Haukur Einarsson og Ingibergur Þór Jónasson fengu gullmerki ÍSÍ
Íþróttaeldhugi ársins 2024 var valinn við hátíðlega athöfn á Íþróttamanni ársins, 4. janúar sl. Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattsprnudeildar UMFG og Ingibergur Þór Jónasson formaður körfuknattleiksdeildar UMFG voru meðal þriggja sem valdir voru úr fjölda tilnefninga sem bárust ÍSÍ. Tilnefningar bárust bæði úr íþróttahreyfingunni og frá almenningi og voru þeir heiðraðir fyrir þeirra ómetanlegu störf í þágu íþróttanna til fjölda ára. Auk Hauks og Ingibergs var Björg Elín Guðmundsdóttir tilnefnd en hún hefur starfað fyrir Knattspyrnufélagið Val og Handknattleikssamband Íslands í gegnum árin. Björg var sú sem hlaut nafnbótina íþróttaeldhugi ársins 2024.
Hér fyrir neðan má sjá umsagnir sem bárust ÍSÍ um þá félaga, Hauk og Ingiberg:
Haukur Guðberg Einarsson er formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur. Haukur hefur ásamt stjórn knattspyrnudeildar Grindavíkur haldið úti meistaraflokkum í karla- og kvennaflokki síðastliðið ár við mjög krefjandi og fordæmalausar aðstæður. Haukur hefur setið í stjórn Knattspyrnudeildar Grindavíkur síðastliðin 6 ár og sem formaður í rúmlega þrjú ár en hann hefur verið sjálfboðaliði íþróttahreyfingarinnar í mun fleiri ár í þágu Grindvíkinga. Hann sat meðal annars í stjórn Golfklúbbs Grindavíkur í 2 ár og stjórnaði og hélt Knattspyrnuliði GG lifandi í nokkur ár. Haukur sat í stjórn íþrótta- og æskulýðsnefndar Grindavíkur þar sem hann beitti sér meðal annars fyrir því að foreldrar barna í Grindavík greiddu aðeins eitt gjald og börnin gátu æft eins margar íþróttir og þau langaði til.
Í umsögnum um Hauk í innsendum tilnefningum kom eftirfarandi meðal annars fram:
„Haukur hefur unnið þrekvirki ásamt sinni stjórn, sérstaklega síðastliðið ár að koma knattspyrnudeildinni fyrir á nýjum stað og halda utan um starfsemina til að Grindvíkingar geti komið saman.“
„Í gegnum ótrúlegar hremmingar tókst Hauki ásamt öðrum sjálfboðaliðum í starfi knattspyrnudeildar Grindavíkur að halda úti starfi elstu flokka undir merkjum Grindavíkur. Sú staðreynd gaf heimafólki von og samstöðu um að lífið gæti síðar orðið samt á nýjan leik. Í raun mætti útnefna alla sjálfboðaliða í kringum íþróttastarf Grindavíkur síðastliðið ár.“
Ingibergur Þór Jónasson er formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur. Ingibergur hefur ásamt stjórn lagt á sig ómælda vinnu við að halda úti starfi deildarinnar við mjög krefjandi aðstæður. Ingibergur hefur setið í stjórn síðan 2016 og verið formaður síðan 2017, en hann hefur einnig gengt trúnaðarstörfum fyrir KKÍ og gert sig gildandi í starfi sambandsins.
Í umsögnum um Ingiberg í innsendum tilnefningum kom eftirfarandi meðal annars fram:
„Stjórn körfuknattleiksdeildarinnar með Ingiberg fremstan í flokki lét ekki deigan síga þrátt fyrir nánast óbærilegar aðstæður og fórnaði öllum sínum frítíma i að reka deildina og gleðja með því hið brotna samfélag sem Grindavik var og er.“
„Ingibergur ásamt stjórn körfunnar hélt úti stórkostlegu starfi deildarinnar eftir erfiða upplifun íbúa Grindavíkur eftir rýmingu. Maður skynjaði og sá að hann var í forystu fyrir verkefninu og þrátt fyrir að vera sjálfur í áfalli dreif hann starfið áfram líkt og eldhugi og var unun að fylgjast með honum að störfum og að auki með myndavélina á lofti til að fanga augnablikin í gleði og sorg. Það sem hann gerði skipti svo miklu fyrir okkur á þessum tímapunkti, að hittast, faðmast, gráta, hlæja og gleðjast saman. Verkin hans voru okkar áfallateymi,“ eins og fram kom á heimasíðu Grindavíkurbæjar.