Fréttir

Jólahúsið og jólafyrirtæki ársins valin
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 7. janúar 2025 kl. 10:59

Jólahúsið og jólafyrirtæki ársins valin

Íbúðarhúsið að Gónhól 11 í Njarðvík var valið Jólahús Reykjanesbæjar 2024 og jólafyrirtæki var valið Bílakjarninn/Nýsprautun á Fitjum í Njarðvík.

Það var menningar- og þjónusturáð Reykjanesbæjar sem fékk það skemmtilega verkefni að útnefna jólahús og jólafyrirtæki Reykjanesbæjar árið 2024 úr tilnefningum sem bárust frá íbúum. Allt var þetta fyrst og fremst hugsað til skemmtunar og til að vekja athygli á því sem vel er gert hjá íbúum og fyrirtækjaeigendum Reykjanesbæjar en Húsasmiðjan studdi við bakið á uppátækinu með gjafabréfi til fulltrúa þessara aðila. Ráðið vill hrósa íbúum fyrir augljósan metnað þegar kemur að jólaskreytingum og þakkar þeim sem sendu inn tilnefningar en þær voru fjölmargar og fjölbreyttar.

Í frétt á vef Reykjanesbæjar segir að keppnin hafi verið nokkuð hörð og fleiri en eitt hús hafi komið til greina. Á Gónhól 11 gaf að líta einstaklega fallega og fjölbreytta jólaveröld sem gleður jafnt börn sem fullorðna. Eigendur hússins eru Jón Halldór Jónsson og Hólmfríður Margrét Grétarsdóttir.

Í ár var einnig ákveðið að kalla eftir tilnefningum á jólafyrirtæki Reykjanesbæjar enda margar verslanir og fyrirtæki sem leggja sig fram við að glæða bæinn ljósum og lífi með fallegum utanhússkreytingum eða töfrandi jólagluggum. Skreytingar í Bílakjarnanum og Nýsprautun, að Njarðarbraut 13 voru stílhreinar og smekklegar jólaskreytingar sem nutu sín m.a. vel frá Reykjanesbraut.

Það var Sverrir Bergmann bæjarfulltrúi og fulltrúi menningar- og þjónusturáðs Reykjanesbæjar ásamt Guðlaugu Maríu Lewis menningarfulltrúra sem færðu eigendum jólahússins og jólafyrirtækisins viðurkenningu frá Reykjanesbæ  og Húsasmiðjunni.

Jón Halldór Jónsson og Hólmfríður Margrét Grétarsdóttir tóku við viðurkenningum frá Sverri Bergmann og Guðlaugu Lewis frá Reykjanesbæ.

Sverrir Gunnarsson í Nýsprautun og Bílakjarnanum tók við viðurkenningu fyrir jólafyrirtæki Reykjanesbæjar 2024.