Hraðara landris í Svartsengi
Aflögunargögn sýna skýrt merki um að landris haldi áfram undir Svartsengi. Landris mælist nú hraðara en eftir síðustu eldgos. Það gæti skýrst af því hversu mikið rúmmál kviku fór úr kerfinu í þessum síðasta atburði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Hins vegar er enn of snemmt að segja til um áframhaldandi þróun á hraða kvikusöfnunarinnar. Reynsla frá fyrri atburðum sýnir þó að hraði kvikusöfnunar minnkar yfirleitt eftir því sem líður á kvikusöfnunartímabilið milli gosa. Bíða þarf í allavega viku, mögulega nokkrar vikur, til að segja til um hvort og þá hversu mikið hraði kvikusöfnunar mun breytast.
Miðað við þau gögn sem liggja fyrir er ljóst að innflæði kviku undir Svartsengi heldur áfram og er því atburðarásinni á Sundhnúksgígaröðinni ekki lokið. Á meðan kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi eru líkur á endurteknum kvikuhlaupum og jafnvel eldgosum. Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og meta mögulegar sviðsmyndir út frá nýjustu gögnum.
Færslur á GPS-stöðinni SENG á Svartsengissvæðinu síðan 11. nóvember 2023 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (7. apríl) er sýnd með grænum punkti. Rauðu línurnar eru tímasetningar á upphafi síðustu átta eldgosa (18. desember 2023, 14. janúar, 8. febrúar, 16. mars, 29. maí, 22. ágúst og 20. nóvember 2024 og 1. apríl 2025). Bláu línurnar tákna tímasetningar kvikuhlaupa sem hafa orðið án þess að hafi komið til eldgoss (10. nóvember 2023 og 2. mars 2024).
Kvikugangurinn sem myndaðist nú er sá stærsti síðan í nóvember 2023
Samkvæmt líkanreikningum fóru um 30 milljón rúmmetrar af kviku úr kvikuhólfinu undir Svartsengi og yfir í kvikuganginn þann 1. apríl. Þetta gerir kvikuhlaupið það stærsta síðan 10. nóvember 2023. Áfram er að mælast smáskjálftavirkni á norðurhluta kvikugangsins sem myndaðist þann 1. apríl. Einnig mælast enn gikkskjálftar við Reykjanestá og vestur af Kleifarvatni. Dregið hefur úr aflögun í kringum norðurhluta kvikugangsins, en þó er áfram að mælast aflögun á GPS-stöðvum nær kvikuganginum og á gervitunglamyndum.
Hættumat uppfært
Hættumat hefur verið uppfært og gildir til 15. apríl að öllu óbreyttu. Breytingar hafa orðið á nánast öllum svæðum frá síðasta mati. Svæði 3 (Sundhnúksgígaröðin) fer úr mikilli hættu (rauð) niður í töluverða hættu (appelsínugul). Svæði 4 (Grindavík) og svæði 5, 6 og 7 færast úr töluverðri hættu (appelsínugul) niður í nokkra hættu (gul). Þrátt fyrir að hættustig á þessum svæðum hafi verið lækkað er enn talsverð hætta á jarðfalli ofan í sprungur. Svæði 1 er enn metið sem nokkur hætta (gul).