Fréttir

Fréttaannáll 2024 // Október, nóvember og desember
Sunnudagur 5. janúar 2025 kl. 07:57

Fréttaannáll 2024 // Október, nóvember og desember

Víkurfréttir birta fréttaannál ársins 2024 í fjórum hlutum hér á vf.is. Hér er brot af því helsta úr umfjöllun blaðsins á fjórða ársfjórðungi nýliðins árs.

Víkurfréttir 2. október 2024:

Lághitaveita í Rockville

„ Við reiknum með að þessi hitaveituhola sem boruð var í Rockville breyti miklu fyrir svæðið. Hún dugar ekki fyrir fullri starfsemi en breytir miklu varðandi hættu af frostskemmdum. Það er mikil vinna í þessu núna,“ segir Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, um virkjun lághitaveitu í Rockville á Miðnesheiði. Fyrir tilstuðlan almannavarna voru boraðar þrjár holur í leit að lághita til að koma upp varahitaveitu á Suðurnesjum. Holan í Rockville er afkastamest þeirra þriggja og skilar um þrjátíu sekúndulítrum af um sjötíu gráðu heitu vatni. „Búnaður og annað sem þarf við holuna verður kominn eftir sex til sjö vikur. Þá á eftir að reyna á það hvað við fáum mikinn hita úr holunni þegar varmaskiptar og annar búnaður er kominn,“ segir Víðir. Hann segir ferlið flókið þar sem unnið er með jarðsjó. Jarðsjórinn verður notaður til að hita upp ferskvatn í varmaskiptum. Koma þarf ferskvatni á staðinn og koma affallinu til sjávar. Víðir segir hluta af verkefninu vera að nýta lagnir sem eru til staðar en einnig að leggja nýjar lagnir til og frá Rockville. Fyrr á árinu var borað eftir fersku köldu vatni við Árnarétt í Garði til að koma upp varavatnsveitu. Það ferskvatn verður þó ekki notað til upphitunar í Rockville. Ferskvatnið verður áfram fengið úr Lágum. „Ef við missum það getum við tengt okkur við vatnsbólið í Garði,“ segir Víðir. Boraðar voru þrjár holur í leit að lághita. Holan í Rockville er gjöfulust þeirra allra. Þó er ekki útilokað að nota hinar tvær með varmaskiptatækninni. Þá er að sögn Víðis einnig verið að skoða rafkatla til upphitunar á ferskvatni.

Víkurfréttir 2. október 2024:

Húsnæðismál FS óviðunandi og geta ekki verið svona áfram

„Svona getur þetta ekki haldið áfram. Það er vonlaust,“ segir Kristján Ásmundsson, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja, í viðtali við Víkurfréttir. Skólameistari FS mætti með ákall og hvatningu til bæði þingmanna og sveitarstjórnarmanna um húsnæðismál skólans á aðalfund Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, sem haldinn var í Fjölbrautaskóla Suðurnesja um síðustu helgi. Síðast voru byggðar kennslustofur við skólann þegar íbúafjöldi á Suðurnesjum var helmingi minni en hann er í dag.
Á fundinum fór Kristján yfir byggingarsögu skólans en síðustu ár hefur vantað upp á að byggingamagn hafi fylgt fjölgun nemenda. Síðasta bygging sem reis var aðstaða fyrir nemendur en kennslustofur vantar orðið tilfinnanlega og nú er svo komið að kennsla fer m.a. orðið fram í gámum og sumarhúsi á lóð skólans.

Víkurfréttir 2. október 2024:

Frá Sandgerði til Búrkína Fasó

„Frá því að ég var ung dreymdi mig alltaf um að komast í hjálparstarf í Afríku, við hjónin báðum fyrir því og stuttu síðar var ég komin í mína fyrstu ferð og hef ekki litið til baka síðan,“ segir Sandgerðingurinn Jóhanna Sólrún Norðfjörð en hún hefur búið á Akureyri síðan um aldamót og er í dag forstöðumaður, eða prestur, í Hvítasunnukirkjunni á Akureyri. Árið 2010 leiddi tal hennar og eiginmanns hennar, Haraldar Pálssonar, til þess að hún fór í sína fyrstu ferð til Afríku og síðan aðra ferð árið 2015 á vegum ABC barnahjálpar og hjónin tóku síðan við því starfi í fyrra. Starf þeirra í Afríku er lyginni líkast, þau reka þar skólastarf og ekki nóg með það, Haraldur, sem er pípulagningameistari, hefur nýtt kunnáttu sína og reynslu í að gjörbylta aðstöðunni við skólann og ræktarlönd og hafa nú þúsundir fólks aðgang að vatni allan ársins hring.

