Kvenfélag Keflavíkur
Kvenfélag Keflavíkur

Fréttir

Allt á kafi í Nátthaga eftir kvöldflóðið
Allt á kafi í sjó í Nátthaga í kvöld. VF/Hilmar Bragi
Sunnudagur 2. mars 2025 kl. 22:46

Allt á kafi í Nátthaga eftir kvöldflóðið

Sjóvarnir í Suðurnesjabæ eru illa farnar eftir flóð helgarinnar. Þá hefur skortur á flóðvörnum einnig valdið því að sjór hefur flætt langt upp á land.

Margir íbúar í Nátthaga, frístundabyggð milli Garðs og Sandgerðis, eru umflotnir sjó eftir flóðið í kvöld. Töluverður sjór var kominn á svæðið eftir flóð í gærmorgun, laugardagsmorgun, en á kvöldflóðinu í kvöld, sunnudagskvöld, fór allt á bólakaf. Sjórinn nær upp á húsum sem standa langt inni í landi og íbúar þeirra komast ekki akandi frá húsum sínum, þar sem vegir eru á kafi í sjó.

„Það eru að koma fljótandi hingað bekkir og borð. Ég veit ekki hvort þau voru við golfvöllinn,“ sagði íbúi í Nátthaga í samtali við blaðamann Víkurfrétta í kvöld. Íbúinn segir að fólkið sem byggir Nátthaga kalli nú eftir því að sjóvörnum verði hraðað. Golfvöllurinn í næsta nágrenni hafi verið varinn en byggðin í Nátthaga standi óvarin fyrir sjávarflóðum.

Unnur Katrín Valdimarsdóttir, sem rekur ferðaþjónustu í Nátthaga og leigir út gistingu, segist hafa þurft að biðja fjölskyldu með þrjú börn að yfirgefa svæðið í kvöld en húsið sem fjölskyldan var í er umflotin sjó eftir hamfarirnar í kvöld. Fjölskyldan fór á hótel. Unnur Katrín segir ótækt að sjóvarnir á svæðinu séu ekki í lagi.