Íþróttaannáll 2024 (apríl, maí og júní)
Apríl:
UMFN 80 ára – Nafni UMFN breytt á 80 ára afmæli félagsins
Ungmennafélag Njarðvíkur fagnaði 80 ára afmæli á árinu og hófst afmælisfögnuður þann 10. apríl, á sjálfan afmælisdag Ungmennafélags Njarðvíkur.
Mætingin á aðalfund félagsins, sem var haldinn þann 23. apríl, var mjög góð enda var 80 ára afmæli félagsins fagnað við sama tilefni og því boðið upp á dýrindis veitingar af tilefninu.
Á fundinum var lagt til að nafn UMFN yrði framvegis Ungmennafélagið Njarðvík í stað Ungmennafélags Njarðvíkur. Í daglegu tali er jafnan talað um Njarðvík þegar verið er að fjalla um félagið og nafnabreytingin því í takt við það.
Tuttugu Íslandsmeistaratitlar
Tólf Íslandsmeistaratitlar og átta Íslandsmeistaratitlar í unglingaflokki var það sem sundlið ÍRB kom með til Reykjanesbæjar að loknu Íslandsmótinu í sundi í 50 metra laug.
Guðmundur Leo Rafnsson og Eva Margrét Falsdóttir fóru fyrir sigursælu liði ÍRB á Íslandsmótinu sem fór fram í Laugardalslaug.
Eva Margrét Falsdóttir vann þrjá titla og Guðmundur Leo fjóra ásamt því að vinna fjóra titla í unglingaflokki en unglingameistarar eru krýndir að loknum undanrásum. Guðmundur Leo, sem er í algjörum sérflokki í baksundssgreinunum, var í miklum ham á mótinu. Hann sló tíu ára gamalt unglingamet í 50 metra baksundi og var aðeins nokkrum hundraðshlutum frá unglingameti Arnar Arnarsonar í 100 metra baksundi. Jafnframt tryggði hann sér þátttöku á Evrópumeistaramóti unglinga í öllum baksundsgreinum. Að loknu Íslandsmóti átti ÍRB alls tólf sundmenn sem náðu lágmörkum til að keppa í hinum ýmsu landsliðsverkefnum á vegum Sundsambands Íslands.
Þrjár fimleikastelpur úr Reykjanesbæ í öðru sæti á Norðurlandamóti unglinga í hópfimleikum
Norðurlandamót unglinga í hópfimleikum var haldið í Lundi í Svíþjóð í apríl. Fjögur íslensk lið unnu sér inn keppnisrétt á mótinu, tvö kvennalið og tvö blönduð lið, sem samanstanda af bæði drengjum og stúlkum.
Annað af tveimur kvennaliðum mótsins var lið Gerplu frá Kópavogi en með því keppa þrjár ungar stúlkur úr Reykjanesbæ, þær Helen María, Írisi Björk og Margréti Júlía. Allar koma þær úr fimleikadeild Keflavíkur þar sem þær hafa stundað áhaldafimleika með góðum árangri frá barnsaldri en ákváðu að breyta til og færðu sig yfir í hópfimleika hjá Gerplu í byrjun árs 2023.
Gerplustelpurnar skiluðu sínum æfingum óaðfinnanlega og enduðu mótið í öðru sæti á eftir ABGS frá Svíþjóð.
Þróttur dró lið sitt úr keppni í átta liða úrslitum
Körfuknattleiksdeild Þróttar Vogum dró lið sitt úr keppni í fyrstu deild karla en ákvörðunin kom verulega á óvart þar sem liðið var komið í átta liða úrslit á sínu fyrsta ári í næstefstu deild. Í framhaldinu telfdi Þróttur ekki fram körfuknattleiksliði yfir yfirstandandi tímabil.
Öll Suðurnesjaliðin í undanúrslitum Subway-deildanna
Öll Suðurnesjaliðin komust í undanúrslit Subway-deilda karla og kvenna sem hófust í lok aprílmánaðar, það eru sex lið af átta.
Maí:
Birna ekki meira með Keflavík
Birna Valgerður Benónýsdóttir, einn besti leikmaður kvennaliðs Keflavíkur í körfubolta er með slitið krossband og verður ekki með liðinu í úrslitarimmunni gegn Njarðvík sem hefst fimmtudaginn 16. maí. Birna meiddist í fimmta leiknum gegn Stjörnunni í vikunni þegar hún rann á gólfinu í sókn Keflvíkinga seint í leiknum.
Keflavík Íslandsmeistarar í körfuknattleik kvenna 2024
Það var skiljanlega mikil gleði meðal leikmanna og stuðningsmanna Keflavíkur eftir að kvennaliðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn en Keflavík batt enda á frábært tímabil ímeð því að tryggja sér Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik.
Úrslitaeinvígi Keflavíkur og Njarðvíkur lauk með þremur sigrum Keflvíkinga í þremur leikjum og staðfesta úrslitin að Keflavík er langbesta liðið í körfuknattleik kvenna á Íslandi í dag en auk þess að verða Íslandsmeistarar urðu Keflvíkingar deildar- og bikarmeistarar.
