Grindavík opin öllum
Lögreglustjóri hefur í samráði við sína viðbragðsaðila opnað fyrir alla umferð til og frá Grindavík. Metur hann áhættu inn í þéttbýlinu í Grindavík ásættanlega við núverandi aðstæður. Áhættan er hins vegar óásættanleg fyrir alla inn á gos-/sprengjusvæði.
Framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa i Grindavíkurbæ uppfærði áhættumat m.a. fyrir þéttbýlið í Grindavík 2. apríl sl. en niðurstöður eru þessar. Áhættumatið verður birt á heimasíðu almannavarna.
„Á grundvelli áhættumats verkfræðistofunnar, sem m.a. tekur tillit til hættumats Veðurstofunnar og þeirra varna sem eru til staðar og unnið er sífellt að, er það niðurstaða Framkvæmdanefndarinnar og Almannavarnadeildar að áhætta allra aðila sé mjög há, sem þýðir að varnir gegn hættum séu til staðar en mikil hætta sé á alvarlegum atburðum. Því er fólki, öðrum en viðbragðsaðilum og þeim sem starfa sinna vegna þurfa að vera á ferðinni í Grindavík, ráðið frá því að vera á svæðinu.
Áhættumat verkfræðistofunnar Örugg er unnið fyrir þrjú svæði, þ.e. 1) gossvæði/sprengisvæði, 2) Svartsengi og 3) Grindavík (þéttbýli). Matið er unnið fyrir fjóra hópa, þ.e. 1) viðbragðsaðila, ráðgjafa og verktaka, 2) íbúa, 3) fyrirtæki og 4) ytri aðila og ferðamenn.
Í Grindavík er áhætta metin há fyrir viðbragðsaðila, ráðgjafa og verktaka, mjög há fyrir íbúa og fyrirtæki og óásættanleg fyrir ytri aðila og ferðamenn. Á Svartsengissvæðinu er áhætta talin miðlungs fyrir viðbragðsaðila, ráðgjafa og verktaka en há fyrir fyrirtæki, ytri aðila og ferðamenn. Á gos-/sprengisvæði er áhættan hins vegar óásættanleg fyrir alla aðila. Mælt er gegn því að óviðkomandi fari inn á gos- og sprengisvæði.
Farið er í eftirlitsferðir hvern morgun, og yfir daginn, til að kanna hvort einhverjar varnir hafi gefið sig og gert við lokanir þar sem þess kann að gerast þörf.
Áhættumatið gildir þar til nýtt áhættumat er gefið út.“