Landhelgisgæslan
Landhelgisgæslan

Viðskipti

Spennt að sameina krafta okkar við Happy Campers
Þorsteinn Sverrisson, Sverrir Þorsteinsson, Ásgeir Baldurs, forstjóri Arctic Adventures, Herdís Jónsdóttir, stjórnarformaður Blue Mountain og Happy Campers, og Jón Sverrisson.
Miðvikudagur 9. apríl 2025 kl. 10:35

Spennt að sameina krafta okkar við Happy Campers

Arctic Adventures hefur fest kaup á öllu hlutafé í Happy Campers ehf., leiðandi fyrirtæki í leigu húsbíla á Íslandi. Fyrirtækið er með aðsetur í Reykjanesbæ. Með kaupunum mun Arctic Adventures geta boðið viðskiptavinum sínum enn meiri fjölbreytni í ferðaþjónustu, þar sem samruni fyrirtækjanna gerir kleift að samþætta húsbílaferðir við aðrar upplifunarferðir og áfangastaði. Þetta mun auðvelda ferðalöngum að skipuleggja og njóta ferða sinna um Ísland með auknum sveigjanleika og þægindum. Velta Happy Campers var um einn milljarður króna á síðasta ári.

Happy Campers hefur frá stofnun árið 2009 verið frumkvöðull í leigu húsbíla á Íslandi, með áherslu á einfaldleika, þægindi og sjálfbærni. Fyrirtækið hefur hlotið lof fyrir framúrskarandi þjónustu og hefur byggt upp sterkt orðspor meðal ferðalanga sem kjósa að kanna landið á eigin vegum.

VF Krossmói
VF Krossmói

„Við erum spennt að sameina krafta okkar við Happy Campers og gera okkur kleift að bjóða viðskiptavinum okkar enn betri og fjölbreyttari þjónustu. Happy Campers fellur vel að starfsemi Arctic Adventures sem er eitt öflugasta og rótgrónasta ferðaþjónustufyrirtæki landsins,“ segir Ásgeir Baldurs, forstjóri Arctic Adventures, í tilkynningu

„Við óskum Arctic Adventures til hamingju með kaupin og óskum þeim velfarnaðar um komandi ár í landslagi íslenskrar ferðaþjónustu. Það hefur verið ævintýralega skemmtilegt ferðalag að byggja upp Happy Campers að blómlegu fjölskyldu fyrirtæki, fyrst sinnar tegundar á Íslandi, en núna er komið að kaflaskiptum hjá okkur,“ segir Herdís Jónsdóttir, stjórnarformaður Blue Mountain og Happy Campers, í tilkynningunni um eigendaskiptin.

Stefna Arctic Adventures er að skapa ábyrgt og öruggt aðgengi að afþreyingu og áfangastöðum í íslenskri náttúru auk þess að bjóða upp á ferðaþjónustu um allt land. Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka sá um söluferlið á Happy Campers, Lex veitti seljendum ráðgjöf og Logos var ráðgjafi kaupanda. Kaupin eru með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda.