Íþróttir

Íþróttaannáll 2024 (október, nóvember og desember)
Kraftlyftingakonan Elsa Pálsdóttir.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 6. janúar 2025 kl. 11:40

Íþróttaannáll 2024 (október, nóvember og desember)

Október:

Tveir heimsmeistaratitlar og eitt heimsmet

Kraftlyftingakonan Elsa Pálsdóttir úr Massa varði heimsmeistaratitil sinn í klassískum kraftlyftingum í Masters-flokki auk þess að verða heimsmeistari í búnaði og setja heimsmet í réttstöðu. Þetta er fjórða árið í röð þar sem Elsa verður bæði heims- og Evrópumeistari.

„Ótrúlegt en satt, heimsmeistari á mínu fyrsta móti í búnaði,“ segir Elsa í færslu á Facebook eftir að hún varð heimsmeistari í kraftlyftingum í búnaði – og það í fyrstu tilraun.

Ferð Elsu til Suður-Afríku var sannkölluð frægðarför; tveir heimsmeistaratitlar, eitt heimsmet, tvö gull í hnébeygju, tvö silfur í bekkpressu og tvö gull í réttstöðu. Ekki slæmt hjá konu sem varð sextíu og fjögurra ára í byrjun þessarar viku en Elsa segist yngjast með hverju árinu.

Njarðvík vígði troðfulla IceMar-höllina með sigri

Það var kraftur í Njarðvíkingum í kvöld þegar þeir unnu góðan sigur í fyrsta leiknum á nýjum heimavelli.
Njarðvíkingar hófu í október nýjan kafla í sögu félagsins á sigri þegar ný og glæsileg körfuknattleikshöll, IceMar-höllin, var formlega tekin í notkun.

Vel yfir 900 áhorfendur mættu á leikinn og sáu Njarðvík vinna Álftanes með níu stigum eftir hörkuleik í Bónusdeild karla í körfuknattleik.

Suðurnesjaliðin Njarðvík og Grindavík höfðu mæst í kveðjuleiknum í Ljónagryfjunni fyrr í mánuðinum og var viðeigandi að þeim leik skyldi ljúka með sigri Ljónynjanna, 60:54.

Hringnum lokað hjá númer fjórtán í Ljónagryfjunni. Gunnar Þorvarðarson lék fyrsta leikinn sem var spilaður í Ljónagryfjunni, Logi sonur hans átti að spila þann síðasta en það átti eftir að breytast og að lokum féll það í hlut Söru Bjarkar, dóttur Loga og barnabarns Gunnars, að leika kveðjuleikinn. Treyja númer 14 hefur haldist innan fjölskyldunnar.

Gylfi Tryggvason þjálfar sameinað kvennalið Grindavíkur/Njarðvíkur

Frá ráðningu Gylfa.
Knattspyrnudeildir Grindavíkur og Njarðvíkur kynntu Gylfa Tryggvason sem nýjan þjálfara meistaraflokks kvenna hjá sameiginlegu liði Grindavíkur og Njarðvíkur.

Á Facebook-síðum deildanna sagði að bundnar séu miklar væntingar við ráðningu Gylfa fyrir uppgang kvennaknattspyrnunnar á Suðurnesjum og þar sagði jafnframt:

„Samningurinn gildir út tímabilið 2027 og er þessi ráðning gríðarlega spennandi fyrir framtíð kvennaknattspyrnunnar á Suðurnesjum.

Gylfi mun gegna lykilhlutverki í því að leiða kvennaknattspyrnu á Suðurnesjum inn í nýjan kafla með markmiðið að efla liðið og koma því á hærri stall.“

Silfur í  Macau

Sigurður Guðmundsson næstbesti kylfingur í heimi í sínum flokki

Siggi og Víðir Tómasson, þjálfarinn hans, flagga silfurmedalíunni eftir verðlaunaafhendinguna.

Kylfingurinn Sigurður Guðmundsson, kylfingur úr Suðurnesjabæ, hélt til Macau þar sem hann keppti á einu sterkasta golfmóti fatlaðra í heiminum og náði frábærum árangri en Siggi hafnaði í öðru sæti í sínum flokki.

Keppendur í mótinu komu víðsvegar að, m.a. frá Finnlandi, Svíþjóð, Ástralíu, Bandaríkjunum, Hong Kong og auðvitað Íslandi. Alls voru fimmtán keppendur í sama flokki og Sigurður en Siggi sló þeim flestum við þegar hann lék hringina tvo á 163 höggum (80 og 83 högg).