Víkurfréttir 9. október 2024:

Vatnið nær tvöfalt dýrara í Sandgerði en Garðinum

Íbúar í Garði greiða um það bil helmingi lægri vatnsskatt en íbúar í Sandgerði en saman mynda þessir gömlu byggðakjarnar sveitarfélagið Suðurnesjabæ. Jón Norðfjörð, bæjarbúi í Suðurnesjabæ fjallar um málið í aðsendri grein í blaðinu. Fyrir liggur að fasteignaeigendur í Garði greiða um það bil helmingi lægri vatnsskatt en fasteignaeigendur í Sandgerði. Skýringin er sú að HS Veitur eiga vatnsveituna í Garði og rukka fasteignaeigendur þar samkvæmt gjaldskrá, en bærinn á vatnsveituna í Sandgerði og kaupir vatn af HS veitum við dælustöð og selur til fasteignaeigenda í Sandgerði sem hlutfall af fasteignamati, óháð notkunarmagni. Þannig hefur þetta verið frá sameiningunni 2018 og ljóst að eigendum fasteigna í bæjarfélaginu er mismunað. Þetta er í andstöðu við gefin fyrirheit fyrir sameiningu eins og lesa má á upplýsingasíðu vegna kosninga um sameiningu Sandgerðis og Garðs, segir í grein Jóns um málið og hann sendi fjórar spurningar til stjórnenda Suðurnesjabæjar og spurði m.a. hvers vegna þessi mismunun væri. Hann fékk m.a. það svar að bæjarfélagið reki vatnsveituna í Sandgerði en HS Veitur reki vatnsveituna í Garði. Samkvæmt lögum megi ekki reka vatnsveituna með halla. „Suðurnesjabær þekkir ekki rekstur HS veitna til þess að svara því til hver sé munur á rekstri og gjaldskrám vatnsveitnanna,“ sagði jafnframt í svari sveitarfélagsins.

Víkurfréttir 9. október 2024:

Kafbátasjóliðar sólgnir í íslenskar agúrkur

Bandarískur kjarnorkuknúinn kafbátur var í þjónustuheimsókn á Stakksfirði á mánudaginn. Kafbáturinn fór fyrir Garðskaga um klukkan níu á mánudagsmorgun og var út af Keflavíkurhöfn um klukkustund síðar. Kafbáturinn USS Indiana kom hingað að sækja vistir og hafa áhafnaskipti. Hann var þjónustaður frá þjónustubátnum Voninni GK sem Köfunarþjónusta Sigurðar Stefánssonar gerir út. Varðskipið Freyja fylgdi svo kafbátnum á ferðum sínum um Faxaflóa. Það vakti athygli þeirra sem sáu til að mikið af íslensku grænmeti fór um borð í kafbátinn, m.a. íslenskar agúrkur í tugum kílóa. Meðfylgjandi mynd tók ljósmyndari Víkurfrétta af kafbátnum og Voninni á Stakksfirðinum með Keili í baksýn. VF/Hilmar Bragi Bárðarson

Víkurfréttir 16. október 2024:

Blóðrauð norðurljós

Það var mikil ljósadýrð á himni þegar væn kórónuskvetta frá sólinni skall á himinhvolfinu og bauð upp á einstaka norðurljósavirkni síðasta fimmtudagskvöld. Myndin hér að ofan var tekin á Garðskaga þar sem blóðrauð norðurljós dönsuðu á himni. Sævar Helgi Bragason, betur þekktur sem Stjörnu-Sævar, segir kórónuskvettur vera skeifulaga flóðbylgjur eða ský úr hraðfleygum rafhlöðnum ögnum, aðallega rafeindum. Rafeindirnar skella á segulsviði jarðar, streyma eftir segulsviðslínum inn í efri hluta andrúmsloftsins og örva þar atóm og sameindir sem byrja að glóa. Rauð norðurljós frá örvuðum súrefnisatómum verða til í 200–400 km. hæð. Græn norðurljós verða til í um 100 km. hæð. Það var mikið sjónarspil þegar rauðu ljósin lögðust yfir en þau sáust víða á norðurhveli jarðar. VF/Hilmar Bragi Bárðarson

Víkurfréttir 16. október 2024:

Nýr ísfisktogari Þorbjarnar kominn til Grindavíkur

Nýr ísfisktogari útgerðarinnar Þorbjarnar, Hulda Björnsdóttir GK-11, sigldi í heimahöfn í hádeginu á þriðjudag. Skipið mun brátt halda á bolfiskveiðar en hvað verður um skipið þegar Þorbirni verður skipt upp í þrjár sjálfstæðar einingar, er ekki komið á hreint að sögn Hrannars Jóns Jónsonar, útgerðarstjóra hjá Þorbirni. Skipið sem var smíðað í Gijon á Spáni, er 58 metrar að lengd og 13,6 metrar að breidd. Skrúfa skipsins er fimm metrar í þvermál en skipið var hannað með sparneytni í huga. Skipið verður gert út á ís­fisk­veiðar og geti þá dregið tvær botn­vörp­ur sam­tím­is. Fjórtán til fimmtán verða í áhöfn Huldu Björnsdóttur GK. Skipið fær nafn sitt frá Huldu Björnsdóttur, eiginkonu eins af stofnendum Þorbjarnar, Tómasar Þorvaldssonar, en hún lést árið 2008.

