Heklan
Heklan

Íþróttir

Ólafur Þór Jóhannsson, körfuknattleiksfrömuður úr Grindavík, fallinn frá
Miðvikudagur 5. febrúar 2025 kl. 12:33

Ólafur Þór Jóhannsson, körfuknattleiksfrömuður úr Grindavík, fallinn frá

Ólafur Þór Jóhannsson, körfuknattleiksfrömuður frá Grindavík, er fallinn frá.
Ólafur í leik gegn Njarðvíkingum. Ólafur skoraði sigurkörfuna í þessum leik.

Ólafur Þór byrjaði ungur að iðka körfuknattleik í litla íþróttasalnum við grunnskóla Grindavíkur og var einn lykilmanna liðs Grindavíkur þegar það komst loksins upp úr 1. deildinni árið 1987 og lék með liðinu í úrvalsdeildinni þar til keppnisskórnir fóru upp í hillu árið 1990. Það var vel við hæfi að fyrsta karfan í keppnisleik í nýju íþróttahúsi Grindvíkinga, yrði skoruð af Ólafi.

Eftir að skórnir fóru upp í hillu tók Ólafur til óspilltra málanna í stjórnarstörfum fyrir lið Grindvíkinga og síðar meir fyrir Körfuknattleikssamband Íslands. Hann var varaformaður KKÍ frá 1996-2001 og hefur hann verið sæmdur gullmerki KKÍ og UMFG fyrir sín vel unnu störf.
Áhrif Ólafs á grindvískan körfuknattleik eru ótvíræð. Öll börnin hans hafa með einum eða öðrum hætti komið að körfuknattleiksliðum Grindavíkur og í dag þjálfa tveir sonanna, Jóhann og Þorleifur, karla- og kvennalið félagsins og yngsti sonurinn, Ólafur, er fyrirliði. Elsta systirin, Sigríður Anna, varð Íslandsmeistari með Grindavík árið 1997.
Meðfylgjandi myndir voru teknar af Facebook-síðu Körfuknattleiksdeildar UMFG.
Ólafur Þór í S-inu sínu eftir sigurleik Grindvíkinga.
Ólafur skoraði sigurkörfuna á elleftu stundu, sumir vildu reyndar meina að karfan hafi verið skoruð á tólftu stundu.
Ólafur var mikill keppnismaður og reif niður ófá fráköstin á ferlinum.
Örugg tvö stig hjá Ólafi án þess að Helgi Rafnsson, miðherji Njarðvíkur, komi vörnum við.