Ástvaldur Íslandsmeistari í rennuflokki í boccia

Vilhjálmur, Helgi og Bryndís standa fyrir aftan Íslandsmeistarann Ástvald Ragnar en þau stóðu sig öll frábærlega á Íslandsmótinu í boccia.

Íslandsmóti Íþróttasambands fatlaðra í einliðaleik í boccia fór fram í Laugardalshöll. Mótið var haldið í samstarfi við Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík sem fagnaði 50 ára afmæli sínu á árinu en ÍFR er elsta íþróttafélag fatlaðra á Íslandi.

Nítján keppendur frá Nes tóku þátt í mótinu og fjórir þeirra náðu á pall. Ástvaldur Ragnar Bjarnason varð Íslandsmeistari í rennuflokki, Bryndís Brynjólfsdóttir tapaði naumlega úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn í fyrstu deild og hafnaði í öðru sæti, Vilhjálmur Þór Jónsson hafði sigur í annarri deild og Helgi Sæmundsson endaði í þriðja sæti í fimmtu deild.

Nóvember:

Freysteinn Ingi til reynslu hjá IFK Norrköping

Hjá Norrköping hittir Freysteinn fyrir annan Njarðvíking en Arnór Ingvi Traustason er á mála hjá félaginu um þessar mundir. Mynd og frétt/Knattspyrnudeild Njarðvíkur á Facebook

Freysteinn fór ásamt Jónatani Guðna Arnarssyni, félaga sínum úr yngri landsliðum Íslands og leikmanni Fjölnis, á reynslu hjá sænska úrvalsdeildarfélaginu Norrköping þar sem þeir æfðu með bæði aðalliði félagsins auk akademíunnar. Freysteinn hefur þrátt fyrir mjög ungan aldur leikið alls 41 leiki fyrir meistaraflokks Njarðvíkur og spilaði nítján leiki í Lengjudeildinni á liðnu tímabili þar sem Njarðvíkurliðið jafnaði sinn besta árangur í sögunni.

IFK Norrköping er sannkallað Íslendingafélag enda fjölmargir Íslendingar leikið með félaginu í gegnum tíðina, þ.m.t. þjálfari Njarðvíkurliðsins, Gunnar Heiðar Þorvaldsson.

Ellefu titlar til sundfólks ÍRB á Íslandsmótinu

Guðmundur Leo og Eva Margrét í sérflokki

Sundfólkið úr ÍRB náði framúrskarandi árangri á Íslandsmótinu í 25 metra laug. Alls vann sundfólkið til ellefu Íslandsmeistaratitla og fremst í flokki fóru þau Guðmundur Leo Rafnsson og Eva Margrét Falsdóttir en þau voru sigursælustu sundmenn meistaramótsins. Að loknu Íslandsmóti á ÍRB sex fulltrúa í landsliðsverkefnum Sundsambands Íslands (SSÍ).

Fengu mikið lof fyrir frábært heimsmeistaramót

Ungir sem aldnir Massamenn stóðu vaktina á heimsmeistaramótinu.
Þau Gunnlaug Olsen og Ellert Björn Ómarsson fóru fyrir öflugum hópi mótshaldara úr Massa og KRAFT [Kraftlyftingasambandi Íslands] sem stóðu að baki heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum sem var haldið í Ljónagryfjunni í nóvember.

„Þetta gekk alveg svakalega vel, alveg framar öllum vonum,“ sagði Gulla Olsen sem stóð vaktina ásamt öðru Massafólki á heimsmeistaramótinu. „Við fengum gríðarlega mikið lof úr öllum áttum, frá yfirmönnum og forsetum úr þessum kraftlyftingaheimi. Einn sagðist vera búinn að fara á 68 mót á tíu árum og þetta mót stæði upp úr.“

Desember:

Ray stýrir Sandgerðingum á hugsanlega síðasta tímabilinu sem Reynir

„Ég ætla að búa til kjarna, hann þarf að vera fyrir hendi,“ segir Ray Anthony Jónsson sem mun áfram stýra liði Reynis en næsta tímabil verður hugsanlega það síðasta undir merkjum Reynis því búið er að skrifa undir viljayfirlýsingu um sameiningu Reynis og Víðis og myndi sameiningin taka gildi tímabilið 2026.