Víkurfréttir 23. október 2024:

Gestastofa við Reykjanesvita opnar á Safnahelgi

„Þetta eru mjög ánægjuleg tímamót. Það hefur lengi verið beðið eftir opnun gestastofu við Reykjanesvita og ljóst að þetta mun breyta miklu í þjónustu við gesti og ferðamenn á Reykjanesi sem nú geta nýtt salernisaðstöðu sem er alltaf opin og fengið sér kaffiveitingar í mögnuðum umhverfi,“ sagði Árni Sigfússon, verkefnastjóri hjá Bláa Lóninu og stjórnarmaður í Þjónustumiðstöðinni Reykjanes. Þjónustuhús eða gestastofa hefur verið í umræðunni og á teikniborðinu síðustu ár en lengi hefur vantað upp á að geta sinnt gestum og ferðamönnum sem koma út á Reykjanes. Árni sagði í ræðu sinni við opnun Safnahelgar á Suðurnesjum sem var í nýja gestahúsinu að Grímur Sæmundsen og Bláa Lónið hafi tekið málið að sér fyrir nokkru síðan, ekki síst sem samfélagslegt verkefni og stuðning til ferðaþjónustunnar og lagt til fjármagn til að laga íbúðarhúsið með byggingu gestastofu sem nú hefur verið opnuð. „Við munum hafa opið í vetur, kannski ekki á hverjum degi en það mun koma í ljós. Alla vega verður kominn ársopnunartími frá og með næsta vori,“ sagði Árni. Í gestastofunni er sýning um sögu vitanna og vitavarðanna á Reykjanesi en í næsta húsi, gamla vélahúsinu, er glæsileg sýning um sögu sjóslysa á Íslandi sem voru mörg við Reykjanesið og suðvesturströnd landsins á síðustu öld.

Víkurfréttir 23. október 2024:

Miðstöð fyrir þolendur ofbeldis opnuð

Suðurhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Suðurnesjum, opnaði í byrjun vikunnar. Miðstöðin er samstarfsverkefni sveitarfélaganna á Suðurnesjum, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS), lögreglustjórans á Suðurnesjum, Kvennaráðgjafarinnar, Mannréttindaskrifstofu Íslands og WOMEN á Íslandi. Hjá Suðurhlíð verður boðið upp á áfallamiðaða ráðgjöf, stuðning og upplýsingar fyrir þolendur ofbeldis af öllum kynjum, átján ára og eldri. Lögð er áhersla á þverfaglega samvinnu mismunandi stofnana og samtaka sem koma að vinnu með þolendum á Suðurnesjum. Þjónustunotendum Suðurhlíðar er mætt með hlýlegu og öruggu umhverfi, á þeirra forsendum og þeim að kostnaðarlausu. Suðurhlíð er systurmiðstöð Bjarkarhlíðar í Reykjavík, Bjarmahlíðar á Akureyri og Sigurhæða á Selfossi sem bjóða upp á sambærilega þjónustu. Suðurhlíð er afurð verkefnisins Öruggari Suðurnes sem varð formlega til í nóvember 2023 þegar eftirtaldir aðilar undirrituðu samstarfsyfirlýsingu um svæðisbundið samráð um aðgerðir gegn ofbeldi og öðrum afbrotum á svæðinu; Grindavíkurbær, Reykjanesbær, Suðurnesjabær, Sveitarfélagið Vogar, Fjölbrautaskóli Suðurnesja (FS), HSS, Heilsugæslan Höfða, Keilir, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, og sýslumaðurinn á Suðurnesjum. Opnunarhátíð Suðurhlíðar var haldin fimmtudaginn 17. október sl. á Marriott.



Víkurfréttir 23. október 2024:

