Keflvíkingar ekki af baki dottnir
Senn líður að lokum deildarkeppni Bónusdeildanna í körfuknattleik og eru liðin af Suðurnesjunum í misgóðum málum í aðdraganda vorboðans ljúfa, úrslitakeppninnar. Lið Keflvíkinga hafa verið talsvert á milli tannanna á fólki, bæði lið gerðu breytingar á þjálfara og er óhætt að segja að gengi beggja liða hafi verið undir væntingum. Sigurður Ingimundarson og Jón Halldór Eðvaldsson tóku við kvennaliðinu fljótlega á nýju ári og Sigurður tók sömuleiðis við karlaliðinu og er með Magnús Gunnarsson og fyrrnefndan Jón Halldór sér til aðstoðar. Kvennaliðið er í fjórða sæti og mun enda í því en karlaliðið er í kröppum dansi og þarf að vinna báða leiki sína og treysta á úrslit til að komast í úrslitakeppnina.
Sigurður Ingimundarson fór yfir tímabilið til þessa og rýndi í möguleikana sem eru í stöðinni, hann byrjaði á að tala um kvennaliðið.
„Við Jonni tókum við kvennaliðinu þegar eitthvað var liðið á janúar. Gengið hefur vissulega verið upp og ofan og líka eftir að deildinni var skipt upp í efri og neðri hluta. Margt hefur verið gott en annað ekki og hefur verið erfitt að eiga við. Við erum ekki lengur í bikarkeppninni og lítum einfaldlega þannig á stöðuna að það eru þrjár vikur fram að úrslitakeppni og við ætlum að mæta brjálaðar til leiks í hana. Það er fullt af frábærum leikmönnum í liðinu, miklir keppnismenn og ég lofa því að við mætum tilbúnar í úrslitakeppnina. Þegar hún byrjar þá er einfaldlega nýtt mót komið í gang og við Keflvíkingar þekkjum ekkert annað en ætla að fara alla leið og það verður engin breyting á því í ár, við höfum fulla trú á okkur þegar út í úrslitakeppnina verður komið. Við ætlum okkur að vera toppa í vor og ætlum okkur alla leið, við setjum þá pressu á okkur. Kvennalið Keflavíkur er það sigursælasta í sögunni og það er alltaf pressa að vinna, sama hvernig liðið er skipað. Að sjálfsögðu ætlum við okkur alla leið að titlinum og trúum að við verðum nógu góðar þegar að úrslitakeppninni kemur.“
Brött brekka hjá karlaliði Keflavíkur
„Já, þetta er búið að vera erfitt hjá karlaliðinu. Við vissum stöðuna á mannskapnum þegar við tókum við og höfum reynt að vinna með hana. Síðasti leikur var augljóslega mjög erfiður hjá okkur en þetta er þekkt í körfubolta, stundum bara gerast hlutir og maður ræður ekki neitt við neitt. Sem betur fer höfum við Keflvíkingar oftar verið hinum megin en þessi leikur á móti Stólunum var einfaldlega erfiður frá fyrstu mínútu. Þeir voru búnir að tapa tvisvar sinnum fyrir Keflavík og mættu dýrvitlausir til leiks. Við hittum ekkert á meðan allt fór ofan í hjá þeim og við náðum okkur aldrei á strik, staðan hríðversnaði hjá okkur á meðan þeim óx ásmegin. Þetta gerist stundum en það þýðir ekkert að dvelja við það, þessi leikur er búinn og nú verðum við einfaldlega að vinna næsta leik á móti Stjörnunni. Við eigum tvo leiki eftir en erum bara að einbeita okkur að þessum leik á móti Stjörnunni. Við eigum möguleika á að komast í úrslitakeppnina og verðum einfaldlega að byrja á að vinna næsta leik, okkar hugsun nær ekki lengra. Leikurinn er á föstudagskvöld og ég vil sjá íþróttahúsið okkar stútfullt af keflvískum aðdáendum.
Okkar lykill að sigri í þessum leik á móti Stjörnunni er varnarleikur, hann hefur ekki verið upp á sitt besta til þessa en ég veit að mínir menn geta spilað góða vörn. Það eru engin ný vísindi í þessu en með góðri vörn og stoppum koma auðveldar körfur á móti og alveg ljóst að við verðum að spila góða vörn. Þegar svona langt er liðið á tímabil eru æfingarnar ekki að vinna leikina, hvort sem við æfum vörn eitthvað sérstaklega, þetta snýst bara um hugarfar og ég veit að mínir menn mæta dýrvitlausir á föstudagskvöld,“ sagði Siggi að lokum.
Leikir liðanna í þessari viku:
Bónusdeild kvenna:
Þri 11. mars. Tindastóll - Grindavík 88 - 85
Mið 12. mars Valur - Njarðvík
Bónusdeild karla:
Fim 13. mars Valur - Grindavík
Fim 13. mars Njarðvík - Tindastóll
Fös 14. mars Keflavík - Stjarnan