Slökkviliðssögur sagðar á sagnastund
Sagnastundir á Garðskaga hafa fest sig í sessi sem fastur punktur í tilveru margra. Viðburðurinn er haldinn mánaðarlega yfir vetrarmánuðina á veitingastaðnum Röstinni af æskufélögunum Bárði Bragasyni og Herði Gíslasyni. Á viðburðinum eru haldin fróðleg erindi og víða leitað fanga í efnistökum.
Jón Guðlaugsson, fv. slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, mætti á sagnastund um liðna helgi. Jón var slökkviliðsmaður í hálfa öld og slökkviliðsstjóri í sautján ár. Hann sagði frá starfi slökkviliðsmanna og sýndi myndir sem endurspegla starfið.
Næsta sagnastund verður svo um miðjan febrúar þegar Egill Þórðarson, loftskeytamaður, mætir og segir frá atburðum í Nýfundalandsveðrinu. Miklir mannskaðar urðu í því veðri en Egill hefur safnað saman ómetanlegum heimildum um sjóslys frá þessum tíma, sem hann mun deila með gestum.