Flöskuskeyti fannst á Garðskaga með spurningu um jólasvein og hákarl

Flöskuskeyti frá sem kastað var í hafið laugardaginn 28. nóvember 2020 af tveimur sex ára strákum er fundið. Samkvæmt skeytinu voru þeir að senda frá sér sitt fyrsta flöskuskeyti. Þeir taka fram að þeir séu frá Suðurnesjum en ekki er tekið fram hvar flöskuskeytinu var kastað í sjóinn. „Takk fyrir að finna flöskuna okkar,“ stendur skrifað með rauðu letri í eitt bréfið sem var í flöskunni, hálfslítra plastflösku undan Toppi. Svo var annað bréf með teikningum og þar var kastað fram spurningum. Kannski ertu fiskur, jólasveinn, hákarl, bátur, stelpa eða strákur? Finnandi flöskuskeytisins er strákur sem reyndar fagnaði 76 ára afmæli í vikunni en fann flöskuskeytið á Garðskaga á sunnudag. Þar var hann að þrífa upp rusl sem skolaði á land í stórstraumsflóðinu um helgina. Strákarnir sem sendu flöskuskeytið voru sex ára þegar það var sent og eru því væntanlega tíu ára í dag. Þeir eða forráðamenn þeirra geta haft samband við Víkurfréttir. Það væri gaman að geta sagt frá því hvar skeytið var sett í sjóinn og fá mynd af strákunum.

Víkurfréttir 30. október 2024:

Góðgerðarfest Blue veitti 25 milljóna kr. styrki

Sautján málefni fengu stuðning frá Góðgerðarfest Blue að þessu sinni en styrkjum var úthlutað við athöfn í starfsstöð Blue Car Rental við Flugstöð Leifs Eiríkssonar í síðustu viku. Samtals var var úthlutað tuttugu og fimm milljónum króna. Þetta er stærsta árið hingað til í söfnun fjármuna í styrktarsjóðinn. Frá því Góðgerðarfest Blue var fyrst haldið hafa safnast á milli 72 til 73 milljónir til góðra málefna í nærsamfélaginu á Suðurnesjum. Aðstandendur hátíðarinnar stefna hátt og hafa sett markið á að heildarupphæðin nái 100 milljónum króna á næsta ári. Nánar er fjallað um Góðgerðarfest Blue á síðum 12-13 í blaðinu í dag. Þar eru viðtöl við nokkur sem tóku við styrkjum og sýndar myndir frá Góðgerðarfest hátíðinni. Einnig er fjallað um viðburðinn í Suðurnesjamagasíni í vikunni.

Víkurfréttir 30. október 2024:

Stefna að stofnun nýs íþróttafélags í Suðurnesjabæ


Knattspyrnufélagið Reynir, knattspyrnufélagið Víðir og Suðurnesjabær hafa gert með sér viljayfirlýsingu um stofnun nýs íþróttafélags í Suðurnesjabæ. Stefnt er að stofnun nýs félags í október 2025. Markmið með stofnun nýs íþróttafélags er að auka fagmennsku og gæði í íþróttastarfinu og stuðla að fjölbreytni íþróttagreina. Þá segir í viljayfirlýsingu að til verði eitt íþróttafélag sem samfélagið í Suðurnesjabæ sameinast um. Þannig eigi að stuðla að aukinni íþróttaiðkun hjá fólki á öllum aldri og af öllum kynjum. Unnið verður markvisst að uppbyggingu á aðstöðu til íþróttaiðkunar í Suðurnesjabæ og bættri nýtingu núverandi mannvirkja. Aukinn og markvissari stuðningur frá Suðurnesjabæ verður við hið nýja íþróttafélag. Stofnaður verður stýrihópur sem mun halda utanum verkefnið. Fyrsta verkefni stýrihópsins verður að útbúa lýsingu á verkefninu og hlutverki hópsins sem verður lögð fyrir stjórnir Reynis, Víðis og Suðurnesjabæjar. Stýrihópurinn tekur til starfa í nóvember 2024 og mun skila áfangaskýrslu í febrúar 2025 sem verður lögð fyrir aðalfundi félaganna Reynis og Víðis. Í þeirri skýrslu komi fram tillögur að skipulagi á nýju félagi ásamt drögum að samningi milli Suðurnesjabæjar og hins nýja félags. Jafnframt liggi þar fyrir áframhaldandi tímalína vegna verkefnisins að stofnfundi félagsins. Í stýrihópnum sitja tveir fulltrúar frá hvoru íþróttafélagi og tveir fulltrúar frá Suðurnesjabæ, þ.e. íþrótta- og tómstundafulltrúi og bæjarfulltrúi. Suðurnesjabær mun tryggja að stýrihópurinn muni hafa nauðsynlegan stuðning í störfum sínum og mun það vera nánar tilgreint í verklýsingu. Stýrihópurinn mun hafa vítt samráð við sem flesta hagaðila og þá sérstaklega íbúa Suðurnesjabæjar og félaga í Reynir og Víði við stofnun nýs félags. Í viljayfirlýsingunni segir að undirritaðir aðilar skuldbinda sig til að vinna í góðri trú að markmiðum og verklagi sem tilgreind eru í viljayfirlýsingunni. Bæjarráð Suðurnesjabæjar lýsti á fundi sínum á þriðjudag ánægju með frumkvæði og framgöngu íþróttafélaganna með viljayfirlýsingunni. „Stofnun og starfsemi eins íþróttafélags í Suðurnesjabæ er mikilvægt framlag við að sameina íbúa sveitarfélagsins í einu samfélagi og til að efla íþróttastarf til framtíðar,“ segir í afgreiðsslu bæjarráðs þar sem bæjarstjóra var veitt heimild til að undirrita viljayfirlýsinguna.

