Hefur skilning á að Grindavíkurbær gangi út úr sameiginlega reknum úrræðum
Reykjanesbær hefur móttekið uppsögn Grindavíkurbæjar á samningi um sameiginlegan rekstur sveitarfélaganna á Suðurnesjum á skammtímavistun í Heiðarholti, Hæfingarstöð og Björginni. Í bókun bæjarráðs Grindavíkurbæjar þann 14. janúar sl. kemur fram að uppsögnin taki gildi 1. janúar 2025 með þriggja mánaða uppsagnarfresti.
Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur skilning á að Grindavíkurbær gangi út úr sameiginlega reknum úrræðum sveitarfélaganna á Suðurnesjum í ljósi aðstæðna, en leggur þó áherslu á að uppsagnir séu gerðar með eðlilegum fyrirvara, sér í lagi þar sem einstaklingar með lögheimili í Grindavík nýta þá þjónustu sem úrræðin veita. Þetta kemur fram í afgreiðslu bæjarráðs Reykjanesbæjar á uppsögn Grindavíkurbæjar á sameiginlegri þjónustu sveitarfélaga. Á fundinum var tekið fyrir erindi frá Grindavíkurbæ um uppsögn samnings um rekstur sameiginlegra úrræða í Reykjanesbæ, Hæfingarstöðvar og Bjargarinnar.
Þá telur bæjarráð að þriggja mánaða uppsagnarfrestur sé of skammur og leggur áherslu á að uppsagnarfrestur sé a.m.k. sex mánuðir, m.a. vegna þess að brotthvarf Grindavíkurbæjar úr samstarfinu mun hafa veruleg áhrif á fjárhagsáætlanir hinna samstarfssveitarfélaganna. Bæjarráð Reykjanesbæjar leggur einnig áherslu á að Grindavíkurbær tryggi að nauðsynlegum upplýsingum um áhrif ákvörðunar þeirra verði komið á framfæri með skýrum hætti við þá einstaklinga og fjölskyldur sem úrsögnin mun hafa áhrif á.