Samkaup
Samkaup

Íþróttir

Friðrik Ingi tekur við karlaliði Hauka
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 3. janúar 2025 kl. 14:09

Friðrik Ingi tekur við karlaliði Hauka

„Ég taldi þetta best fyrir mig og liðið, að ég myndi stíga frá borði en sú ákvörðun tengist á engan hátt því að ég sé tekinn við Haukum,“ segir körfuknattleiksþjálfarinn Friðrik Ingi Rúnarsson. Frikki tók við kvennaliði Keflavíkur fyrir þetta tímabil og voru miklar væntingar gerðar til liðsins eftir að það hafði unnið alla titla sem voru í boði á síðasta tímabili. Meiðsl lykilleikmanna og sú staðreynd að ekki tókst að finna erlendan leikstjórnanda, spilaði inn í að gengið var brösótt til að byrja með en Frikki er sannfærður um að liðið muni rétta úr kútnum en taldi rétt fyrir sig og liðið, að annar tæki við stjórninni.

Það var ekki fyrr en rétt fyrir jól sem Haukar höfðu samband við Friðrik en þeir höfðu látið Maté Dalmay, þjálfara karlaliðs félagsins, fara þann 1. desember.

„Nei, það er engin tenging á milli þess að ég hætti með kvennalið Keflavíkur og taki við karlaliði Hauka. Ég taldi einfaldlega rétt fyrir mig og liðið að ég myndi stíga frá borði og ætla ekki að fara nánar út í það. Gengi liðsins var vissulega ekki búið að vera gott en fyrir því voru ástæður að mínu mati, bæði voru lykilleikmenn frá vegna meiðsla og því miður gekk okkur ekki að finna erlendan leikstjórnanda, vorum m.a. búin að reyna við þá pólsku sem er nú gengin til liðs við liðið en hún byrjaði tímabilið á Spáni. Ég er sannfærður um að liðið mun rétta vel úr kútnum þegar sveitin verður orðin fullmönnuð. Ég var búinn að velta þessu fyrir mér töluvert áður en Haukar voru orðnir þjálfaralausir svo það er engin tenging þarna á milli. Ég hef fulla trú á Keflavíkurliðinu og óska þeim alls hins besta.“

Þriggja ára samningur við Hauka

Karlalið Hauka hefur verið í brasi á þessu tímabili, eru neðstir með tvo sigra og níu töp. Þeir létu tvo erlenda leikmenn fara en mikill efniviður er fyrir hendi hjá Haukum sem Frikka hlakkar til að vinna með.

„Haukarnir voru búnir að ráða nýjan bandarískan leikmann, þann sama og var með þeim á síðasta tímabili, ég þekki ekkert til viðkomandi og tek einfaldlega við þeim mannskap sem er fyrir hendi. Það er mikill efniviður hjá Haukunum og við viljum gefa þeim strákum tækifæri á að spila og við ætlum okkur að sjálfsögðu að snúa taflinu við og takmarkið er að sjálfsögðu að halda sæti sínu í deildinni. Ég gerði samning út þetta tímabil og næstu tvö svo það má kannski segja að þetta sé ákveðið uppbyggingarferli en ég er keppnismaður eins og mínir leikmenn, við ætlum okkur að gera okkur gildandi, snúa genginu við og halda sæti okkar í deildinni. Eftir tímabil tökum við stöðuna,“ sagði Friðrik Ingi að lokum.