Fréttir

Hugur í Grindvíkingum að snúa aftur heim
Bæjarstjórn Grindavíkur með ríkisstjórninni að loknum fundi í Keflavík. VF/pket.
Fimmtudagur 6. mars 2025 kl. 06:48

Hugur í Grindvíkingum að snúa aftur heim

„Það er hugur í Grindvíkingum að snúa aftur heim til Grindavíkur,“ sagði Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, að loknum fundi með ríkisstjórn Íslands á Hótel Keflavík í Reykjanesbæ. Bæjarstjórn Grindavíkur mætti til fundar við ríkisstjórnina til að fara yfir stöðu mála.

„Þetta var mjög góður fundur og við erum ríkisstjórninni þakklát fyrir að koma hingað og hitta okkur. Það er auðvitað að ýmsu að taka í Grindavík en við reyndum að vera hnitmiðuð og taka helstu málaflokkana fyrir, þá bæði mannvirkin í bænum en ekki síst fólkið okkar, allt frá börnum til eldra fólks.

Það má segja að það sé heilmikil óvissa hvað varðar framtíð Grindavíkur en við lögðum áherslu á að það sé rétt að hefja endurreisn bæjarins sem fyrst, eða hið minnsta að huga að undirbúningi flutnings. Það skiptir miklu máli að vera undirbúin þegar tímapunkturinn kemur að talið sé tryggt að flytja til baka og við höfum verið að reyna stilla saman einhverja tímalínu. Okkur hefur fundist ríkisvaldið vilja bíða og sjá til, við viljum hins vegar hraða framkvæmdum svo við séum í stakk búin þegar tækifærin gefast og náttúran leyfir okkur.“

Er hægt að nefna eitthvað varðandi endurreisn bæjarins, t.d. hvenær hefja eigi skólahald?

„Við höfum að sjálfsögðu rætt það en það er erfitt að tímasetja slíkt. Raunhæfara er að stefna á að barnlaus pör flytji fyrst því það að hefja skólahald kallar á ýmislegt en hægt og bítandi verði bætt við þjónustuna og við leggjum líka áherslu á að það þarf að vera blómlegt mannlíf en að sjálfsögðu þarf líka að vera öflugt atvinnulíf. Við fórum yfir með ríkisstjórninni hvernig hægt verður að styðja við atvinnulíf í Grindavík, eins og bara við bæjarfélagið í heild sinni, eins og ríkisstjórnin og alþingi hefur gert til þessa.

Það er mikill hugur í Grindvíkingum og verður gott að styðjast við könnun sem er í gangi núna meðal Grindvíkinga, varðandi flutning aftur til Grindavíkur, og þá hvenær viðkomandi getur hugsað sér að flytja. Við vitum að margir Grindvíkingar bíða eftir tækifærinu á að flytja aftur heim og þótt að Þórkatla sé búið að kaupa um 90% alls íbúðarhúsnæðis í Grindavík, þá vilja Grindvíkingar komast aftur heim. Hollvinasamningarnir eru til marks um vilja Grindvíkinga og við teljum mikilvægt að orðalaginu í þeim verði breytt og Grindvíkingum verði gefinn kostur á að gista á gamla heimilinu sínu. Fólk þarf að geta mátað sig við aðstæður og í kjölfarið hugsanlega að gera leigusamning og svo að nýta forkaupsrétt sinn á húsnæðinu en til að byrja með að prófa að dvelja í bænum, slá garðinn og bera á grindverkið. Það má ekki gleyma að það er til hagsbóta fyrir ríkið að þessum eignum sem metin eru á um 70 milljarða, sé haldið við.“

Fannar segir miklar framkvæmdir hafa átt sér stað í Grindavík, búið sé að kortleggja allar sprungur, gera við sumar og girða aðrar af.

„Nú þarf bara að klára það verkefni og með hækkandi sólu eykst bjartsýni okkar. Við erum enn og aftur í þeirri stöðu að bíða eftir næsta eldgosi en vísindafólkið okkar telur lang líklegast að ef að gjósi, að þá verði það á þessum svipuðu slóðum og undanfarið og þ.a.l. utan varnargarða. Grindvíkingar eru farnir að þekkja þetta vel, það verður rýming á meðan atburður fer af stað en svo verður hleypt inn í bæinn um leið og það er talið öruggt og eðlilegt líf fer aftur af stað. Við eigum ekki von á neinu öðru munstri núna, varnargarðarnir hafa bjargað Grindavík og Svartsengi og gera það vonandi áfram, ég er bjartsýnn á framtíð Grindavíkur,“ sagði Fannar.