkrar breytingar sem við töldum til bóta hjá okkur. Krakkarnir eru alsælir með ný leikföng og geggjað útisvæði enda ekki annað hægt. Þetta er allt svo glæsilegt. Það kom fyrrverandi starfsmaður í heimsókn sem hafði unnið með okkur á gamla leikskólanum og sagði: ‘Þetta er bara eins og höll’ og það er hægt að taka undir það,“ sagði Sif en nún starfaði áður um tíma á leikskólanum Heiðarseli í Keflavík. Þær eru báðar menntaðir leikskólakennarar og með framhaldsmenntun í stjórnun menntastofnana.

Í byrjun eru rúmlega 90 börn í Asparlaut en á næstunni munu ný og fleiri börn koma í skólann og svo koma fleiri í haust þegar elstu hætta og fara í grunnskóla.

Ljúfar Garðaselminningar

Ingibjörg segir minningarnar frá Garðaseli ljúfar og það sé alltaf söknuður að skilja við gamlan vinnustað. Hún mætti til starfa þar nýútskrifaður leikskólakennari í júní 1989 og fagnar því 36 ára starfsafmæli í sumar. Hún segir að Garðasel hafi verið fyrsti leikskólinn á Suðurnesjum sem byrjaði með markvissa hreyfingu hjá börnunum í sal en árið 2012 varð skólinn formlega heilsuleikskóli. „Við byrjuðum með markvissa og skipulagða hreyfingu hjá börnunum og ég man að við fengum góða aðstoð frá Kjartani Mássyni, íþróttakennara við það sem þróaðist síðan með árunum. Meðal annars var líka stuðst við æfingar frá Dr. Janusi Guðlaugssyni sem kom síðar að heilsueflingu fyrir eldri borgara Reykjanesbæjar fyrir nokkrum árum. Nú störfum við sem heilsuleikskóli þar sem lögð er áhersla á hreyfingu, heilbrigða lífshætti og mataræði sem við fáum frá Skólamat og erum ánægð með. Einkunnarorð skólans okkar eru hreyfing, næring, virðing og skapandi starf,“ segir leikskólastjórinn og bætir við að hluti af þessu hafi verið að vera með rúmgóðan sal til hreyfingar í miðri byggingunni í Asparlaut.

Góð samvinna allra aðila

Leikskólinn Garðasel var kominn til ára sinna og þær stöllur segjast hafa verið ánægðar þegar þær fréttu af ákvörðun bæjarfélagsins að starfsemi Garðasels flytti í nýjan skóla. Strax hafi verið tekin ákvörðun um að vera með nýtt nafn á skólanum og deildunum sem eru sex en fjórar hafa verið teknar í notkun. Næstu tvær fara í notkun þegar börnunum fjölgar. Nýju deildirnar heita Sól, Sunna, Tungl, Máni, Stjarna og Geisli.

„Við skelltum okkur í málið og skoðuðum marga leikskóla og vorum í mjög góðu samstarfi með Jóni Stefáni arkitekt. Það var skemmtileg vinna með honum. Þá héldum við líka fundi með hverjum og einum starfsmanni um undirbúninginn og báðum þá um þeirra álit og hugmyndir. Það hefur líka gengið mjög vel. Við sögðum frá í upphafi að við værum að gera þetta öll saman og það hefur gengið eftir. Þá er líka gaman að segja frá því að aðstaða starfsfólks er nú allt önnur og betri,“ segja þær Ingibjörg og Sif og bæta því við að það sem hafi verið lögð áhersla á í byggingu leikskólans hafi verið nokkur atriði eins og hljóðvist, lýsing og loftræsting.

Græni liturinn góður

Græni liturinn er áberandi í Asparlaut og þá hafi viðurinn (fura) sem kom á húsið komið skemmtilega út. Stólarnir eru svo svargráir sem tónar vel við. „Græni liturinn er róandi og á vel við í okkar umhverfi. Þá erum við með frábært útileiksvæði sem börnin eru mjög ánægð með.“

Þær Ingibjörg og Sif hlakka til framtíðarinnar í Asparlaut en fram að þessu stendur uppúr frábært samstarf margra aðila sem hafa komið að byggingu og uppsetningu skólans. „Samvinnan var svo skemmtileg og árangursrík. Við erum bara búin að vera hér í stuttan tíma, erum þakklátar fyrir að fá að taka þátt í þessu spennandi verkefni og þökkum öllum samvinnuna og hlökkum til áframhaldsins.“