Íþróttir

Íþróttaannáll 2024 (júlí, ágúst og september)
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 6. janúar 2025 kl. 10:26

Íþróttaannáll 2024 (júlí, ágúst og september)

Júlí:

Fyrsta landsliðsmark Ingibjargar

Ingibjörg fagnar fyrsta markinu. Mynd/Hafliði Breiðfjörð (Fótbolti.net)
Grindvíkingurinn Ingibjörg Sigurðardóttir skoraði fyrsta mark Íslands sem tryggði sér sæti í Evrópumótinu í knattspyrnu með glæsilegum sigri á Þýskalandi í undankeppni EM.

Markið kom eftir hornspyrnu, Sveindís Jane Jónsdóttir vann fyrsta boltann í loftinu og Ingibjörg var fljót á annan bolta og skallaði í netið (13'). Þetta var fyrsta landsliðsmark Ingibjargar sem hefur leikið 64 leiki fyrir Íslands hönd.

Sveindís Jane var ein af bestu leikmönnum liðsins og hún lagði upp annað mark Íslands eftir að hafa unnið boltann af Þjóðverjum upp við endalínu. Sveindís gaf frábæra sendingu á Alexöndru Jóhannsdóttur sem skoraði með góðu skoti frá vítateigsboganum (52').

Sveindís fullkomnaði frábæran leik sinn og íslenska liðsins á 83. mínútu þegar hún komst inn í sendingu í öftustu línu Þjóðverja og refsaði þeim með góðu marki sem gulltryggði Íslandi farseðilinn á Evrópumótið í Sviss á næsta ári.

DansKompaní náði sögulegum árangri á heimsmeistaramótinu

Frá verðlaunaafhendingu á heimsmeistaramótinu í Prag. Mynd af Facebook-síðu Dance World Cup
Team DansKompaní náði frábærum árangri á heimsmeistaramótinu í dansi, Dance World Cup, sem fram fór í Prag. Heimsmeistaramótið er stærsta alþjóðlega danskeppnin fyrir börn og ungmenni sem koma alls staðar að úr heiminum og Team DansKompaní skaraði fram úr í keppninni.

Team DansKompaní sankaði að sér átta heimsmeistaratitlum, þrennum silfurverðlaunum og einum bronsverðlaunum. Þar að auki vann Team DansKompaní þrjá galatitla og öll gullverðlaunaatriði skólans tóku þátt í galakeppninni en aðeins stigahæstu heimsmeisturunum er boðin þátttaka. DansKompaní var t.a.m. eini skólinn sem átti sex atriði í keppni í eldri hópnum.

Guðmundur Leo í tíunda sæti á Evrópumeistaramóti unglinga í Litháen

Guðmundur Leo, sundkappi úr ÍRB. Myndir af Facebook-síðu sundráðs ÍRB

Guðmundur Leo Rafnsson, sundmaður ÍRB, lauk keppni í tíunda sæti á Evrópumeistaramóti unglinga sem var haldið í Litháen fyrstu vikuna í júlí. Hann byrjaði mótið á setja nýtt unglingamet í 50 metra baksundi.

Karen tók fyrsta höggið á Íslandsmótinu í golfi

 Íslandsmeistaramæðgurnar, Guðfinna Sigurþórsdóttir og Karen Sævarsdóttir. Þær eiga saman ellefu titla.

Karen Sævarsdóttir, áttfaldur Íslandsmeistari í golfi, tók fyrsta höggið á Íslandsmótinu í golfi í júlí en mótið fór fram á Hólmsvelli, hennar gamla heimavelli, en hún tók fyrst í golfkylfu í Leirunni þegar
hún var fimm ára. Um 150 keppendur voru skráðir til leiks á þessu stærsta móti ársins í íslensku golfi.

Ágúst:

Már var fánaberi Íslands í París

Feðgarnir Már og Gunnar faðir hans og aðstoðarmaður með Jóni Birni Ólafssyni, aðalfararstjóra Íslands.
„Þetta var mögnuð upplifun að ganga svona um götur Parísar sem fánaberi Íslands og þetta mun veita mér þrótt og kraft inn í þá keppni sem framundan er. Æðislegt að labba niður þessar sögufrægu slóðir umvafinn góðu fólki og þúsundum áhorfenda þar sem Ísland var hvatt áfram í beinni útsendingu er klárlega eitthvað maður á eftir að muna lengi,“ sagði Már Gunnarsson, sundmaður úr Reykjanesbæ eftir setningu Paralympics í París.

Már Gunnarsson lauk leik á Ólympíumóti fatlaðra í París þegar hann keppti til úrslita í baksundi í S11 flokki blindra og sjónskertra. Már sýndi úr hverju hann er gerður og endaði í sjöunda sæti þegar hann kom í mark á nýju Íslandsmeti, 1:10.21 mínútum, og bætti eigið Íslandsmet um fimmtán hundruðustu úr sekúndu.

Þetta var annað Ólympíumót Más og í viðtali við ruv.is eftir keppnina útilokaði hann ekki að reyna við næsta leika.