Víkurfréttir 30. október 2024:

Stundum væri ég til í að setja plástur á þetta og þetta væri bara búið

„Það er ofboðslega auðvelt að missa hausinn í öllu þessu ferli,“ segir Sigrún Helga Holm en þrjátíu og fjögurra ára gömul greindist hún með stökkbreytingu á BRCA1-geni sem eykur töluvert líkur á brjósta- og eggjastokkakrabbameini. Í kjölfarið tók Sigrún þá ákvörðun að fara í áhættuminnkandi aðgerðir til að auka lífslíkur sínar.
Sigrún Helga tók á móti Víkur­fréttum á heimili sínu í Kópavogi en hún er uppalin í Garði. „Ég átti yndislega æsku í Garðinum, ólst þar upp ásamt tveimur systkinum. Foreldrar mínir og bróðir minn búa þar enn. Ég fluttist svo í Kópavog fyrir fjórtán árum síðan, er gift og á þrjú börn,“ segir hún í upphafi samtals okkar en Sigrún kynntist eiginmanni sínum, Andra Páli Heiðberg, þegar hún var í háskólanámi; „og það þróaðist einhvern veginn þannig að við enduðum í Kópavogi.“



Víkurfréttir 6. nóvember 2024:

Best fyrir fylgdarlaus börn að læra tungumálið og komast í virkni

Fyrstu átta mánuði þessa árs kom 41 fylgdarlaust barn til Íslands en tveir starfsmenn á Suðurnesjum sinna málefninu og þjónusta börnin eftir komuna til landsins. Samningurinn við ríkið hljóðar upp á þjónustu við að hámarki 30 börn hverju sinni. Að undanförnu hefur verið mest um komu barna frá Úkraínu en þar fyrir utan hefur verið mest um börn frá Palestínu og Afganistan. Börnin eru flest í kringum fimmtán ára aldur en þó hafa komið yngri börn en þá er þeim komið fyrir í fóstri. „Við erum þá í góðu sambandi við fósturforeldrana og fylgjumst með hvernig barninu gengur. Það er í raun það besta fyrir barnið, það lærir tungumálið fyrr, kemst í virkni í nærsamfélaginu og sem betur fer hafa Íslendingar verið duglegir við að taka fylgdarlaus börn í fóstur,“ segja þau Sandra Bjarnadóttir og Jóhann Birnir Guðmundsson, verkefnastjórar fylgdarlausra barna. Börnin eiga það öll sameiginlegt að vera flýja slæmar aðstæður og vilja flest þeirra setjast að á Íslandi. „Það er misjafnt hvernig fjölskylduaðstæður þeirra eru, sum þeirra hafa misst báða foreldra sína en það er allur gangur á því.“



Víkurfréttir 6. nóvember 2024:

Kvikmyndahúsasögu Keflavíkur lokið

Sögu kvikmyndahúsa í Keflavík er væntanlega lokið. Lokasýningar í Sambíóinu í Keflavík fóru fram á þriðjudagskvöld í síðustu viku, 29. október. Myndir voru í tveimur sölum og hátt í fimmtíu manns mættu í Sambíóin í Keflavík, sem flestir þekkja sem Nýja bíó, á lokasýningarnar. Þær Salvör Björk Pétursdóttir, Eva Júlía Ólafsdóttir og Sonja Steina Guðmundsdóttir stóðu síðustu kvikmyndavaktina. Í sal 1 var verið að sýna Venom: The Last Dance, sem er bönnuð innan tólf ára. Í sal 2 á neðri hæðinni var það Smile 2, bönnuð innan sextán ára. Þær stöllur sögðu að eftir sýninguna væri það verkefnið að þrífa og ganga frá veitingasölunni. Þar var verið að poppa þegar ljósmyndari hafði viðkomu í bíóinu skömmu eftir að sýningar hófust. Ein þeirra, Eva Júlía, fer til starfa hjá Sambíóunum í Álfabakka. Hinar tvær starfa á leikskólum í Reykjanesbæ og hafa haft bíóstarfið sem aukavinnu. Í samtali við blaðamann sögðu þær tímamótin vera sorgleg. Talsvert hafi dregið úr bíósókn heimafólks eftir að streymisveitum fjölgaði. Fólk hafi þó komið í bíóið til að kaupa sér popp til að hafa með sjónvarpinu heima. Það eigi örugglega margir eftir að sakna þess að geta ekki fengið bíópopp eftir að kvikmyndahúsinu lokar. Það gæti því verið tækifæri fyrir veitingaaðila á svæðinu að setja upp alvöru popppott til að þjóna stórum hópi fólks sem sækir í nýpoppað popp.



