492 íbúðir í þriðja áfanga Hlíðarhverfis
Tillaga að deiliskipulagi fyrir þriðja áfanga Hlíðarhverfis í Reykjanesbæ hefur verið lögð fram. Um er að ræða 492 íbúðir í fjölbýlishúsum og sérbýli. Uppbyggingin er á tveimur svæðum aðskildum með grænum geira. Arkís arkitektar hafa unnið tillöguna fyrir hönd Miðlands ehf.
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar veitti á síðasta fundi heimild til að auglýsa deiliskipulagstillöguna.
Í breyttu skipulagi hefur verið lögð áhersla á lausnamiðað skipulag sem eykur gæði útivistarsvæða og grænna svæða. Markmiðið er að bæta ásýnd og yfirbragð hverfisins og styrkja umhverfisgæði með fjölbreyttum leiksvæðum, gróðri og upplýstum göngustígum.
Svæðið verður hannað til að vera bæði aðgengilegt og öruggt og mun styðja við fjölbreytta útivist og notkun. Íbúðarbyggðin veitir skjól í inngörðum fyrir ríkjandi vindátt og dregur úr umferðarhávaða.
Græni ásinn í miðju hverfisins tengir vestur- og austurhluta svæðisins með gönguleiðum, dvalar- og leiksvæðum, og myndar einnig tengingu við Hlíðahverfi II og framtíðarsvæði til suðurs.
Hverfið er skipulagt með áherslu á öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Hámarkshraði á götum verður 30 km/klst, og götur eru hannaðar til að vera aðlaðandi og öruggar. Yfirborð gatna verður sérstaklega hannað til að draga úr umferðahraða, og tenging við núverandi stígakerfi er lykilatriði.
Í gögnum með tillögunni að deiliskipulaginu til Reykjanesbæjar segir að á svæðinu séu olíutankar í jörðu. Mikilvægt sé að aðilar sem sinna uppmokstri og jarðvegsskiptum séu meðvitaðir um mögulega jarðvegsmengun. Þá segir að svæðið liggi nálægt flugbrautarendum Keflavíkurflugvallar. Því er mikilvægt að huga sérstaklega að hljóðvist vegna flugumferðar. Hljóðvistarútreikningar sýna að svæðið er að hluta innan 55–60 dB hljóðstigs, sem er undir hávaðamörkum samkvæmt reglugerð 724/2008 fyrir starfandi flugvelli, en yfir mörkum sem almennt gilda án flugvallar.