Lýsa yfir goslokum sex klukkustunda goss
Greining á vefmyndavélum, myndböndum úr drónaflugi og gasmælingum sýna að eldgosið sem hófst kl. 9:44 að morgni 1. apríl lauk um kl. 16:45 sama dag. Eldgosið stóð í rétt yfir í um 6 klst sem gerir það stysta eldgosið í þessari goshrinu á Sundhnúksgígaröðinni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Hins vegar er atburðinum ekki lokið því áfram mælist nokkur fjöldi smáskjálfta á kvikuganginum, aðallega norður af Stóra- Skógfelli þó dregið hefur úr virkninni síðustu 12 klukkustundirnar. Lítil skjálftavirkni mælist á suðurhluta kvikugangsins.
Jarðskjálftavirkni við Reykjanestá, Eldey og Trölladyngju hefur einnig minnkað, en þar hefur verið gikkskjálftavirkni síðustu sólarhringa.
Kortið sýnir staðsetningu allra yfirfarinna jarðskjálfta á Reykjanesskaga síðasta sólarhring. Bláu súlurnar sýna fjölda skjálfta á hverri klukkustund síðan að morgni 1. apríl. Þar sést að fjöldi skjálfta er enn töluverður, en grafið fyrir neðan sýnir stærðir jarðskjálftanna sem sýnir að dregið hefur nokkuð úr stærð skjálftanna síðasta sólarhring.
Ólíklegra með tímanum að ný gosopnun myndist
Landsig í Svartsengi mælist ekki lengur sem bendir til að kvikuflæði frá Svartsengi yfir í kvikuganginn sé orðið það lítið að aflögun vegna þess mælist ekki á GPS stöðvum á yfirborði.
Það verður ólíklegra með tímanum að ný gosopnun myndist yfir norðausturhluta kvikugangsins, þó er enn töluverð óvissa um það á meðan enn mælist mikill fjöldi smáskjálfta á svæðinu. Þetta mat er byggt á því að landsig mælist ekki í Svartsengi og því er kvikuflæði inní ganginn orðið lítið. Einnig er meirihluti kvikunnar nú þegar farinn úr Svartsengi yfir í kvikuganginn og því er ólíklegt að nægur þrýstingur sé til staðar svo kvika geti brotið sér leið til yfirborðs.
Aflögunarmælingar á næstu dögum og vikum munu varpa ljósi á hvernig kvikusöfnunin undir Svartsengi þróast.
Hættumat sem gefið var út í gær 2. apríl er í gildi til kl. 15:00 á morgun 4. apríl að öllu óbreyttu.
Skýr aflögun við norðurenda kvikugangsins nýja
Aflögunarmælingar sýna að nyrsti hluti kvikugangsins liggur á svæði tæplega 4 km norðan við Keili. Út frá gervitunglamyndum og líkanreikningum má sjá að kvikugangurinn komst næst yfirborði um 5 km NA við Stóra-Skógfell, en þar liggur efri hluti hans á um 1,5 km dýpi.
Gervitunglamyndir sýna einnig sprunguhreyfingar yfir norðurhluta kvikugangsins á svæðinu norðaustan við Litla-Skógfell.
Einnig sjást sprunguhreyfingar innan Grindavíkurbæjar, þó á nokkuð minni en urðu í tengslum við eldgosið í janúar 2024. Einnig mældust sprunguhreyfingar á Reykjanestá í kjölfar jarðskjálfta sem var M5.3 að stærð og varð síðdegis þann 1.apríl.
Bylgjuvíxlmynd sem sýnir aflögun á yfirborði á milli 31. Mars og 2. apríl. Hvít brotalína sýnir áætlaða legu kvikugangsins sem myndaðist 1. apríl og hvítar línur sýna hvar sprunguhreyfingar (>1 cm) á yfirborði mældust. Vísbendingar eru um minni sprunguhreyfingar á stærra svæði. Mesta aflögunin hefur mælst á svæðunum þar sem lituðu línurnar eru þéttastar. Það er í Svartsengi þar sem land seig um u.þ.b. 25 cm og síðan sitt hvorum megin við norðurhluta kvikugangsins. Grá þekja sýnir útlínur þeirra hraun sem hafa myndast frá því að goshrinan hófst í desember 2023, en appelsínugul þekja sýnir hraunbreiðuna sem myndaðist í eldgosinu 1. apríl.