Vogum ekki verið bættur verulegur kostnaðarauki vegna Grindvíkinga
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga telur miður að sveitarfélaginu hafi ekki enn verið bættur sá verulegi kostnaðarauki og tekjufall sem sveitarfélagið hefur orðið fyrir vegna málefna Grindvíkinga. Þetta kemur fram í bókun bæjarstjórnar frá 26. mars síðastliðnum.
Þar segir að breytingar á lögum um aðsetursskráningu, sem sett voru á í kjölfar rýmingar Grindavíkur, hafa komið einna verst niður á Sveitarfélaginu Vogum. Með aðsetursskráningu íbúa fara útsvarstekjur viðkomandi íbúa til þess sveitarfélags þar sem lögheimili er, í Grindavík. Jafnframt hefur aðsetursskráning áhrif á framlög úr Jöfnunarsjóði.
Fjöldi aðsetursskráðra Grindvíkinga í Sveitarfélaginu Vogum á sl. ári var þegar mest lét 200 manns sem er 13,3% af íbúafjölda sveitarfélagsins í byrjun þess árs. Í dag eru tæplega 3% íbúa sveitarfélagsins aðsetursskráðir og með lögheimili í Grindavík.
Sveitarfélagið Vogar kallar eftir viðbrögðum frá ríkisstjórn um hvernig staðið verði að stuðningi við þau sveitarfélög sem mestan þunga hafa borið í stuðningi við Grinavíkinga. Sveitarfélagið Vogar vill geta tekið vel utan um þá Grindvíkinga sem hafa flutt til sveitarfélagsins og eru að vinna úr sínu áfalli, segir í bókuninni.