Félagslyndur bílasali með dellu fyrir veiði og Njarðvík
Handboltinn fyrsta íþróttin en körfuknattleikur tók svo yfir sviðið hjá Erlingi Hannessyni sem hlaut gullmerki Körfuknattleikssambandsins í vetur
„Ég sá að handboltinn myndi eiga undir högg að sækja, síðan þá hefur körfuknattleikur verið mín aðalíþrótt,“ segir Erlingur Rúnar Hannesson eða Elli Hannesar eins og hann er jafnan kallaður. Hann var sæmdur gullmerki KKÍ á ársþingi sambandsins sem fór fram á dögunum en fyrir utan störf sín fyrir körfuknattleiksíþróttina, þá hefur hann víða komið við og að það sé ekki nóg, heldur er hann bæði félagi í Kiwanisklúbbnum Keili í Keflavík og hefur verið í Lionsklúbbi Njarðvíkur síðan 2009. Stangveiði hefur lengi verið eitt aðaláhugamálið og fara sumrin í að sinna rekstri árinnar Eldvatns í Meðallandi. Það er ekki erfitt að ímynda sér að það séu fleiri klukkustundir í sólarhring Ella en flestra annarra. Atvinnan hefur lengst af snúist um bílasölu og í dag sinnir hann því í Bílakjarnanum sem er með umboð fyrir Heklu en frá árunum 1993-2003 rak hann tjaldsvæði Reykjanesbæjar, sem hann kallaði Gras Hilton, og um svipað leyti stóð hann fyrir karaoke keppni í Stapa á milli fyrirtækja á Suðurnesjum.
Elli ólst upp í Víkingshverfinu en þetta fornfræga félag er þekkt fyrir flest annað en körfuknattleik. Elli prófaði þá íþrótt um tíma hjá Ármanni en annars var handboltinn og knattspyrna hans íþróttir til að byrja með. Eiginkona Ella er Halldóra Halldórsdóttir og eiga þau 3 börn, Jens Arnar, Heiðu Björg og Rúnar Inga, en það var einmitt Halldóra sem átti stóran þátt í því að Elli fluttist suður með sjó.
„Ég er fæddur árið 1962 og flutti suður þegar ég var 22 ára gamall. Ætli megi ekki segja að ástin hafi spilað hlutverk í því en þó er konan mín ekki héðan, hún hafði flutt til Njarðvíkur frá Hafnarfirði einhverjum árum fyrr þar sem bróðir hennar, Ragnar Halldórsson, var með stórt og mikið smíðaverkstæði í Njarðvík. Líklega spilar áhugi Ragnars mágs míns inn í að körfuboltinn varð síðan mín aðalíþrótt en Ragnar er auðvitað faðir Friðriks og Ragnars sem léku lengi með Njarðvík, og Elvar Már er barnabarn hans.

Handboltinn var nokkuð stór í Njarðvík og Keflavík þegar ég flutti og ég lék lengi með Njarðvík, ég man t.d. eftir baráttu við Selfyssinga um að komast upp í efstu deild árið 1989, ekki löngu síðar voru þeir hársbreidd frá því að verða Íslandsmeistarar eftir baráttu við Kristján Arason og lærisveina hans í FH. Fljótlega var ég kominn í stjórn og svo voru þessi lið, Njarðvík og Keflavík, sameinuð en þegar leið undir lok tíunda áratugarins sáum við að handboltinn myndi eiga undir högg að sækja. Körfuboltinn hafði lengi verið aðal íþróttin í Njarðvík og á þessum árum komu Keflvíkingar sterkir upp svo handboltinn fjaraði hægt og rólega út, það var ekki pláss fyrir þrjár stórar boltaíþróttir á svæðinu. Nálægðin við Kanann skemmdi eflaust ekki fyrir körfuknattleiknum á svæðinu á þessum tíma. Eftir það hefur körfuknattleikur verið mitt helsta sport enda byrjuðu strákarnir mínir að æfa íþróttina og Rúnar Ingi lék upp í meistaraflokk og hefur síðan þá verið að þjálfa, fyrst unglingana, svo meistaraflokk kvenna og er með karlaliðið í dag.“

