Mannlíf

Reykjanesbær fékk viðurkenningu UNICEF sem barnvænt sveitarfélag
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 8. febrúar 2025 kl. 07:05

Reykjanesbær fékk viðurkenningu UNICEF sem barnvænt sveitarfélag

„Við getum svo sannarlega verið stolt af ungmennunum okkar,“ segir Aðalheiður Júlírós Óskarsdóttir, gæðastjóri og verkefnastjóri Barnvæns sveitarfélags, verkefnis er lítur að því að gera Reykjanesbæ að barnvænu sveitarfélagi. Á dögunum veitti UNICEF á Íslandi, Reykjanesbæ viðurkenningu og telst sveitarfélagið þar með á meðal tveggja annarra sveitarfélaga á Íslandi, sem barnvænt sveitarfélag.

Aðalheiður var himinlifandi þennan fallega miðvikudag í Hljómahöllinni þar sem afhendingin fór fram.

„Þetta verkefni hefur verið í gangi síðan í ársbyrjun 2020 en það snýst um að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í alla stjórnsýsluna. Hann var lögfestur árið 2013 og öllum sveitarfélögum gert skylt að innleiða hann. Reykjanesbær er þriðja sveitarfélagið sem hlýtur þessa viðurkenningu.

Þetta er búið að vera mikið verk en ofboðslega gefandi og skemmtilegt. Ýmsar hindranir urðu á leiðinni eins og heimsfaraldur og jarðhræringar en með samhentu átaki allra erum við í þessari stöðu í dag. Í raun snýst verkefnið um að gefa börnum rödd og þau geti sagt hvernig þau vilji sjá sveitarfélagið sitt þróast. Ungmennaráð Reykjanesbæjar fór af stað um þetta leyti og það hefur verið mjög gaman að fylgjast með áhuga krakkanna. Við höfum haldið tvö ungmennaþing og hundruð barna mættu til að taka þátt í umræðum. Undanfarin ár hafa ungmennin okkar svo fengið tækifæri til að halda erindi á bæjarstjórnarfundum og hefur það mælst mjög vel fyrir.

Mitt hlutverk hefur verið að stýra verkefninu og fylgja því eftir. Innleiðingin, samkvæmt UNICEF, felst í hringrás með átta skrefum þar sem fyrst er framkvæmt stöðumat og svo unnin aðgerðaáætlun eftir niðurstöðum úr því. Stöðumatið gefur einnig til kynna hversu mikillar fræðslu er þörf innan sveitarfélagsins og fræðsluáætlun unnin. Starfsfólk tók ótrúlega vel í fræðsluna og voru um 70% þeirra sem fræðsluáætlunin náði til sem fóru í gegnum ákveðin námskeið hjá UNICEF. Nú er þessari fyrstu hringrás lokið en verkefninu er engan veginn lokið. Þessi viðurkenning sem við fengum núna gildir í þrjú ár og núna förum við hringrás tvö og stefnum að sjálfsögðu af því að fá sömu viðurkenningu eftir þrjú ár. Það verður spennandi að sjá hvernig næsta aðgerðaráætlun mun koma til með að líta út,“ segir Aðalheiður.

Ungmennaráð í nefndir og ráð Reykjanesbæjar

Hermann Jakobsson er formaður ungmennaráðs Reykjanesbæjar.

„Ég er búinn að vera formaður ungmennaráðs undanfarin tvö ár en nú fer leik að ljúka hjá mér og einhver annar tekur við. Hingað til hefur verið miðað við átján ára aldur en við höfum lagt til að hækka aldurinn upp í tuttugu. Við miðum við að ungmenni þurfi að vera orðin fjórtán ára til að vera gjaldgeng í ráðið. Aðkoma okkar að þessu innleiðingarverkefni hefur verið talsverð, fulltrúi frá okkur hefur verið í stýrihópi og við höfum aðstoðað Reykjanesbæ við þessa innleiðingu. Í því fólst t.d. að halda ungmennaþing og hafa þau heppnast mjög vel og var frábær mæting á þau. Við höfum fundað talsvert með UNICEF á Íslandi og höfum verið í nánu samstarfi með Reykjanesbæ.

