Rask á samgöngum vegna óveðurs
Ekkert ferðaveður í kortunum
Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula veðurviðvörun sem tekur gildi klukkan 14:00 í dag, miðvikudaginn 5. febrúar. Ekkert ferðaveður verður seinni partinn í dag en spáð er sunnan og suðvestan 23–30 m/s og hviðum yfir 35 m/s á Faxaflóa og Reykjanesi. Appelsínugul viðvörun er í gildi til 01:00 í nótt.
Veðrið kemur til með að raska samgöngum en á vef Strætó bs. kemur fram að ferðir með leið 55 verða felldar niður eftir að appelsínugul viðvörun tekur gildi. Síðasta ferð frá Firði til Keflavikur leggur af stað klukkan 12:53 og síðasta ferð frá Keflavik inn í Fjörð fer kl. 13:45 ef veður leyfir.
Á Facebook-síðu Reykjanesbæjar eru allir hvattir til að ganga frá lausamunum; sorptunnum, skýlum og öðru sem tekið getur á loft í veðri sem þessu, til að koma í veg fyrir foktjón. Þá eru foreldrar hvattir til að fylgist vel með tilkynningum frá skólum og vera viðbúnir að sækja börnin sín í skóla- og frístundastarf í lok dags.
Á Facebook-síðu Suðurnesjabæjar eru foreldrar vinsamlegast beðnir að sækja börnin sín í leikskóla, grunnskóla og frístund klukkan 13:15 í dag.
„Þessi ráðstöfun er gerð til að tryggja öryggi barna og starfsfólks í ljósi væntanlegra veðuraðstæðna. Við biðjumst velvirðingar á því ónæði sem þetta kann að valda, en öryggi allra er í forgrunni,“ segir í færslu neyðarstjórnar Suðurnesjabæjar.