Víkurfréttir 6. nóvember 2024:

Símanum í Höfnum lokað meðan Reykjanes sendi inn veður

Það er mögulega draugagangur við Reykjanesvita en þeir voru ekkert að trufla Grétu Súsönnu Fjeldsted, sem er fædd og uppalin í vitavarðarhúsinu við Reykjanesvita. Hún fann aldrei fyrir því að hún væri myrkfælin sem barn á Reykjanesi en Gréta er ein fjórtán systkina sem ólust upp í vitavarðarhúsinu þegar Sigurjón Ólafsson var þar vitavörður í um þrjá áratugi frá 1947. Í dag hefur Gréta byggt upp gestastofu í samstarfi við Bláa lónið í vitavarðarhúsinu. Gestastofan var opnuð formlega á dögunum í tilefni af Safnahelgi á Suðurnesjum. Í Gestastofunni og í vélahúsi þar við hliðina eru einmitt sýningar sem tengjast m.a. vitum á Reykjanesi og sjóslysum á síðustu öld.

mikið til við heimilishaldið á Reykjanesvita og leystu jafnvel foreldra sína af við vitavörsluna og veðurathuganir.
Þá fylgdu börnin einnig ferðafólki sem vildi fara upp í Reykjanesvita og það kostaði túkall að fara upp í vitann. Í dag er ekki í boði að fara upp í vitann, þar sem nú eru í honum viðkvæmur tækjabúnaður sem ekki má snerta.
Um veðurathuganir á Reykjanesvita sagði Gréta: „Hér var alltaf tekið veður á þriggja tíma fresti og ég lærði það svo foreldrar mínir gætu farið í ferðalög. Við hringdum inn veðurupplýsingar til Veðurstofunnar. Þegar veðrið var sent frá Reykjanesi var lokað fyrir símtöl í Höfnum. Þar mátti enginn hringja á meðan veðurupplýsingar voru sendar frá Reykjanesvita á þriggja tíma fresti. Þegar Reykjanes var með veður þá var þetta allt sagt í tölum en ekki orðum. Veðurskeytið byrjaði á 0-4-0-1-4 og svo var allt í tölum. Þannig var veðrið sent.“



Víkurfréttir 13. nóvember 2024:

Ekki búið að leysa fyllilega úr húsnæðisvanda Grindvíkinga ári eftir hamfarir

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir í ítarlegu viðtali við Víkurfréttir, þar sem tíminn frá 10. nóvember á síðasta ári er rifjaður upp, að það hafi verið erfiðast að horfa upp á að ekki hafi allir fengið viðunandi húsnæði og að ennþá sé ekki búið að leysa fyllilega úr því vandamáli nú þegar ár er liðið frá náttúruhamförunum. „Það þarf kannski ekki að koma á óvart þegar 1.200 fjölskyldur eða að minnsta kosti íbúðaeiningar, sem kallast svo hér í Grindavík, urðu yfirgefnar og þurfti að finna húsnæði annars staðar á yfir fullum markaði. Þetta var erfiðasta verkefnið vegna þess að þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir íbúana, að fá húsnæði við hæfi,“ segir Fannar í viðtalinu.
Fannar segir að ríkið hefði mátt gera betur í húsnæðismálum Grindvíkinga. „Það var viðhorfið að þetta myndi sjálfsagt leysast af sjálfu sér. Það bjóst enginn við því að núna, ári eftir að ósköpin dundu yfir, að ástandið væri með þeim hætti að það væru fáir íbúar hérna. Svo gerðist það bara ekki og þetta varð miklu lengri tími heldur en búist var við. Eftir á að hyggja hefði verið betra að rösklegra hefði verið tekið á húsnæðismálum en gert var.“
Aðspurður hvernig næstu mánuðir verði í rekstri Grindavíkurbæjar sagði Fannar: „Við sjáum fram á það að geta rekið bæinn út næsta ár, 2025, að óbreyttu. Þá fer að halla undan fæti. Við vonumst nú til að að við séum komin á betri stað með þessar náttúruhamfarir þegar horft er fram á næsta ár án þess þó að vita nokkuð um það. Við erum nokkuð keik enn sem komið er hvað fjárhaginn varðar.“



Víkurfréttir 13. nóvember 2024:

Grindvíkingar ósáttir með tilboð Þórkötlu

Margir Grindvíkingar eru ósáttir með nýtt tilboð Þórkötlu um takmörkuð afnot af húsum þeirra í GrindavíÞeir sem hafa selt Þórkötlu hús sín í Grindavík geta nú gert samning um afnot af húsinu, svo kallaðan hollvinasamning. Greiða aðeins hita og rafmagn. Gisting næturlangt eða föst búseta er ekki heimil. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þórkötlu. Margir Grindvíkingar eru vægast sagt mjög ósáttir við þetta tilboð og hafa lýst yfir óánægju sinni á samfélagsmiðlum.
Í frétt frá Þórkötlu kemur fram að þeir sem selt hafa Þórkötlu hús sín í Grindavík geti sótt um að gera samning um afnot af húsinu, svokallaðan hollvinasamning. Hollvinasamningur byggir á samstarfi Þórkötlu við seljendur húsa í Grindavík hvað varðar umhirðu, minniháttar viðhald og almennt eftirlit með eignunum. Forsenda er að öruggt sé talið að vera í eigninni og á lóðinni í kring.

