HSS
HSS

Íþróttir

Pétur látinn fara - Callum til Keflavíkur
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 3. febrúar 2025 kl. 19:05

Pétur látinn fara - Callum til Keflavíkur

Stjórn körfuknattleiksdeildar Keflavíkur og Pétur Ingvarsson hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu um að Pétur stígi til hliðar sem þjálfari liðsins. Háværar raddir hafa verið meðal stuðningsmanna um að hann yrði látinn fara sem varð raunin í dag en gengi Keflavíkur hefur þótt óásættanlegt í vetur. Í dag var einnig greint frá endurkomu leikmannsins Callum Lawson.

Í yfirlýsingu Stjórnar körfuknattleiksdeildarinnar segir:

„Pétur kom inn sem þjálfari á síðasta tímabili og óhætt að segja að hann hafi komið með ferskan blæ og hafði strax mikil og jákvæð áhrif á klúbbinn í heild sinni. Hann stýrði liðinu til sigurs í VÍS bikarnum sem var fyrsti bikartitill liðsins frá 2012. Að auki fór liðið alla leið í oddaleik undanúrslita Subway deildarinnar. Stjórn deildarinnar vill þakka honum fyrir hans góðu störf og óskar honum alls hins besta í framtíðinni.

Framundan er heimaleikur gegn ÍR næstkomandi fimmtudag en Magnús Þór Gunnarsson mun stýra liðinu í þeim leik. Það er von okkar að Keflvíkingar standi þétt við bakið á okkar liði í þeim leik.“

Keflavík bætir enn við leikmannahópinn en rétt fyrir lok félagaskiptagluggans var greint frá því að við Callum Lawson væri kominn aftur til liðsins. Hann spilaði með Keflavík tímabilið 2019/2020, það tímabil var ekki klárað vegna Covid.

Callum hefur orðið Íslandsmeistari með Þór Þorlákshöfn og Val.

Hann er nú þegar lentur og byrjaður að æfa með liðinu.