Mikil uppbygging í varnar- og öryggismálum framundan
„Miklar áskoranir fyrir Suðurnesin sem eru okkar helsta útstöð,“ segir utanríkisráðherra
„Okkar vantar heildstæða stefnu í þessum málum, ekki síst með tilliti til gríðarlega breyttra aðstæðna sem eru í dag og við þurfum líka að sjá hvernig samtöl okkar við NATO-ríkin og eins Bandaríkin þróast, við eigum mikið undir,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, í viðtali við Víkurfréttir að loknum ríkisstjórnarfundi í Keflavík.
Þorgerður segir að framundan séu breytingar á varnarmálum Íslands.
„Við erum að fara yfir alla þessa þætti en ríkisstjórnin er að móta öryggis- og varnarstefnu og þungamiðjan í því er auðvitað flugvöllurinn í Keflavík og varnarliðssvæðið, sem er á ábyrgð utanríkisráðuneytisins. Við þurfum að standa við okkar skuldbindingar, við þurfum að skoða alla innviði hér í samstarfi við Landhelgisgæsluna og lögregluna, samstarf sem hefur alltaf verið gott. Það eru miklar áskoranir fyrir þetta svæði hér á Suðurnesjunum þegar kemur að varnarmálum, þetta er okkar helsta útstöð þegar kemur að þessum málum.
Ég á von á enn meiri uppbyggingu á þessu svæði en við tökum ekki ákvörðun um það fyrr en okkar sjálfstæða mat á stöðunni liggur fyrir. Á fundinum með sveitarfélögunum barst viðbótar flugbraut í tal, bæði hvað varðar öryggi landsmanna en líka til að ýta undir aðstoð við NATO. Það er stórkostlegt að koma upp á flugvöll og hitta flugsveitirnar og kafbátaleitasveitirnar, og sjá þakklæti þeirra yfir þjónustunni sem þeim er veitt af hendi Landhelgisgæslunnar. Við þurfum að kortleggja stöðuna, ákveða okkar stefnu og standa við okkar skuldbindingar gagnvart NATO en ekki síst, gagnvart okkar borgurum. Við þurfum að fara yfir innviðina og huga að öryggi okkar allra.“
Kemur uppbygging Landhelgisgæslunnar varðandi skipin í Njarðvík inn á borð utanríkisráðherra?
„Þessi mál eru formlega á borði dómsmálaráðherra og ég veit að hún er að fara hitta forsvarsfólk sveitarfélaganna vegna þess máls og er líka í góðu samtali við Landhelgisgæsluna en þetta er auðvitað hluti af því sem þarf að meta í heildstæðri nálgun í öryggis- og varnarmálum landsins. Okkur vantar heildstæða stefnu í þessum málum, ekki síst með tilliti til gríðarlega breyttra aðstæðna sem eru í dag og við þurfum líka að sjá hvernig samtöl okkar við NATO-ríkin og eins Bandaríkin, þróast, við eigum mikið undir. Bandaríkin líka, við erum hluti af þeirra öryggissvæði svo það eru gagnkvæmir hagsmunir þar í húfi svo hér verði komið á öflugu skipulagi til skemmri og lengri tíma.
Ég sé fyrir mér talsverða uppbyggingu hér á svæðinu, það er ljóst að þörfin er til staðar, Suðurnesin leika lykilhlutverk í þessum málum. Við þurfum bara að samþætta þessi mál þessum helstu stofnunum og best er að þetta sé allt á einum og sama staðnum, svo allar varnaraðgerðir séu sem bestar.
Þessi vinna þarf að ganga hratt fyrir sig, ég hafði boðað að henni yrði lokið í október eða nóvember en mér sýnist á öllu að við þurfum að hraða henni enn frekar en mjög margt er tilbúið nú þegar. Mér finnst líka dýrmætt að sjá að það eru ekki bara stofnanirnar sem eru tilbúnar í þessar breytingar heldur líka sveitarfélögin hér á Suðurnesjum, það fann ég vel á þessum fundi hér í dag,“ sagði Þorgerður Katrín.