Víkurfréttir 20. nóvember 2024:

Miklu áorkað á krefjandi tímum

„Okkar verkefni er að byggja upp traust sem hefur ekki verið nægjanlegt. Markmið okkar sem störfum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er að gera hana að fyrirmyndarstofnun meðal annars með nýrri stefnumótun og öflugu starfi,“ sagði Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri HSS á 70 ára afmælisdegi stofnunarinnar sem haldinn var hátíðlegur með afmælisboði í húsakynnum heilsugæslunnar á afmælisdaginn 18. nóvember en haldið verður upp á tímamótin alla afmælisvikuna.

Víkurfréttir 27. nóvember 2024:

Eldgosið ógnaði innviðum

Tíunda eldgosið á Reykjanesskaga ógnaði innviðum þegar hraun rann að varnargörðum við Svartsengi. Hraunstraumurinn fór yfir lögn sem flytur heitt vatn frá orkuverinu í Svartsengi að Fitjum. Lögnin hefur staðist álagið en um tíma var óttast að hraunið gæti jafnvel komist yfir varnargarða og rofið lögnina innan garðanna. Þá laskaði hraunstraumurinn raflínur að orkuverinu í Svartsengi og hefur raforkuframleiðsla þar legið niðri í viku. Unnið er að því að reisa 30 metra hátt háspennumastur við Svartsengi til að lyfta háspennustrengjum hærra yfir hraunbreiðuna. Á myndinni hér að ofan má sjá yfir byggðina í Reykjanesbæ með eldgosið á Sundhnúkagígaröðinni í baksýn. Nánar um eldgosið á síðu 8 í blaðinu. VF/Hilmar Bragi Bárðarson

Víkurfréttir 27. nóvember 2024:

Glæsilegasti leikskóli landsins í Sandgerði

„Þetta er líklega einn glæsilegasti leikskóli landsins en jafnframt lang stærsta einstaka fjárfesting Suðurnesjabæjar til þessa,“ sagði Magnús Stefánsson, bæjarstjóri, við formlega vígslu leikskólans Grænuborgar í Sandgerði á mánudag. Grænaborg er sex deilda með tilheyrandi stoðrýmum, eldhúsi og veglegri aðstöðu fyrir starfsfólk. Gert er ráð fyrir 130 börnum og eftir opnun hans hafa öll börn sem sótt hafa um pláss komist að. Leikskólinn er 1.135 fermetrar að flatarmáli, leikskólalóðin er 3.800 m2 og stærð aðkomulóðar 2.700 m2. Heildarkostnaður er um 1,3 milljarður króna. Grænaborg hóf starfsemi í ágúst sl. og leysir af að fullu leikskólann Sólborgu. Jón Ben Einarsson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs Suðurnesjabæjar, var eftirlitsmaður með framkvæmdinni sem tók rúmlega tvö ár en fyrsta skóflustunga var tekin í október 2021. Aðalverktaki var Bragi Guðmundsson, byggingaverktaki úr Suðurnesjabæ, en arkitekt og aðalhönnuður JeES arkitektar. „Það var skipaður starfshópur í upphafi og hann fór og skoðaði marga leikskóla til að fá punkta. Meðal þátta sem komu fram í þessum heimsóknum var áhersla á hljóðvist og aðstöðu starfsfólks, mikilvægt að vanda til lýsingar og loftræstikerfis. Þetta var allt gert ásamt mörgu öðru. Við framkvæmdina komu margir verktakar og iðnaðarmenn úr Suðurnesjabæ en aðrir, nær allir frá Suðurnesjum. Þess má geta að sama teikning var notuð við byggingu nýs leikskóla í Hlíðahverfi í Reykjanesbæ en hann opnar á næstu vikum. Arnbjörg Elsa Hannesdóttir er leikskólastjóri Grænuborgar en skólinn er rekinn af Suðurnesja-bæ. Hún sagði að starfið gengi vel og mikil ánægja væri með nýja leikskólann. Börnin eru frá átján mánaða aldri til fimm ára. Hún segir að vel hafi gengið að manna skólann. „Við erum í skýjunum með þetta og allt gengur ótrúlega vel. Allir eru svo samstilltir. Við finnum mjög vel fyrir hvað hljóðvistin er mikilvæg,“ sagði hún.


