Leikfélag Glanni
Leikfélag Glanni

Fréttir

Vísbendingar eru um að landris sé hafið að nýju
VF/Jón Steinar Sæmundsson
Föstudagur 4. apríl 2025 kl. 15:21

Vísbendingar eru um að landris sé hafið að nýju

GPS-mælingar sýna vísbendingar um að landris sé hafið á ný í Svartsengi eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Líklegast er það áframhaldandi kvikusöfnun undir Svartsengi sem veldur landrisinu en hluti þess er vegna áhrifa frá myndun kvikugangsins þann 1. apríl. Það er vegna þess að þegar kvikugangar myndast þrýsta þeir jarðskorpunni frá sér til beggja hliða. Að svo stöddu er því erfitt að meta hraða kvikusöfnunar og mögulega þarf að bíða í allt að viku til að meta frekari þróun kvikusöfnunar undir Svartsengi. Þetta kemur fram í tilkynningu Veðurstofu Íslands.

Aflögunarmælingar sýna einnig að enn mælast hreyfingar á GPS-stöðvum í kringum norðurhluta kvikugangsins, m.a. í Vogum og við Keili. Gervitunglamyndir sem sýna breytingar á milli 2. og 3. apríl kl. 16 staðfesta hreyfingar á þessu svæði. Sömu gögn sýna einnig mælanlegar sprunguhreyfingar, um nokkra millimetra, í austurhluta Grindavíkur.

VF Krossmói
VF Krossmói

Seng8h04042025

VOGC8h04042025

Gröfin sýna 8 klst lausnir fyrir GPS-stöðvarnar SENG sem staðsett er í Svartsengi og VOGC sem er í Vogum. Gögnin sýna færslur í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Á lóðréttum færslum á SENG má sjá vísbendingar um að landris sé hafið eftir töluvert landsig þegar kvika hljóp yfir kvikuganginn þann 1. apríl. Gögnin frá VOGC sýna enn færslur í tengslum við norðurhluta kvikugangsins en stöðin er í tæplega 7 km fjarlægð frá honum.


Minnkandi skjálftavirkni en enn aflögun og smáskjálftavirkni til staðar

Jarðskjálftavirkni yfir norðurhluta kvikugangsins fer áfram minnkandi en enn mælast þó smáskjálftar á svæðinu. Síðastliðna nótt og í morgun mældust um það bil 20 til 30 skjálftar á klukkustund, flestir undir M1.0 að stærð, þegar virknin var mest mældust yfir 100 skjálftar á klukkustund. Skjálftarnir dreifast flestir á svæðið frá Stóra-Skógfelli í suðri og norður fyrir Keili. Dýpi skjálftanna mælist að mestu leyti á bilinu 4 til 6 kílómetrar og hefur það haldist stöðugt síðustu daga.

Langstærstur hluti kvikunnar sem fór úr Svartsengi liggur í kvikuganginum sem myndaðist þann 1. apríl og sums staðar á um 1,5 km dýpi skv. líkanreikningum. Enn mælist aflögun vegna kvikugangsins og smáskjálftavirkni í norðurhluta hans áfram óvenjulega mikil, þrátt fyrir að hún hafi farið minnkandi. Í ljósi þessa er áfram nokkur óvissa um þróun næstu daga og ekki enn hægt að útiloka kvikuhreyfingar í ganginum.

Skjalftakort04042025

Skjalftar04042025

Kortið sýnir staðsetningu allra yfirfarinna jarðskjálfta á Reykjanesskaga síðasta sólarhring. Á kortinu eru einnig sýndar fyrstu niðurstöður um áætlaða legu kvikugangsins sem nær frá Grindavík í suðri að svæðinu sem er um 3 km NV við Keili. Bláu súlurnar sýna fjölda skjálfta, bæði yfirfarna og óyfirfarna, á hverri klukkustund síðan að morgni 1. apríl. Þar sést að fjöldi skjálfta hefur farið nokkuð minnkandi síðasta sólarhring. Neðsta grafið sýnir stærðir jarðskjálftanna og sýnir að áfram dregur úr stærð þeirra. Dekkri hringir sýna stærðir yfirfarinna skjálfta en ljósari óyfirfarnar niðurstöður.


Hrina við Trölladyngju líklega gikkskjálfti

Í gær, kl. 17:30 síðdegis þann 3. apríl hófst töluverð jarðskjálftahrina við Trölladyngju, norðvestan við Kleifarvatn. Um kl. 23 mældist stærsti skjálftinn í þeirri hrinu, M4,0 að stærð. Frá því hrinan hófst hafa sex skjálftar mælst yfir þremur að stærð. Veðurstofunni barst fjöldi tilkynninga um að þeir hafi fundist í byggð. Eftir miðnætti hefur virkni á svæðinu farið minnkandi. Líklegast er að jarðskjálftarnir við Trölladyngju séu gikkskjálftar vegna spennubreytinga í kjölfar myndunar kvikugangsins þann 1. apríl. Áfram er möguleiki á því að gikkskjálftar af svipaðri stærð og í gærkvöldi verði á nærliggjandi svæðum eins og Trölladyngju og Reykjanestá á næstu dögum og vikum.


Hættumat óbreytt

Hættumat Veðurstofunnar hefur verið uppfært og heildarhætta á öllum svæðum er óbreytt frá síðustu útgáfu. Hættumatið gildir að öllu óbreyttu til kl. 15:00 þann 8. apríl.

Haettumat04042025


Hraunbreiðan um 0,23 km2 að flatarmáli og meðalþykkt um 1,7 m.

Búið er að vinna úr gögnum sem sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar söfnuðu í mælingaflugi yfir gosstöðvarnar síðdegis 1. apríl og eru niðurstöðurnar sýndar á meðfylgjandi korti. Hraunbreiðan sem myndaðist á þeim 6 klukkustundum sem gosið stóð yfir var um 0,23 km2 að flatarmáli og meðalþykkt um 1,7 m.

Thykktarkort04042025