Íþróttir

Björn dró lengra stráið og heldur áfram í tippleik Víkurfrétta
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 3. mars 2025 kl. 17:39

Björn dró lengra stráið og heldur áfram í tippleik Víkurfrétta

Það hefði mátt skera spennuna sem myndaðist kl. 14 í dag á skrifstofu Víkurfrétta, með brauðhníf en þá mætti áskorandinn í tippleik Víkurfrétta, Björn Vilhelmsson, ásamt fulltrúa Petru Rósar Ólafsdóttur en hún var á stallinum. Petra var vant viðlátin og sendi systurson sinn, knattspyrnumanninn Sigurjón Rúnarsson, í sinn stað. Það er skemmst frá því að segja að andrúmsloftið verður hugsanlega þrúgað þegar frændsystkinin hittast í næsta fjölskylduboði, Sigurjón tapaði illa í spilaúrdrættinum og Petra því úr leik.
Myndin var tekin rétt fyrir úrdráttinn.

Björn var fyrri til að draga úr stokknum sem eigandi og ritstjóri Víkurfrétta, Páll Ketilsson, hélt á en hann sá um úrdráttinn. Björn hélt spili sínu þétt að sér á meðan Sigurjón dró og þegar úrslitin voru ljós, brast á mikill fögnuður Garðbúans og hann er því nýr á stalli tippleiksins. 

Björn var kampakátur eftir úrdráttinn.

Það kemur í ljós á morgun hver næsti áskorandi verður.