Elínborg heimsmeistari í pílukasti fatlaðra

Elínborg Björnsdóttir og Ásmundur Friðriksson.
Elínborg Björnsdóttir varð heimsmeistari í flokki fatlaðra á Heimsmeistaramótinu í pílukasti sem fram fór í Edinborg í Skotlandi en hún vann sér inn rétt til þátttöku á mótinu með því að hafna í öðru sæti á Evrópumeistaramótinu sem fram fór á Spáni í apríl.

„Elínborg var afreksíþróttamaður í áratugi áður en hún lenti í bílslysi sem öllu breytti. Hún var margfaldur Íslandsmeistari í sundi sem ung kona og það eru 21 ár síðan hún hóf að keppa í pílukasti og var tíu ár í landsliðinu og keppti á fjölda móta innanlands og utan,“ sagði Ásmundur Friðriksson um þessa afrekskonu.

Jonathan Glenn látinn fara frá Keflavík

 Jonathan Glenn hætti með Keflavík og Guðrún Jóna Kristjánsdóttir tók við.
Stjórn knattspyrnudeildar Keflavíkur ákvað að endurnýja ekki samning við þjálfara kvennaliðs félagsins, Jonathan Glenn, og ennfremur óskaði stjórnin ekki eftir frekara vinnuframlagi frá þjálfara liðsins það sem eftir lifir keppnistímabilsins.

Guðrún Jóna Kristjánsdóttir, sem var aðstoðarþjálfari hjá Glenn, tók við liðinu en tókst ekki að bjarga því frá falli úr Bestu deild kvenna.

September:

Kári og Kamel tryggðu Keflavík farmiðann á Laugardalsvöll

Kári Sigfússon, Sami Kamel og Ásgeir Helgi Orrason fagna seinna marki Keflavíkur.

Keflvíkingar réðu lögum og lofum þegar Keflavík og ÍR mættust í fyrri undanúrslitaleiknum í umspili Lengjudeildar karla í knattspyrnu og höfðu þriggja marka forskot fyrir seinni leik liðanna eftir 4:1 sigur. ÍR-ingar voru hins vegar ekki reiðubúnir að leggja árar í bát og jöfnuðu einvígið í seinni leiknum með þremur mörkum í fyrri hálfleik. Kári Sigfússon og Sami Kamel skoruðu hins vegar sitt markið hvor og tryggðu Keflavík farseðilinn í úrslitaleik gegn Aftureldingu um sæti í Bestu deild karla.

Vonbrigðin leyndu sér ekki á svip Keflvíkinga eftir leik.

Úrslitaleikur Keflavíkur og Aftueldingar fór fram á Laugardalsvelli við frábærar aðstæður. Það voru mikil vonbrigði fyrir Keflvíkinga þegar leiknum lauk með eins marks sigri Mosfellinga sem fyrir vikið leika í efstu deild að ári og skildu Keflvíkinga eftir með sárt ennið.

Grindavík og Njarðvík sameina meistaraflokka í knattspyrnu kvenna

Brynjar Freyr Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Njarðvíkur, og Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, ásamt leikmönnum meistaraflokks Grindavíkur/Njarðvíkur við undirskriftina.
Formenn knattspyrnudeilda Grindavíkur og Njarðvíkur skrifuðu undir samning þess efnis að meistaraflokkar kvenna UMFG og UMFN tefli fram sameiginlegu liði í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu á næsta tímabili.

Formennirnir voru sammála um að þarna væri verið að stíga gæfuspor fyrir bæði félög en eins og þekkt er hefur lið Grindavíkur verið á hrakhólum frá því að rýma þurfti bæinn á síðasta ári og þá hafa Njarðvíkingar verið að leggja drög að meistaraflokki kvenna hjá félaginu síðustu ár.

Brekkurnar tóku vel á lærunum

– sagði Börkur Þórðarson sem keppti í maraþoni á heimsmeistaramóti 40 ára og eldri í Ástralí
Börkur bendir á nafn sitt á keppendalistanum.

Hlaupagikkurinn Börkur Þórðarson vann sér inn keppnisrétt á heimsmeistaramótið í maraþon 40 ára og eldri í með góður árangri í maraþonkeppni í Frankfurt og í september var loks komið að stóru stundinni.

„Það gekk vel en þetta var mjög krefjandi braut, mikið um brekkur og blés hressilega á köflum,“ sagði Börkur í samtali við Víkurfréttir. Börkur kom í mark á tímanum 2:46,57 sem er þriðji besti tíminn hans í maraþoni. Hann endaði í 30. sæti í sínum aldursflokki af 1.272 þátttakendum og í 214. sæti af tæplega 25.000 þátttakendum. 

„Líðanin er ágæt fyrir utan mikla þreytu í fótunum en brekkurnar tóku vel á lærunum,“ sagði hann eftir hlaupið.

Keflavík meistarar meistaranna í karlaflokki

Hilmar Pétursson var drjúgur fyrir Keflavík í úrslitaleiknum með sextán stig.

Keflavík vann sigur á Íslandsmeisturum Vals í Meistarakeppni karla með tíu stigum (98:88) en Keflvíkingar þurftu að játa sig sigraða fyrir Þór Akureyri í Meistarakeppni kvenna (82:86).