Stjórnarstörf
Eins og áður sagði var Elli kominn í stjórnarstörf fyrir handknattleiksdeild UMFN, fyrstu stjórnarstörfin voru hins vegar fyrir HSÍ undir lok 9.áratugarins. Hann var í stjórn knattspyrnudeildar Keflavíkur frá árunum 1999 - 2004 og náði að landa bikarmeistaratitli árið 2004. Hann hafði lengi fylgt sonum sínum eftir í körfunni og fór nokkrar ferðir sem fararstjóri á Scania Cup í Svíþjóð, sem er vinsælt alþjóðlegt körfuboltamót fyrir börn og unglinga. Þessar ferðir reyndust farseðilinn í störf fyrir Körfuknattleikssamband Íslands „Ég fylgdi sonum mínum alltaf mikið eftir, hafði mjög gaman af því að horfa á þá spila körfuknattleik og fann hvernig sú íþrótt greip mig heljartökum. Rúnar Ingi sem er yngsta barnið mitt, var hluti af mjög öflugum ´89 árgangi en liðið hans var mjög sigursælt. Ég fór í nokkrar ferðir með liðinu og í kjölfarið á því var ég beðinn um að koma í unglingalandsliðsnefnd KKÍ árið 2004 og má segja að ég hafi verið í einhverju hlutverki allar götur síðan þá fram til ársins 2023. Ég var um tíma í stjórn sambandsins og hef komið að flestu má segja, því þótti mér afskaplega vænt um að vera sæmdur gullmerki KKÍ á seinasta ársþingi. Það sem ég tek mest út úr þessum tíma er öll þau frábæru vinatengsl sem hafa myndast, hvort sem það eru landsliðsmenn sem maður fylgdi út á einhver mótin sem fararstjóri, eða bara hinir og þessir aðilar sem hafa starfað í kringum körfuknattleikinn.


2006-2008 var ég líka í stjórn körfuknattleiksdeildar UMFN og hef alltaf verið á kantinum þar má segja en í dag er ég varaformaður Ungmennafélags Njarðvíkur, er í raun tengiliður körfuknattleiks inn í aðalstjórnina. Ef ég lít til baka þá eru mín ár í stjórn körfuboltans ótrúlega minnisstæð þar sem við fórum með liðið okkar í Evrópukeppni þar sem andstæðingar í Rússlandi, Úkraínu og Eistlandi biðu okkar, það var alveg æðislegur tími. Í dag er mikill meðbyr í félaginu öllu, nýja íþróttahúsið var alger bylting má segja, þetta er auðvitað frábært körfuknattleikshús og mjög vel fer um alla áhorfendur en í leiðinni varð rýmra um aðrar greinar. Í dag erum við með körfuknattleik, knattspyrnu, sund, lyftingar, þríþraut og rafíþróttir. Reksturinn gengur mjög vel, við erum komin með fjármálastjóra og gjaldkera, framkvæmdastjóri hefur verið til fjölda ára og fljótlega bætist íþróttastjóri í flóruna, þessar stöður létta mjög mikið á sjálfboðaliðanum. Það er góður andi innan félagsins og það skemmir ekki fyrir hversu vel körfuboltaliðunum okkar hefur gengið í vetur, vorbúðinn ljúfi, úrslitakeppnin er byrjuð og hef ég bullandi trú á báðum liðum,“ segir Elli.

