Íþróttir

Mættur til að verka upp eftir meðeiganda sinn
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 1. febrúar 2025 kl. 07:15

Mættur til að verka upp eftir meðeiganda sinn

Jóni Ragnari Magnússyni tókst að forðast „17“- bölvunina en oftar en ekki hefur sigurvegara í tippleik Víkurfrétta fatast flugið og tapað í næsta leik og endað með sautján rétta í deildarkeppninni. Jón Ragnar hafði engan áhuga á að bætast í þann vafasama félagsskap og vann nafna sinn, Jón Örvar Arason, 10-9. Frábær frammistaða hjá gamla markmanninum en dugði ekki að þessu sinni. Næsti áskorandi heitir Brynjar Hólm Sigurðsson, er málari og rekur SB málun ásamt félaga sínum, Sverri Þór Sverrissyni. Þessi Sverrir fékk að spreyta sig í tippleiknum í fyrra en varð ekki kápan úr því klæðinu og steinlá gegn Grindvíkingnum Gunnari Má Gunnarssyni.

Brynjar hefur ekki áhyggjur af því að feta í fótspor meðeiganda síns og telur sig í raun vera mættan í leikinn til að verka upp eftir Sverri Þór.

„Ég trúði varla eigin augum í fyrra þegar Sverrir Þór steinlá í leik sínum, ég bauð honum aðstoð mína við að fylla út seðilinn en hann hélt nú ekki, sagðist geta rúllað Gunnari Má upp einn og óstuddur. Hann átti að muna að ég er fyrrum sigurvegari í tippleik Víkurfrétta, ég fór á úrslitaleikinn á Wembley ‘94 þegar Manchester United rúllaði Chelsea upp 4-0. Því miður voru mínir menn í Liverpool ekki í úrslitum þá en ég hef fulla trú á að þeir nái alla leið í ár og mikið ofboðslega yrði gaman að sjá mína menn rúlla erkióvinunum í Manchester United upp í úrslitaleiknum. Ég er mikill stuðningsmaður Liverpool, hef verið ársmiðahafi undanfarin ár og er búinn að panta hótel þegar lokaleikurinn í deildinni fer fram. Það yrði draumur að vera á Anfield Road þegar dollunni verður lyft upp. Það myndi ekki taka því að fara heim fyrst ég væri að mæta á Wembley helgina eftir en ég mun finna mér eitthvað skemmtilegt að gera í Bítlaborginni á meðan.“

Hestamennska

Brynjar hefur alltaf verið forfallinn íþróttafíkill en æfði þó ekki hinar hefðbundnu boltagreinar heldur stundaði hestamennsku.

„Ég veit ekki hvað olli því en ég hafði bara engan áhuga á að æfa fótbolta eða körfu. Foreldrar mínir voru á kafi í hestamennsku og ég var á kafi í henni þar til fyrir tíu árum. Ég vildi fara gera aðra hluti. Ég hef samt alltaf haft mikinn áhuga á liðum Keflavíkur í fótbolta og körfu, körfubolti hefur verið stór hluti af fjölskyldulífinu þar sem eiginkona mín er Anna María Sveinsdóttir, fyrrum leikmaður Keflavíkur og íslenska landsliðsins.

Ég hlakka til að mæta í þennan tippleik Víkurfrétta og ætla mér ekkert annað en sigur í þessum leik gegn Jóni Ragnari og eftir það ætla ég mér að tryggja mig í fjögurra manna úrslitin. Tökum samt bara einn leik í einu,“ segir Brynjar.

Engin „17“- bölvun

„Ég er auðvitað hæstánægður með að vinna og geta haldið áfram en mesta ánægjan er kannski að hafa forðast hina frægu „17“- bölvun. Ég var mjög stressaður fyrir þessari helgi og um tíma leit út fyrir að ég myndi fá átta rétta sem hefði bara þýtt eitt, að ég væri hluti af þessum vafasama félagsskap. En tippguðirnir voru með mér, leikir snérust í lokin og ég endaði með tíu rétta sem ég er auðvitað hæstánægður með. Nú er bara að láta kné fylgja kviði,“ sagði Jón Ragnar.