Kvenfélag Keflavíkur
Kvenfélag Keflavíkur

Íþróttir

Spilastokkurinn sker úr um sigurvegara helgarinnar í tippleik Víkurfrétta
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 3. mars 2025 kl. 10:53

Spilastokkurinn sker úr um sigurvegara helgarinnar í tippleik Víkurfrétta

Tippleikur Víkurfrétta hélt áfram um síðustu helgi og sú skemmtilega staða kom upp að Petra Rós og áskorandinn Björn Vilhelms, voru hnífjöfn með átta leiki rétta og jöfn á öllum úrræðum og því er ekkert annað í stöðunni en fá þau á skrifstofu Víkurfrétta til að draga úr spilastokki.

Petra Rós var brött þegar blaðamaður tók púlsinn á henni.

„Þar sem ég bý í Hafnarfirði og vinn þar, mun ég senda minn fulltrúa í þennan mikilvæga úrdrátt og ákvað að leita ekki langt yfir skammt. Sigurjón Rúnarsson, systursonur minn, er mikill keppnismaður enda búinn að vera lykilmaður knattspyrnuliðs Grindavíkur undanfarin ár. Ég treysti honum fullkomlega til að draga rétta spilið og tryggja mér áframhaldandi brautargengi í leiknum,“ sagði Petra Rós.

Björn gat ekki hamið eftirvæntingu sína.

„Það er gaman að fá að mæta í svona spilaúrdrátt, ég er að sjálfsögðu ánægður með árangur minn um helgina og mæti auðvitað á eftir með blóðbragð í munni, ég ætla mér að draga rétta spilið,“ segir Björn.

Úrdrátturinn fer fram kl. 14 á skrifstofu Víkurfrétta og mun frétt koma um leið á vef Víkurfrétta að honum loknum.