Fuglarnir á Fitjum þurfa sex tonn af fóðri
Bæjarráð Reykjanesbæjar getur ekki orðið við erindi um styrk til fóðrunar vatnafugla á Fitjum í Njarðvík. Hópur fólks um björgun dýra í neyð sendi bæjaryfirvöldum beiðni um fjárhagslegan stuðning í verkefni tengt dýravelferð. Fuglarnir á Fitjum þurfa um sex tonn af fóðri yfir veturinn, sem kostar rúma eina milljón króna.
Hópurinn sem fóðrar vatnafugla á Fitjum var stofnaður í desember árið 2022 þegar jarðbönn voru og óvenju kalt í veðri. Hópurinn starfar undir heitinu BJÖRGUM DÝRUM Í NEYÐ á Facebook.
Í umsókn til Reykjanesbæjar um styrk segir m.a.: „Við höfum gefið fuglunum á Fitjum daglega síðan þá yfir veturinn. Við gefum næringaríkt kornfóður og andarungaköggla. Það er brýnt að rétta fuglunum hjálparhönd yfir harðasta vetrartímann en við metum það svo að þörfin fyrir Fitjar sé um 30-40 kg af fóðri á dag yfir kaldasta tímann þegar jarðbönn eru. Þetta gerir um 6000 kg af korni yfir veturinn þ.e. frá miðjum desember og fram í apríl. Kornfóður er dýrt og kostar á bilinu 160 – 180 krónur pr. kíló. Við sjálfboðaliðar leggjum talsvert fé úr eigin vasa í fóðurkaup. Allur stuðningur er því vel þeginn.
Jafnframt væri æskilegt að setja upp skilti við Fitjar með leiðbeiningum til fólks varðandi hvað er best að gefa andfuglunum. Við höfum því miður séð að sumir tæma ruslaföturnar sínar við tjarnirnar, losa sig við lambalæri, fisk, eggjaskurn og alls kyns drasl sem getur skaðað fuglana og stytt líf þeirra. Það er mun betra í alla staði að fóðrun sé skipulögð og framkvæmd reglulega af fólki sem hefur þekkingu og reynslu af slíku.“
Í umsókninni segir að hópurinn njóti samstarfs við fugla- og vistfræðina hérlendis sem erlendis er kemur að vali á fóðri. Er óskað eftir myndarlegu framlagi og sagt að það þarf ekki að tíunda það hve mikils virði það er fyrir bæjarbúa og ferðamenn að njóta nálægðar við villta fugla innan bæjarmarka.