Málþing um íþróttaiðkun barna með fatlanir á Suðurnesjum
Málþing um íþróttaiðkun barna með fatlanir á Suðurnesjum var haldið mánudaginn 24. mars í Hljómahöll þar sem rúmlega 70 manns mættu til að fræðast um og ræða stöðu íþróttaiðkunar barna með fatlanir á svæðinu.
Málþingið var samstarfsverkefni Íþróttafélagsins NES, Íþróttabandalags Reykjanesbæjar (ÍRB), Íþróttabandalags Suðurnesja (ÍS) og Íþróttasambands fatlaðra (ÍF). Svæðisfulltrúar íþróttahéraða á Suðurnesjum sáu um skipulag og utanhald málþingsins og var boðið upp á fimm erindi þar sem fagfólk og reynslumiklir einstaklingar úr íþróttahreyfingunni fóru yfir stöðu mála, hindranir og sóknarfæri sem tengjast málefninu. Þá flutti Kristín Margrét Ingibjargardóttir áhrifaríkt erindi þar sem sjónarmið og upplifun hennar sem foreldris barns með fatlanir innan íþróttahreyfingarinnar á Suðurnesjum vakti athygli gesta. Í kjölfar erinda var boðið upp á spurningar og umræður úr sal þar sem ýmis sjónarhorn komu fram er varðar aukið samstarf almennra íþróttafélaga, sveitarfélaga og skólasamfélagsins í þessum málaflokki. Málþinginu lauk með hópavinnu þar sem gestir og flutningsmenn erinda unnu saman að hugmyndum um framtíðarsýn íþróttaiðkunar barna með fatlanir á Suðurnesjum. Á næstu mánuðum er stefnt að því halda áfram markvissri vinnu að eflingu og samstarfi við hagaðila.
Myndir: Magnús Orri Arnarson

Jóhann Jóhannsson, formaður Íþróttafélagsins Nes á Suðurnesjum.

Valdimar Smári Gunnarsson frá íþróttasambandi fatlaðra á Íslandi.

Sigurður Friðrik Gunnarsson og Petra Rut Rúnarsdóttir, svæðisfulltrúar íþróttahéraða á Suðurnesjum.