Fréttir

Mikið af eldfimum efnum í skúr sem var alelda
Mánudagur 13. janúar 2025 kl. 16:13

Mikið af eldfimum efnum í skúr sem var alelda

Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað í gærkvöldi um kl. 20 að Efri-Flankastöðum við Sandgerði vegna eldsvoða í útihúsi eða skúr á svæðinu. Þegar fyrsti dælubíllinn kom á vettvang blasti við talsverður reykur og eldur, þar sem útihúsið var fullt af eldfimum efnum.

Á svæðinu eru engir brunahanar, svo kalla þurfti eftir tankbíl til að flytja vatn á vettvang. Auk dælubíls og tankbíls var slökkvilið með þjónustubifreið á staðnum sem m.a. er notuð til að fylla á reykköfunarkúta á meðan verkefninu stóð.

Slökkvistarfi lauk um miðnætti í gærkvöldi en skúrinn varð fyrir miklu tjóni. Notast var við um 26.000 lítra af vatni við slökkvistarfið, segir í samtantekt frá Brunavörnum Suðurnesja.

Myndirnar eru frá vettvangi slökkvilstarfsins og eru teknar af Brunavörnum Suðurnesja.