Mikil gróska á Suðurnesjum og svæðið mjög áhugavert
„Ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu styðja áfram við bakið á Grindavík og Grindvíkingum,“ segir forsætisráðherra Íslands, Kristrún Frostadóttir. Hún mætti ásamt ríkisstjórn sinni til Reykjanesbæjar á föstudaginn og hélt fund með sveitarstjórnarfólki á Suðurnesjum.
„Það var gríðarlega gott að koma hingað. Við höfum átt í virku samtali við svæðið á síðustu vikum, t.d. var mennta- og barnamálaráðherra í heimsókn hér fyrir skömmu. Þetta er gríðarlega áhugavert svæði, það er mikil gróska á Suðurnesjum, íbúafjölgun er mest á þessu svæði og ég myndi segja að þessi fundur hafi verið mjög jákvæður. Mikilli fólksfjölgun fylgja ákveðnar áskoranir og það var meðal þess sem var rætt á þessum fundi. Við erum meðvituð um að það kreppir að í ýmsum innviðamálum, t.d. í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, ég hef sjálf heimsótt skólann og veit hvernig staðan er þar. Fólk hefur áhyggjur af stöðu barna með fjölþættan vanda, við í ríkisstjórninni höfum tekið þetta til okkar og erum með virka vinnu í gangi til að ná yfirsýn yfir þann kostnað sem sveitarfélögin og ríkið eru með vegna málaflokksins og líka varðandi öryggisvistun. Við vonumst til að geta komið með tillögur hvað þetta varðar á næstunni og eins þarf að huga að vegakerfinu hér á svæðinu, það er margt sem þarf að huga að á Suðurnesjum.“
Stærsta málið er kannski málefni Grindavíkur?
„Grindavík kom að sjálfsögðu upp á fundinum og við áttum sérstakan fund með Grindvíkingum. Það er mikil greiningarvinna í gangi núna í forsætisráðuneytinu og stjórnsýslunni allri, á raunstöðunni í Grindavík. Það hefur margt verið gríðarlega vel gert en það skiptir máli að vera ekki í stöðugu viðbragði og endalausum framlengingum á upphafsúrræðum. Við höfum fengið til liðs við okkur þýska sérfræðinga í framtíðarfræðum, til að hjálpa okkur við að greina sviðsmyndir varðandi úrræði og svo hlustum við að sjálfsögðu á að það er ákveðinn fjárhagsvandi hjá sveitarfélögunum í kringum Grindavík, vegna fjölda barnafjölskyldna sem komu frá Grindavík, það er eitt þeirra mála sem þarf að leysa.
Ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu halda áfram að styðja við bakið á Grindavík og Grindvíkingum. Ég hef sagt það áður og segi það hér, ég hef mestar áhyggjur af fólkinu, af mannauðnum, við þurfum að sjálfsögðu líka að huga að innviðunum og Grindavík er mjög mikilvægt svæði en fólkið er það mikilvægasta. Við þurfum að passa að félagslegu úrræðin séu til staðar, við erum að skoða húsnæðisstuðninginn, við þurfum að þrengja hann á einhverjum stöðum því við vitum að sumir hópar eru að fá stuðninginn án þess að þurfa á honum að halda en svo eru aðrir aðilar sem verða að fá áframhaldandi stuðning. Það er líka verið að leggja mat á aðgerðir fyrir grindvísk fyrirtæki og svo þarf að skoða rammann heilt yfir fyrir bæinn,“ segir Kristrún.
Nú hefur verið talsvert í umræðunni að Grindvíkingar eru með lögheimili sitt skráð í Grindavík, alla vega annar aðilinn en þjónusta sé þegin í öðru sveitarfélagi. Hvernig má leysa það og hvernig verður með Grindavíkurnefndina?
„Ég skil vel að þetta sé vandamál, þetta er úrræði sem gripið var til á sínum tíma og var fullkomlega löglegt þá en núna er liðinn talsverður tími síðan og þetta skapar vandamál. Þetta er eitt af því sem við erum að skoða og munum gera með sveitarfélögunum hér á svæðinu og bæjarstjórn Grindavíkur, við munum leysa þetta mál í sameiningu.
Það verður breyting á Grindavíkurnefndinni, við erum á lokametrunum með að útfæra þessar breytingar en lykilatriði í því er að styrkja nefndina á þessum tímamótum. Við vitum að það hefur skort á ákveðna greiningargetu í nefndina, við viljum valdefla hana og nota þá fjármuni sem henni er ætluð, með betri hætti,“ sagði Kristrún að lokum.