Landris og kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi
Áfram er aukin hætta á eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni og uppfært hættumat er óbreytt segir í tilkynningu sem Veðurstofa Íslands sendi frá sér fyrir skömmu.
Þá sendi lögreglustjórinn á Suðurnesjum út fréttatilkynningu þar sem hann áréttar eftirfarandi: „Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum ákvað þann 30. janúar 2025 að færa almannavarnastig af óvissustigi á hættustig. Fréttatilkynning um breytingu á almannavarnastigi var birt á heimasíðu almannavarna þann dag kl. 17:04. Sjá nánar á vef almannavarna.“
- Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram
- Tímabilið þar sem hættan á eldgosi eykst getur staðið í allt að mánuð eða lengur
- Lítils háttar aukning í jarðskjálftavirkni síðustu vikur
- Hættumat uppfært og er óbreytt
GPS-mælingar sýna áframhaldandi landris undir Svartsengi. Hins vegar hefur dregið lítillega úr hraða landrissins síðustu vikur. Líkanreikningar sýna þó áframhaldandi kvikusöfnun og er magn kviku undir Svartsengi komið í neðri mörk þess rúmmáls sem talið er að þurfi til þess að koma af stað næsta kvikuhlaupi og eldgosi. Síðustu atburðir á Sundhnúksgígaröðinni hafa leitt í ljós að eftir að rúmmál kviku nær neðri mörkum hafa eldgos byrjað frá nokkrum dögum upp í fjórar vikur frá þeim tíma. Þetta þýðir þó ekki að það sé öruggt að næsti atburður hefjist innan mánaðar, heldur sýnir reynslan að það sé líklegasta sviðsmyndin.
Nánari upplýsingar á vef Veðurstofu Íslands.