Karfan.is vill fá páskaegg með saltkaramellu
Davíð Eldur Baldursson er líklega þekktastur fyrir að reka vefinn karfan.is sem nafninu samkvæmt, fjallar um körfuknattleik og þá mest þann íslenska. Davíð er ótrúlega duglegur að virkja körfuboltaáhugafólk víðs vegar um landið til að fjalla um íþróttina og segja má að vertíð körfuknattleiks sé hafin, sjálf úrslitakeppnin og mun hún standa fram til loka maí en inn í það tímabil fléttast páskarnir en þá ætlar Davíð að vera í fríi - í París.
Hvað ætlar þú að gera um páskana?
Við fjölskyldan ætlum saman til París yfir páskana. Höfum aldrei farið þangað saman og hlökkum mikið til að heimsækja Ástrík, Steinrík, Mónu Lísu og okkar menn í PSG.
Gefur þú mörg páskaegg?
Þau verða líklega fjögur talsins. Kona og þrír drengir velja sér eitthvað.
Hvernig páskaegg langar þig í?
Hef verið í einhverjum lakkrísleiðangri síðustu ár en sá eitthvað með saltkaramellu um daginn og varð spenntur. Farinn að finna fyrir valkvíða.
Ætlar þú að ferðast innanlands eða erlendis í sumar?
Það verður lítið innanlands held ég fyrir utan eina helgi á Akureyri. Í kortunum er ferð með vinnunni til Lettlands í júní og svo með fjölskyldunni til Spánar í júlí. Ekki ólíklegt að maður fari svo að horfa á einhvern körfubolta, mögulega Svíþjóð í lok júní og svo er að sjálfsögðu EuroBasket í lok ágúst í Póllandi.
Hvernig hefur veturinn verið hjá þér?
Frekar annasamur. Full vinna, meiri vinna, kona og börn sem þurfa aðstoð við hluti. Sem betur fer allt gaman, viðráðanlegt og svo er ég heppinn með hvað mér líkar vel við alla sem ég þarf að umgangast.
Hvernig sumri spáir þú á Íslandi?
Vona bara það verði ekki mikið rok og ekki of mikil rigning. Eftir dimman vetur finnst mér við alltaf eiga skilið að fá aðeins að fara út í góða veðrið.
Við hvað fæst þú helst á sumrin?
Það er aðallega fjölskyldan, garðyrkja og skrif fyrir Körfuna. Blanda sem ég kann ákaflega vel við.
Hvað er það besta við íslenskt sumar?
Hvað það er bjart lengi. Vafalaust.
Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?
Væri til í 20-30 mínútna símtal með Garðari Eyfjörð. Helst bara um einhverja þvælu sem skiptir engu máli. Rökræða hvernig okkur finnist Legal Drug Money með Lost Boyz eldast, sögulegt mikilvægi Kanye West eða afhverju Darren Aronofsky káli alltaf öllum í myndunum sínum.
Ertu liðtæk/ur í eldhúsinu?
Nei, það sveltur samt enginn á minni vakt. Þegar ég hugsa út í það þá er ótrúlegt að ég sé ekki betri kokkur miðað við hvað ég sé oft um að útbúa einhvern mat. Líður samt eins og ég sé góður kokkur þegar ég er með Eldum rétt.
Hvað finnst þér virkilega gott að borða?
Nenni ekki að þykjast. Ég elska pítsur, gott kex og ís.
Hvað er í páskamatinn?
Það á eftir að fá að koma á óvart. Verðum erlendis, líklegast eitthvað gott, en hef ekki hugmynd. Það verða samt páskaegg. Kannski það eina örugga.
Hvað var bakað síðast á þínu heimili?
Ég bakaði kanilsnúða fyrir svona tveimur vikum. Pítsu í síðustu viku.
Ef þú fengir 2000 krónur. Hvað myndir þú kaupa í matinn?
Það er auðvelt, pulsur. Kosta sama og ekkert og allir borða þær.
Hvað hefur gott gerst hjá þér nýverið?
Sannarlega góðu hlutirnir eru óteljandi. Ég fæ að fylgjast með og hjálpa strákunum mínum að vaxa og dafna og fyrir mér er sú vegferð sú langsamlega mest gefandi og góð. Fyrir utan það, þá er ég að vinna ákveðið verkefni með góðum vini mínum sem mér finnst mjög áhugavert, fékk nýjan bíl í mars sem ég er ánægður með og er flesta daga í þægilegum sokkum.
Hvað hefur vont gerst?
Kom eitthvað hljóð sem ég kann ekki við í vinnubílnum mínum um daginn. Hef ekki látið athuga það ennþá. Keyrir ágætlega, en ég gruna að þetta verði eitthvað bras. Svona til að nefna eitthvað. Líka kannski, hvað forseti Bandaríkjanna er að gera við alþjóðakerfið, eitthvað sem veldur áhyggjum.
Hvaða bók mælir þú með að foreldrar lesi næst með börnunum sínum?
Vefurinn hennar Karlottu. Frábær saga um vináttu.