Kiwanis, Lions og stangveiði
Það er ekki algengt að fólk gefi sig bæði að störfum fyrir Kiwanis og Lions, svo ekki sé minnst á ef sjálfboðastarf fyrir körfuknattleikshreyfinguna m.a. er líka tekið inn í myndina. Elli hefur alltaf verið félagslyndur, pabbi hans var í ýmsu sjálfboðastarfi og Ella líður best að hafa nóg fyrir stafni en hans helsta áhugamál síðan hann var gutti, er veiði.
„Ég byrjaði að mæta á fundi hjá Kiwanisklúbbnum Keili árið 1989 og gekk í klúbbinn 1991, hef verið virkur meðlimur síðan þá, m.a. þrisvar sinnum verið forseti. Þetta dugði mér ekki, ég hef verið í Lionsklúbbi Njarðvíkur síðan 2007 og grínast félagarnir stundum með að mér hljóti að leiðast svona mikið heima hjá mér. Ég er bara alinn upp á þennan máta, pabbi heitinn var mjög virkur í alls kyns sjálfboðastarfi og þetta er bara eitthvað í blóðinu, að taka þátt í félagsstarfi. Konan mín og börn hafa alltaf stutt mig í öllu sem ég tek mér fyrir hendur og þau eru ansi tengt inn í þetta allt saman með mér því með svona marga bolta á lofti þarf maður aðstoð hér og þar, þetta er bara partur af fjölskyldunni okkar.
Síðan ég var gutti hefur veiði verið aðal áhugamálið, ætli ég hafi ekki verið u.þ.b. sex ára þegar ég fór með pabba að veiða í Eldvatni í Meðallandi, sem er fyrir neðan Kirkjubæjarklaustur. Ég og þrír aðrir höfum verið með þessa á í leigu síðan 2013 og erum að selja veiðileyfi í hana. Þetta er mest sjóbirtingur svo veiðitímabilið er frá 1. apríl til 1. júní, og svo aftur frá 10. ágúst til 20. október. Þetta er svokallað veiða/sleppa, allt veitt á flugu og hefur aldrei verið vandamál að selja veiðileyfin, þau eru öll uppseld í sumar t.d. Um tíma var ofveiði í ánni, menn fengu að veiða með maðk og spún og fiskgengndin datt niður, því tókum við þessa ákvörðun með að veiðimaðurinn þyrfti að sleppa. Þegar minnst var fór aflinn niður í rúma 100 fiska en í dag erum við fúlir ef það eru ekki 700 fiskar hið minnsta sem bíta á. Þeir sem ekki eru í veiði skilja ekki þetta með að veiða og sleppa en allir veiðimenn elska að fá fisk á stöngina, slást við hann og landa honum svo en sleppa, aðalatriðið er ekki að drepa fiskinn. Fiskurinn stækkar þá að sjálfsögðu ár frá ári og er einfaldlega slegist um að komast í þessa á, hún er ein vinsælasta sjóbirtingsá landsins.“

Bílasali alla tíð
Elli hefur helgað sig bílasölustarfi nánast alla sína starfstíð, hann hefur alltaf mætt góðum skilningi vinnuveitenda sinna varðandi sjálfboðastörfin og sumarfríin eru tekin í Eldvatni en hann hefur nýlega lært til leiðsögumanns.
„Ég byrjaði að vinna hjá Brimborg þegar ég var átján ára, var að þrífa bíla á kvöldin og fljótlega var ég kominn á kaf í sölumálin og hef nánast alltaf unnið við það, tók mér nokkurra ára frí og vann í launadeild hjá Íslenskum aðalverktökum og frá árunum 1993-2003 rak ég tjaldsvæði Reykjanesbæjar, kallaði það Gras Hilton. Ég var búinn að læra símsmíði, átti nokkra mánuði eftir á samningi en bílasalan heltók mig. Forstjóri Brimborgar fékk mig á fullum krafti í bílasöluna, þarna var Daihatsu Charade einn vinsælasti bíllinn, kýraugað vakti mikla athygli. Brimborg og Bernhard opnuðu svo útibú í Reykjanesbæ og síðan Bernhard var selt árið 2019, hef ég unnið hjá Sverri í Bílakjarnanum og kann mjög vel mig. Bílasalan hefur alltaf gengið í bylgjum, í dag sel ég meira af notuðum bílum, það hægðist á rafbílavæðingunni í fyrra þegar fríðindin duttu út og vaxtastigið sömuleiðis hátt. Mér sýnist samt að markaðurinn sé að jafna sig og þá fara nýju bílarnir að rjúka út aftur.
Ef þú spyrð mig hvar ég sjái mig eftir þrjú ár, ég verð farinn að huga að því að hætta að vinna en mun væntanlega verða á kafi í alls kyns sjálfboðastarfi. Ég lærði til leiðsögumanns í veiði í fyrra og sé fyrir mér að stunda það næstu sumur, ekki amalegt að geta haft atvinnu af aðaláhugamálinu. Ég næ að sinna þessu nokkuð vel í apríl og maí, svo aftur í ágúst og hef náð að nota sumarfríið í þetta. Annars ætla ég bara að halda áfram að hafa gaman af lífinu með fjölskyldunni, styðja Njarðvík í íþróttunum og sinna félagsstörfum,“ sagði Elli að lokum.

