Kvenfélag Keflavíkur
Kvenfélag Keflavíkur

Íþróttir

Grindavík með sigur í B-deild Bónusdeildar kvenna, Keflavík tapaði í A-deildinni
Daisha Bradford skilaði góðu dagsverki í dag í Smáranum.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 2. mars 2025 kl. 20:15

Grindavík með sigur í B-deild Bónusdeildar kvenna, Keflavík tapaði í A-deildinni

Önnur umferð í seinni hluta deildarkeppni Bónusdeildar kvenna fór fram í kvöld og voru tvö lið í eldlínunni en í sitthvorum hluta seinni hlutans, Grindavík vann Aþenu í B-deild í dag og rétt í þessu lauk leik Keflavíkur og Hauka í A-deildinni og lauk honum með sigri Hauka, 96-105.

Grindavík var allan tímann með yfirhöndina í leiknum gegn Aþenu, leiddi með fjórum stigum í hálfleik, 39-35 en frábær þriðji leikhluti sem þær unnu 26-16, lagði gruninn að öruggum sigri, 85-71.

Daisha Bradford og Ísabella Ósk Sigurðardóttir báru af ef mið er tekið að framlagspunktum, Daisha með 32 (27 stig, 10, fráköst og 8 stoðsendingar), Ísabella með 27 (18 stig, 10 fráköst og 3 varin skot).

Grindavík er í fjórða sæti B-deildar, með jafnmörg stig og Hamar/Þór en liðin mætast í lokaumferðinni, það gæti orðið hreinn úrslitaleikur um hvort liðið kemst í úrslitakeppnina.

Í leik Keflvíkinga byrjuðu gestirnir úr Hafnarfirði mun betur og leiddu í hálfleik, 55-61 og fljótlega var munurinn kominn upp í tíu stig. Keflavík náði að jafna í seinni hálfleik en það fór greinilega mikil orka í það, Haukakonur náðu aftur undirtökunum og unnu að lokum öruggan sigur, 96-105.

Jasmine Dickey bar af í liði Keflavíkur, endaði með 36 stig og 11 fráköst.

Eftir leikinn er Keflavík í fjórða sæti A-deildar með 12 sigra og 8 töp.

Jasmine Dickey hefur verið stöðug í vetur hjá Keflavík, 36 stig í leiknum dugðu liðinu ekki til sigurs. VF/GunnlaugurSturla.