Víkurfréttir 4. desember 2024:

Súluhafar 2024

Súlan, menningarverðlaun Reykjanesbæjar fyrir árið 2024, var afhent um helgina. Verðlaunin eru veitt þeim sem hafa lagt sitt af mörkum til að auðga mannlíf og menningu samfélagsins með fjölbreyttum hætti. Að þessu sinni voru veitt tvenn verðlaun. DansKompaní listdansskóli Suðurnesja og Steinn Erlingsson söngvari hlutu verðlaunin að þessu sinni. Verðlaunagripurinn er silfursúla eftir listakonuna Elísabetu Ásberg og vísar í sjófuglinn Súluna í merki Reykjanesbæjar. Það var Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, sitjandi bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sem afhenti gripinn. VF/pket og hbb

Víkurfréttir 4. desember 2024:

Vegur yfir hraunið

Vegagerð er hafin yfir hraun sem rann yfir Grindavíkurveg þann 21. nóvember. Slóði hefur verið lagður yfir glóandi heitt hraunið, sem þó er aðeins fær stórvirkum vinnuvélum. Ekki liggur fyrir hvenær fólksbílafær vegur verður lagður yfir hraunið en núna er aðeins hægt að komast til Grindavíkur með því að aka Nesveg eða Suðurstrandarveg. Myndina hér að ofan tók ljósmyndari okkar, Ísak Finnbogason, síðasta sunnudag. Þar sem slóðinn liggur yfir hraunið er það margra metra þykkt en hraunið sem rann að varnargörðunum við Svartsengi hefur verið mælt allt að níu metra þykkt.



Víkurfréttir 11. desember 2024:

Viðræður um sameiningu settar á bið

Verkefnisstjórn um óformlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaganna Voga, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar leggur til við sveitarstjórnirnar að beðið verði með ákvörðun um viðræður um sameiningu sveitarfélaganna þar til fyrir liggur lágmarks yfirlýsing um að stjórnvöld muni koma til móts við sveitarfélögin varðandi þær forsendur sem þurfa að liggja fyrir áður en til afgreiðslu kemur í bæjarstjórnunum. Sameiningarmálin voru tekin fyrir í bæjarráði Suðurnesjabæjar á síðasta fundi. Í erindi verkefnastjórnarinnar er gerð grein fyrir vinnu verkefnisstjórnar og þeim forsendum sem hún telur þurfa að liggja fyrir áður en bæjarstjórnir sveitarfélaganna taka ákvörðun um framhald málsins. Bæjarráð Suðurnesjabæjar samþykkir samhljóða að beðið verði með ákvörðun um viðræður um sameiningu sveitarfélaganna.


Víkurfréttir 11. desember 2024:

Útboð Fríhafnarinnar kært

Útboð Isavia á rekstri fríhafnarverslana í flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur verið kært en nýlega var greint frá því að þýska fyrirtækið Heinemann tæki við rekstrinum í mars 2025 en samningurinn er til næstu átta ára. Þetta sama fyrirtæki rekur fríhafnarverslanir víða í Evrópu og þar á meðal á alþjóðaflugvöllunum í Ósló og Kaupmannahöfn. Áætlanir gerðu ráð fyrir að Heinemann tæki við fríhafnarverslunum á Keflavíkurflugvelli í mars á næsta ári en nú gæti orðið á því bið þar sem ákvörðun Isavia um val á tilboði í útboðinu hefur verið vísað til Kærunefndar útboðsmála. „Málið er í ferli þar,“ segir í svari Isavia við fyrirspurn vefmiðilins FF7. Vefmiðillinn hefur greint frá því í fréttum að Fríhöfnin hafi keypt inn vörur af íslenskum birgjum fyrir um sex milljarða króna. Samkvæmt upplýsingum Víkurfrétta er ljóst að þessi breyting mun hafa mikil áhrif á þá en mjög stór hluti tekna þeirra kemur frá sölu varnings til Fríhafnarinnar eða frá 30 til 50%. Heinemann kaupir almennt inn vörur í gegnum vörulager sinn í Þýskalandi. VF greindi frá áhyggjum Suðurnesjamanna af afdrifum starfsfólks en vel á annað hundrað manns hafa starfað í Fríhöfninni í langan tíma og lang flestir búsettir á Suðurnesjum. Í fyrirspurn VF fengust þau svör að réttindi og skyldur núverandi starfsmanna færðust yfir til hins nýja aðila og að engar uppsagnir yrðu við breytinguna. Vitað er að all nokkrir starfsmenn hafi þegar ákveðið að hætta störfum þegar þýska fyrirtækið tekur við á nýju ári.