Ray tók við liði Reynis fyrir þarsíðasta tímabil og stýrði liðinu strax úr þriðju deild upp í aðra. Það gekk ekki eins vel á liðnu sumri og Sandgerðingarnir fóru sömu leið til baka og munu því leika í þriðju deild á sínu síðasta tímabili undir merkjum Reynis.

Sveindís Jane fyrsti Íslendingurinn til að skora fjögur mörk í leik í Meistaradeild Evrópu

Markaskorarinn Sveindís Jane Jónsdóttir. Mynd af Facebook-síðu VfL Wolfsburg Frauenfußball
Sveindís Jane Jónsdóttir gerði sér lítið fyrir og skoraði fjögur mörk með liði sínu Wolfsburg frá Þýskalandi í leik í Meistaradeild Evrópu á móti Róma frá Ítalíu. Leikurinn endaði 6-1 fyrir Wolfsburg og tryggði liðið sér annað sætið í sínum riðli og fylgir Lyon frá Frakklandi í átta liða úrslit keppninnar.

Það merkilega við þessa frammistöðu Sveindísar, hún byrjaði leikinn á bekknum en kom inn á á 66. mínútu þegar staðan var 2-1. Hún var komin á blað tveimur mínútum síðar og þrjú mörk fylgdu svo í kjölfarið. Enginn Íslendingur hafði afrekað að skora fjögur mörk í leik í Meistaradeildinni.

Góður árangur á Norðurlandamótinu í sundi

Keppendur ÍRB á Norðurlandamótinu í ár; Denas Kazulis, Eva Margrét Falsdóttir, Eydís Ósk Kolbeinsdóttir og Fannar Snævar Hauksson.
Denas Kazulis, Eva Margrét Falsdóttir, Eydís Ósk Kolbeinsdóttir og Fannar Snævar Hauksson úr ÍRB voru við keppni með landsliði Íslands á Norðurlandamótinu í sundi í Vejle í Danmörku.

Árangur íslenska liðsins á Norðurlandameistaramótinu í ár var virkilega góður og vann liðið til tíu verðlauna, sem er þremur fleiri verðlaun en í fyrra þegar Ísland vann til sjö verðlauna. Í ár vann Ísland til fjögurra silfurverðlauna og sex bronsverðlauna. Flottur árangur og mikið var um fínar bætingar hjá keppendum.

Frábært HM hjá Guðmundi Leo

Guðmundur Leo Rafnsson, sundkappi úr ÍRB, keppti á heimsmeistaramótinu í 25 metra laug og átti frábært mót þar sem hann bætti sig í öllum sínum keppnisgreinum; 100 metra og 200 metra baksundi, hann var í öllum fjórum boðssundsveitum Íslands sem settu þrjú Íslandsmet á mótinu; 4 x 50 metra skriðsundi blandað, 4 x 100 metra fjórsundi blandað og í 4 x 100 metra fjórsundi karla.

Í 100 metra baksundinu bætti hann 25 ára gamalt unglingamet Arnar Arnarsonar allverulega, eða um rúmlega hálfa sekúndu. Einnig bætti hann sitt eigið unglingamet í 50 metra baksundi á fyrsta spretti í blönduðu 4 x 50 metra boðsundi. Sá tími fæst þó því miður ekki samþykktur þar sem um blönduð kyn var að ræða en öll einstaklingsmet í blönduðum boðsundum fást ekki samþykkt til að gæta jafnræðis.

Eva Margrét tvöfaldur danskur meistari

Eva Margrét Falsdóttir á verðlaunapalli á danska meistaramótinu í 25 metra laug. Mynd af Facebook-síðu sundráðs ÍRB
Eva Margrét Falsdóttir, sundkona úr ÍRB, bar sigur úr býtum í 400 metra fjórsundi á danska meistarmótinu í 25 metra laug en Eva Margrét synti á afar góðum tíma og var sekúndu á undan næstu manneskju. Þetta var hennar annar besti tími frá upphafi, aðeins 3/10 frá hennar besta tíma sem hún synti á Norðurlandamótinu í byrjun desember. Eva Margrét varð jafnframt unglingameistari í greininni eftir undanrásirnar.

Á síðasta keppnisdegi mótsins keppti Eva í 100 metra fjórsundi og 50 metra bringusundi, hún var alveg við sína tíma og keppti í B-úrslitum í fjórsundinu og endaði í fjórtánda sæti. Eva keppti ekki í úrslitum í 50 metra bringusundi.