Elvar Már ekki á neinum Evrópuafslætti í einni sterkustu körfuboltadeild Evrópu
Er orðinn sleipur í eldhúsinu
„Reglan varðandi útlendinga í grísku deildinni er þannig að sex uppaldir Grikkir þurfa að vera á leikskýrslu, aðrir leikmenn geta þess vegna allir verið frá Bandaríkjunum,“ segir körfuknattleiksmaðurinn Elvar Már Friðriksson en hann er á sínu öðru tímabili í grísku úrvalsdeildinni í körfuknattleik. Elvar er búinn að vera rúm tíu ár í atvinnumennsku víðsvegar í Evrópu og ætlar sér að hamra járnið á meðan það er heitt. Hann telur sig ennþá vera að bæta sig þó svo að hann verði 31 árs á þessu ári. Hann er lykilmaður í íslenska landsliðinu sem hefur verið að standa sig vel að undanförnu og hann fylgist vel með gangi mála í íslensku deildinni en áhugamál kappans eru m.a. í eldhúsinu.
Elvar kann vel við sig í Grikklandi, hitastigið þægilegt yfir veturinn og hann er orðinn mikill aðdáandi grískrar matarmenningar.
„Það er venjulega á bilinu fimmtán til sautján stiga hiti yfir veturinn og sól, mjög þægilegt og ég get ekki sagt að ég sakni íslenska vetrarins eitthvað sérstaklega. Þegar ég kem heim í landsliðsverkefni og dvel í u.þ.b. viku finnst mér ósköp notalegt að fara aftur út í hlýrra loftslag. Ég er virkilega farinn að kunna að meta gríska matargerð og reyni að prófa sem mest en einn af styrktaraðilum klúbbsins er með veitingastað og þangað getum við leikmennirnir farið reglulega og borðað. Ég hef mikinn áhuga á eldamennsku og finnst gaman að elda góðan mat, á pottþétt eftir að kynna mér betur hvernig grískur matur er eldaður en þetta er kannski einn helsti kosturinn við búa á mismunandi stöðum í heiminum, maður kynnist alls kyns matarmenningu.“
Elvar bý í höfuðborginni Aþenu sem er í Suður-Grikklandi og spilar með liði sem heitir Maroussi.
„Í fyrra var ég í Þessalóníku sem er í Norður-Grikklandi og lék með PAOK svo ég hef prófað báða staði. Aþena er miklu stærri borg en ég kann mjög vel við mig hér. Konan mín og fimm ára gamall sonur koma reglulega til mín en hann byrjar í skóla næsta vetur svo við þurfum að hugleiða hvar við viljum vera á næsta tímabili. Ég er með samning út þetta tímabil og svo kemur bara í ljós hvað tekur við en það er aðeins meiri hausverkur að ákveða það eftir að við þurfum að spá í hvar best verður fyrir drenginn að fara í skóla.“
Sex Grikkir og sex útlendingar
Elvar verður í öðru viðtali hjá Víkurfréttum á næstunni þar sem umfjöllunarefnið verður fjöldi útlendinga í íslensku deildinni í körfuknattleik. Í Grikklandi er skylda fyrir öll lið að vera með sex uppalda Grikki í hóp sínum en hinir sex mega þess vegna allir vera frá Bandaríkjunum, Evrópumenn eru ekki á neinum sérkjörum. Elvari finnst skrýtið að íslenska deildin sé ekki með nein höft en það að hann sé á meðal útlendinga liðsins þegar mikill fjöldi Bandaríkjamanna er í atvinnumennsku, segir allt sem segja þarf um gæði Elvars.
„Jú, það má kannski segja að þetta sé ákveðin rós í hnappagatið, ef maður vill klappa sér á bakið. Það er auðvelt að bera saman tvo prófíla, annan frá Íslandi, hinn frá Bandaríkjunum en þar er auðvitað miklu ríkari körfuboltahefð. Ég hef bara stöðugt náð að bæta mig frá því að ég hóf atvinnumannaferilinn og kannski taka félög eftir því. Ég hef náð að standa undir þeim væntingum sem til mín eru gerðar og svo er ég auðvitað kominn með talsverða reynslu og það telur líka. Ég er með góðan leikskilning og hef í raun alltaf verið að bæta mig og tel mig ennþá geta bætt mig sem leikmann. Það er kannski lykilatriði, að vera aldrei sáttur heldur reyna stöðugt að bæta sig, þannig tekst mér alla vega að halda báðum fótum á jörðinni. Ég passa mig á að fara aldrei of hátt upp og sömuleiðis verður að passa upp á að fara ekki langt niður heldur. Ég legg mikla rækt við hugarþjálfun og það er í raun jafn stór, ef ekki stærri hluti af leiknum,“ segir Elvar Már.
Slepptu leikhléum vegna láta
Gríska deildin er talin á meðal sterkustu deilda Evrópu og t.a.m. var Panathinaikos sigurvegari í Euroleuge á síðasta tímabili, sem er sterkasta Evrópukeppni félagsliða. Panathinaikos er í sömu borg og lið Elvars en oft eru um tuttugu þúsund manns á leikjum liðsins. Elvar upplifði stemningu á síðasta tímabili sem hann er ekki viss um að fá að upplifa aftur.
„Olympiakos og Panathinaikos eru á meðal risanna í evrópskum körfuknattleik en þar fyrir utan eru sjö önnur lið sem eru að keppa í Evrópukeppnum. Því miður hefur mætingin á heimaleiki okkar í vetur verið döpur en á síðasta tímabili þegar ég lék með PAOK, þá fékk ég að upplifa nokkra ótrúlega leiki. PAOK hefur venjulega verið með sterkt lið og þegar við mættum t.d. ARIS sem er líka frá Þessalóníku, þurftum við lögreglufylgd tveggja sérsveitarbíla á leiðinni í keppnishöllina, einn fyrir framan og einn fyrir aftan. Vopnaðir lögreglumenn voru svo með skildi yfir okkur þegar við gengum inn í höllina. Það er til Youtube-myndband af þessum leik sem var sögufrægur, lætin voru ótrúleg, klósettpappírsrúllum dritað inn á völlinn og í leikhléum gátum við sleppt því að reyna heyra hvað þjálfarinn var að segja, þotulúðrarnir voru nánast ofan í okkur svo við slepptum bara að reyna tala saman.
Það eru auðvitað forréttindi að fá að leika á svo stóru sviði og þar sem ég tel mig ennþá vera bæta mig mun ég halda ótrauður áfram. Íslenska landsliðið hefur verið á góðu skriði og við stefnum á næsta Eurobasket. Hversu lengi ég get teygt á atvinnumennskunni kemur bara í ljós, ég hef hingað til verið heppinn með meiðsli en maður veit aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Eigum við ekki að segja að draumurinn sé svo að enda ferilinn í grænu Njarðvíkurtreyjunni, nýja húsið er glæsilegt og verður gaman að fá að prófa það næsta sumar, og vonandi oftar í framtíðinni,“ sagði Elvar Már að lokum.