Fordæmir vinnubrögð ráðuneytis vegna Keilis
Bæjarráð Reykjanesbæjar fordæmir vinnubrögð mennta- og barnamálaráðuneytis (MRN) fyrir að liggja með erindi í tuttugu vikur um endurnýjun á umsókn frá Keili um að verða viðurkenndur einkaskóli á framhaldsskólastigi, enda sé það ekki í samræmi við góða stjórnsýslu.
Bæjarráð leggur mikla áherslu á að fjarnámshlaðborðið og opna stúdentsbrautin verði sem fyrst viðurkennd enda hefur verið unnið í samráði við ráðuneytið að endurskilgreina Keili og vinna að fjárhagslegum stöðugleika, og kemur það því verulega á óvart að MRN viðurkenni ekki Keili sem einkaskóla á framhaldsskólastigi. Þetta kemur fram í afgreiðslu bæjarráðs Reykjanesbæjar frá því í síðustu viku. Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Keilis, var gestur fundarins.
Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs óskaði eftir endurnýjun á umsókn um að verða viðurkenndur einkaskóli á framhaldsskólastigi til menntamálaráðuneytis 12. nóvember 2024 og bíður enn endanlegra svara. Þann 16. desember barst svar frá mennta- og barnamálaráðuneyti þess efnis að umsókn Keilis sé synjað vegna rekstrarvanda Keilis síðustu ára og fjárhagsstaða Keilis sé slík að Keilir uppfylli ekki skilyrði sem lýtur að fjárhagsmálefnum og tryggingum. Þrátt fyrir að Keilir hafi sýnt fram á að skólinn sé rekstrarlega stöðugur, hefur ekki borist svar við endurmat á umsókn. Sjö vikur eru síðan óskað var eftir endurmati í ljósi breyttrar rekstrarstöðu og tæpar tuttugu vikur síðan upphafleg umsókn var send til MRN.
Samstarfssamningur varðandi háskólabrú var gerður við Háskóla Íslands til næstu fjögurra ára. Það nám fellur undir ráðuneyti menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytis. Bæjarráð Reykjanesbæjar fagnar þeim samningi og telur farsælt að vera í samstarfi við HÍ um þetta metnaðarfulla nám.
Bæjarráð Reykjanesbæjar skorar á ráðherra mennta- og barnamála og þingmenn Suðurkjördæmis að beita sér fyrir því að framtíð náms og námsframboðs á Suðurnesjum verði tryggt.