Fréttir

Lýstu áhyggjum af sjávarflóðum við ríkisstjórnina daginn fyrir hamfaraflóð
Séð yfir Hvalsnes síðasta laugardag. Þar eru stór svæði undir sjó. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Fimmtudagur 6. mars 2025 kl. 06:34

Lýstu áhyggjum af sjávarflóðum við ríkisstjórnina daginn fyrir hamfaraflóð

Suðurnesjabær ræddi sjávarflóð og sjóvarnir við ráðherra ríkisstjórnarinnar þegar ríkisstjórnin boðaði fulltrúa sveitarfélaganna á Suðurnesjum á sinn fund síðasta föstudag. Tæpum sólarhring eftir að ríkisstjórnin veitti Suðurnesjabæ áheyrn raungerðust áhyggjur bæjarins með hamfaraflóðum við strönd Suðurnesjabæjar.

„Ég lagði áherslu á sjóvarnir og mun hitta innviðaráðherra fljótlega út af því. Við höfum svo margoft bent á breytingar sem eru í gangi varðandi ágang sjávar og það er greinilega hækkun á sjávarborði þannig að við höfum áhyggjur af því á svæðum meðfram ströndinni. Ég lagði áherslu á þetta og það var gott að fá þetta tækifæri til þess að ræða þessi mál,“ sagði Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suður-nesjabæ, í samtali við Víkurfréttir eftir fundinn með ríkisstjórninni.

Á þessu ári mun ríkisvaldið verja sem nemur 1,6 milljarði króna til hafna og sjóvarna. Vegagerðin sér um sjóvarnir fyrir hönd ríkisins. Ríkissjóður greiðir 7/8 hluta kostnaðar en sveitarfélög og viðkomandi landeigendur greiða 1/8 hluta.

Séð yfir Nátthaga. Vegurinn rofnaði á kafla þar sem sjórinn flæddi yfir hann.

Stór svæði í Suðurnesjabæ eru umflotin sjó eftir óveður sem gerði um nýliðna helgi þar sem fóru saman vont veður í hafi, há sjávarstaða og óhagstæð vindátt. Víða flæddi langt upp á land snemma á laugardagsmorgun og svo bætti í á sunnudagskvöld og á mánudagsmorgun.

Í Suðurnesjabæ má segja að hamfarasvæðið hafi náð alveg frá Gerðum í Garði og að sveitarfélagamörkum Suðurnesjabæjar og Reykjanesbæjar í Ósabotnum. Í Höfnum í Reykjanesbæ urðu einnig skemmdir vegna flóða við hafnarsvæðið á laugardagsmorgun.

Enn á eftir að koma í ljós hversu mikið tjón hlaust af sjávarflóðum. Sjór fór inn í eitthvað af mannvirkjum. Þá hafa sjóvarnagarðar látið á sjá og víða er sjávarbakkinn orðinn þannig að sjór á orðið greiða leið upp á land.

Mikil sjávarflóð urðu í Nátthaga, frístundabyggð milli Garðs og Sandgerðis. Þar varð ófært um hluta svæðisins vegna flóðsins. Þá eru þrjár brautir Kirkjubólsvallar á kafi í sjó. Miklar sjávartjarnir eru víða með ströndinni milli Garðs og Sandgerðis og einnig frá Sandgerði og að Stafnesi. Stór svæði eru sem hafsjór yfir að horfa.

Paradísarkot fremst á myndinni og Norðurkot er handan við sjávartjörnina.

Sjávarflóð í Suðurnesjabæ 1. til 3. mars 2025