Nýtt úrræði fyrir ungmenni í Reykjanesbæ
Ný lágþröskuldarþjónusta fyrir ungmenni í Reykjanesbæ var kynnt á fundi lýðheilsuráðs bæjarins nýverið. Þjónustan er sérstaklega hönnuð til að styðja við ungt fólk, óháð aðstæðum þess, með það að markmiði að efla vellíðan, sjálfsstyrk og félagslega færni.
Að verkefninu koma Björgin, Fjörheimar og 88 húsið. Kynningu fyrir lýðheilsuráð sátu Díana Hilmarsdóttir, forstöðumaður Bjargarinnar, Ólafur Bergur Ólafsson frístundaráðgjafi og Svala Rún Magnúsdóttir, aðstoðarforstöðumaður Fjörheima og 88 hússins. Fram kom að þjónustan verður ókeypis og opin öllum ungmennum sem þurfa á stuðningi að halda.
Lýðheilsuráð fagnaði verkefninu og lýsti því yfir að um afar þarft framtak væri að ræða. Sérstaklega var bent á að úrræðið væri í takt við ákall ungmennaráðs Reykjanesbæjar, sem hefur ítrekað bent á þörfina fyrir aðgengilegan stuðning við andlega og félagslega heilsu ungs fólks.
Hugtakið lágþröskuldarþjónusta vísar til þjónustu sem auðveldar aðgang, þar sem notendur þurfa ekki að uppfylla flókin skilyrði, fara í gegnum langar biðraðir eða mæta miklum formkröfum til að fá stuðning.