Kvenfélag Keflavíkur
Kvenfélag Keflavíkur

Fréttir

Bátur kastaðist upp á bryggju í þungri öldu
Báturinn hálfur uppi á bryggju í kvöld. VF/Hilmar Bragi
Sunnudagur 2. mars 2025 kl. 23:08

Bátur kastaðist upp á bryggju í þungri öldu

Bátur kastaðist upp á bryggju í Sandgerði í mikilli ókyrrð sem fylgdi háflóðinu í kvöld. Stórar og miklar fyllur komu reglulega inn í höfnina og í einni þeirra kastaðist smábátur upp á bryggjuna við löndunarkranana á norðurgarði hafnarinnar.

Þannig var ástandið í nokkrar mínútur og báturinn hallaði mjög eða þar til önnur stór fylla kom og tók bátinn með sér aftur í höfnina.

Ljósmyndari Víkurfrétta sá atvikið gerast og má sjá myndina hér að ofan þar sem báturinn hallar þar sem hluti hans er uppi á bryggjunni.

Það var í nógu að snúast hjá björgunarsveitarfólki í Sigurvon í Sandgerði í kvöld. Landfestar voru að losna af nokkrum bátum og þá lét björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein ófriðlega í höfninni og var óttast að það væri að losna. Svo reyndist ekki vera.

Nokkrar skemmdir virðast hafa orðið á sjóvarnagörðum í veðrinu í kvöld. Það verður þó að meta betur í birtingu á morgun, mánudag.