Fréttir

112 dagurinn haldinn í fyrsta skipti á Suðurnesjum
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 11. febrúar 2025 kl. 17:01

112 dagurinn haldinn í fyrsta skipti á Suðurnesjum

Það var margt um manninn hjá Brunavörnum Suðurnesja þriðjudaginn 11. febrúar en þá var hinn árlegi 112 dagur haldinn. Yfirskriftin í ár er „Öryggi og börn.“

Það er ekki tilviljun að 112 dagurinn er haldinn á þessum degi, 11. febrúar, 11.2.

Dagurinn hefur verið haldinn til fjölda ára en þetta var í fyrsta skipti sem hann er haldinn á Suðurnesjum. Ingvi Hákonarson vinnur hjá Brunavörnum Suðurnesja, hann var ánægður með mætinguna og telur fullvíst að þetta verði að árvissum viðburði hér eftir.

Ingvi Hákonarson.

„Við tókum af skarið núna og smöluðum saman öllum viðbragsaðilum, hér eru sjúkraflutninga-, slökkviliðs-, björgunarsveitar- og lögreglumenn svo dæmi séu tekin og allir á sínum bílum og mér sýnist á áhuga barnanna að þeim leiðist ekki að fá að skoða þetta og jafnvel að setjast undir stýri. Við erum mjög ánægðir með mætinguna, það er fullt hús svo ég tel fullvíst að þetta verði að árlegum viðburði hér eftir,“ sagði Ingvi.