Gömul brýni að taka við kvennaliði Keflavíkur
Sigurður Ingimundarson og Jón Halldór Eðvaldsson aftur í þjálfun
Búið er að ganga frá ráðningu þeirra Sigurðar Ingimundarsonar og Jóns Halldórs Eðvaldssonar sem þjálfara liðs Keflavíkur í Bónusdeild kvenna. Liðið hefur verið án þjálfara í tæpan mánuð, eða frá því að Friðrik Ingi Rúnarsson sagði upp störfum sem aðalþjálfari liðsins um miðjan desember. Elentínus Margeirsson stýrði liðinu á meðan leit að þjálfara stóð yfir en hann stígur nú til hliðar.
Samanlagt hafa þeir skilað Keflavík vel á annan tug titla. Siggi er með fimm og hálfan Íslandsmeistaratitill kvenna (sá hálfi kom þegar hann tók við liðinu í úrslitakeppninni), fjóra bikarmeistaratitla kvenna og fjóra deildarmeistaratitla kvenna auk annrs eins með karlalið Keflavíkur. Jonni hefur gert Keflavík tvívegis að Íslandsmeisturum kvenna og einu sinni að bikarmeisturum.
Víkurfréttir ræddu við Sigga og Jonna þegar búið var að ganga frá ráðningunni en þeir sögðust báðir vera hættir þjálfun en þeir gætu ekki sagt nei þegar Keflavík leitar til þeirra.
Viðtal við þá félaga er í vinnslu og fréttin verður uppfærð innan skamms.