Aðalbreytingin hefur verið að geta haldið þessi ungmennaþing og við höfum getað komið ábendingum af þeim þingum til bæjarstjórnar, svo var mikilvægt fyrir okkur að koma meðlimum ungmennaráðs inn í ýmis ráð og nefndir Reykjanesbæjar. Þetta tryggir að rödd ungmenna heyrist. Það er ýmislegt annað sem við höfum verið að vinna að, t.d. frístundaáætlun ungmenna, þetta eru mörg verkefni en ofboðslega gaman að fá að vinna að þeim.

Ég hef komið að þessari vinnu undanfarin ár, er átján ára í dag og ég man vel hvernig þessi mál voru þegar við vorum að byrja þetta ferli í ársbyrjun 2020, við erum í miklu betri málum í dag. Það var mjög gott skref fyrir ungmennaráðið að fá starfsmann í 50% hlutfall, Óli Bergur hefur unnið frábært starf með okkur og ég lít björtum augum til framtíðarinnar, ef að sömu framfarir verða á næstu fimm árum eins og hafa verið undanfarin fimm ár, þá eru ungmennin í Reykjanesbæ heldur betur að fara láta gott af sér leiða. Það er mjög mikilvægt að halda áfram með innleiðinguna, okkur gekk vel í þessari fyrstu hringrás og nú er bara að láta verkin tala í þeirri næstu,“ segir Hermann.

Stolt Reykjanesbæjar

Valgerður Björk Pálsdóttir situr í bæjarstjórn Reykjanesbæjar fyrir Beina leið og var annar tveggja fulltrúa bæjarstjórnar í stýrihópi um barnvænt sveitarfélag. Hún tók á móti viðurkenningunni frá UNICEF og er mjög stolt af sínu fólki.

„Jú, ég er afskaplega stolt af þessari viðurkenningu, stolt af starfsfólkinu okkar sem leiddi vinnuna, starfsfólki skólanna, félagsmiðstöðva, Ráðhússins en auðvitað er ég mest stolt af ungmennaráðinu okkar. Það er gaman að vita að það er tekið eftir ungmennunum okkar og hversu vel þau standa sig. Ég kom inn í þessa vinnu árið 2022 og hef verið í stýrihópi síðan þá ásamt starfsfólki Reykjanesbæjar og fulltrúum ungmennaráðs. Við höfum fundað nokkuð reglulega og fylgst vel með að allt gangi samkvæmt áætlun, það er ofboðslega gaman að sjá árangur þess erfiðis hér í dag.

Það á eftir að koma í ljós hvernig næsta hringrás verður, það verða áfram aðgerðir en ég hef engar áhyggjur af því, það er komin ákveðin stofnana viska til staðar hjá okkur. Við sem erum að stýra málum erum komin með ákveðna barnvæna hugsun þegar við erum að fjalla um hin ýmsu mál, við spyrjum okkur að því hvort viðkomandi mál tengist börnum og ungmennum, og réttindum þeirra. Það er mjög gott hvernig vinnubrögðin hafa breyst til hins betra og verður spennandi að sjá hvernig næsta ferli verður.

Ég get ekki hrósað ungmennunum okkar nægjanlega mikið, þetta eru svo flottir krakkar. Þegar ég var ung þá var ég formaður nemendaráðs í FS en það var ekkert miðað við hvað þessir krakkar eru að gera í dag. Þau koma svo vel fyrir, eru áhugasöm um öll möguleg málefni og taka þátt í ungmennaþingum. Ég dáist að þeim þegar þau stíga í pontu og tala fyrir sínum málefnum, þau eru svo örugg og í raun kemur mér ekki lengur á óvart hversu vel þessir krakkar eru að standa sig. Framtíðin er svo sannarlega björt í Reykjanesbæ,“ sagði Valgerður að lokum.

Hljómsveitin Demo tók þrjú lög á athöfninni.