Gosvirkni nær yfirleitt ekki svona langt norður í þessu kerfi
„Ef innflæðið heldur áfram að minnka næstu vikur og mánuði eins og verið hefur, er vafamál hvort það næst nægileg kvika inn til að koma af stað fleiri gosum. En ef kvikuinnflæðið verður svipað og verið hefur undanfarna ca. tvo mánuði, gæti komið annað gos eða gliðnunaratburður eftir sex til tólf mánuði. Hvað er líklegast er erfitt um að segja en allt eins líklegt að það sé farið að styttast verulega í þessu,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðilisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við Víkurfréttir.
Um tuttugu kílómetra kvikugangur myndaðist í náttúruhamförum þriðjudaginn 1. apíl. Nyrsti endi hans er norðaustan við Keili. Magnús Tumi segir það vera tvennt sem stýrir atburðarásinni.
„Við vitum ekki hversu tengt það er. Annarsvegar er það togspennan, sem hefur byggst upp yfir hundruði ára og verður til þess að gliðnunin fer af stað. Hún er orðin allavega sjö metrar eða svo síðan í nóvember 2023 kringum Svartsengi. Hinsvegar er það ný kvika sem kemur að neðan. Þetta er auðvitað mjög tengt.
Það sem við vitum er að innstreymi kviku hefur minnkað jafnt og þétt úr átta til tíu rúmmetrum á sekúndu í október/nóvember 2023, niður í ca. einn og hálfan rúmmetra á sekúndu. Það er 15% af því sem var í hámarkinu fyrir sextán til sautján mánuðum. Samanlagt er þetta vísbending um að við séum komin mjög á seinni hluta þessarar atburðarásar á Sundhnjúksgígaröðinni. Jafnframt er nú komið upp álíka magn af kviku og kom upp í fyrsta fasa gostímabilsins 800-1240,“ segir Magnús Tumi. Samanlagt hafa komið upp á síðustu fjórum árum 0,4 km3 við Fagradalsfjall og á Sundhnúkaröðinni.
— Er þetta vísbending um að virknin sé að færa sig milli kerfa?
„Ég held að það sé ekki rétt að draga þá ályktun, þó hún sé alls ekki útilokuð. Atburðarásin nú sýnir að ekki var búið að losa alla spennu á flekamótunum eða þessum hluta þess. Jafnframt sýnir hún að nyrsti hlutinn átti eftir að gliðna. Nú er orðin veruleg gliðnun þar, sem í heildina leggst við gliðnun við Fagradalsfjall og Keili á árunum 2021-2022.“
Bara einn lítill blettur
Magnús Tumi segir að það megi draga þá ályktun að vegna tíðra eldgosa er nú þrengri vegur fyrir kvikuna upp en var áður. Því bættist við gliðnuna og nyrsti hluti kerfisins gliðnaði mest.
„Þar hafði engin gliðnun orðið fyrr í þessum atburðum. Sprungur sem þar eru sýna hinsvegar að það gerist yfirleitt. Hinsvegar er bara einn lítill blettur þar sem hraun kom upp fyrir nokkur þúsund árum. Annars er þarna norðan til bara hraun úr Þráinsskildi, 14.100 ára gamalt. Þetta þýðir að gosvirkni nær yfirleitt ekki svona langt norður í þessu kerfi, þó svo að gliðnun og innskot geri það“.
— Hvernig túlkar þú þá þennan atburð 1. apríl?
„Mín túlkun er sú að þetta breyti í raun engu um túlkun atburðanna. Við eigum eftir að sjá hvort innflæðið heldur áfram að minnka eftir þennan atburð,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.