Birna og Kristinn leikmenn ársins
Sjálfboðaliðar Grindavíkur og Breiðabliks sjálfboðaliðar ársins
Körfuknattleikssamband Íslands opinberaði val á leikmönnum og liðum árins nú í hádeginu auk annarra heiðrana. Keflvíkingurinn Birna Valgerður Benónýsdóttir er leikmaður ársins í Subway-deild kvenna og Kristinn Pálsson, Njarðvíkingurinn sem varð Íslandsmeistari með Val, er leikmaður ársins hjá körlunum.
Sveindís Jane bikarmeistari með Wolfsburg
Sveindís Jane Jónsdóttir varð þýskur bikarmeistari með Wolfsburg þegar liðið lagði nýbakaða þýska meistara Bayern Munich 2-0 í úrslitaleik. Þetta var annar bikartitillinn sem Sveindís vinnur með Wolsburg en liðið hefur náð þeim magnaða árangri að verða bikarmeistari síðustu tíu árin.
Júní:
Líf og fjör þegar vel heppnað Landsmót UMFÍ 50+ var haldið í Vogum
„Ég er afskaplega stoltur af því að tilheyra þessu samfélagi og íþróttafélaginu okkar, Þrótti,“ sagði Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar, að loknu Landsmóti UMFÍ 50+ sem var haldið í Vogum í byrjun júní og tókst mjög vel. Fjölmargir gestir heimsóttu Vogana og eins voru margir sem komu að undirbúningi og framkvæmd mótsins, jafnt sjálfboðaliðar sem og starfsmenn Þróttar og Sveitarfélagsins Voga. Þetta var tólfta Landsmótið sem hefur verið haldið en mótið fer fram árlega.
Fjögurra daga keppni í fjölda íþróttagreina í byrjun júní
Keppni í fjölmörgum greinum fór fram á Landsmótinu í Vogum: Strandarhlaup - Danssmiðja - Kasína - Grasblak - Göngufótbolti - Pokavarp - Brennibolti - Frisbígolf inni - Keila - Heimatónleikar - Boccia - Borðtennis - Bridge - Frisbígolf - Frjálsar íþróttir - Golf - Pútt - Pílukast - Pönnukökubakstur - Ringó - Stígvélakast - Sund.
Keflavík úr leik eftir vítaspyrnukeppni gegn Val
Keflvíkingar gátu borið höfuðið hátt þegar úrvalsdeildarlið Vals sló Keflavík út í átta liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu en Valsarar höfðu að lokum betur eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni.
Valur var þriðja úrvalsdeildarliðið sem Keflavík mætti í bikarkeppninni en fyrsti mótherji Keflvíkinga var Víkingur Ólafsvík sem Keflavík vann 2:3 á útivelli.
Í 32-liða úrslitum vann Keflavík sigur á úrvalsdeildarliði Breiðabliks með tveimur mörkum gegn einu og mætti ÍA í sextán liða úrslitum, Keflavík vann þann leik 3:1 og mætti því Val í átta liða úrslitum.
Brynjar Björn fékk reisupassann eftir leikinn gegn Keflavík
Það er óhætt að segja að Grindvíkingar hafi ekki byrjað tímabilið vel í Lengjudeild karla í knattspyrnu í fyrra og eftir sex umferðir sat liðið í næstneðsta sæti með eitt tap og fimm jafntefli.
Þessi árangur var langt undir væntingum Grindvíkinga og augljóslega þurfti að breyta einhverju. Það varð því úr að skipta út manninum í brúnni og var þjálfaranum, Brynjari Birni Gunnarssyni, sagt upp störfum eftir fjórða jafnteflisleikinn í röð, þá gegn Keflavík. Haraldur Árni Hróðmarsson var ráðinn í stað Brynjars og stýrði félaginu út leiktíðina.
Tvö sjónarhorn af marki Keflavíkur gegn Njarðvík
Keflavík og Njarðvík skildu jöfn þegar liðin áttust við á HS Orkuvellinum í Lengjudeild karla í knattspyrnu. Aðstæður voru frábærar en leikurinn fór fram í blíðaskapaveðri og fjöldi áhorfenda mætti til að fylgjast með en áhorfendafjöldinn var 1.100 manns.
Logi Sigurðsson er Íslandsmeistari í holukeppni
Er handhafi allra stærstu titlanna sem eru í boði á Íslandi
Logi Sigurðsson sem er í Golfklúbbi Suðurnesja, varð Íslandsmeistari í holukeppni eftir að hafa unnð Jóhannes Guðmundsson í Golfklúbbi Reykjavíkur í úrslitaleik, 3&2.
Með þessum sigri er Logi handhafi allra þriggja stóru titlana í karlagolfi. Hann er Íslandsmeistari í höggleik, Íslandsmeistari í holukeppni og Stigameistari Golfsamband Íslands. Hann er einnig ríkjandi klúbbmeistari Golfklúbbs Suðurnesja og Íþróttamaður Reykjanesbæjar.