Mannlíf

Alþjóðaforseti Lions djúpt snortinn eftir heimsókn til Grindavíkur
Formaður Lionsfélags Grindavíkur, Eiríkur Óli Dagbjartsson, bauð öllum heim á pallinn hjá sér. Fyrir aftan er hin rómaða hvítvínskúla og þar fyrir aftan má sjá varnargarðinn.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 9. febrúar 2025 kl. 07:00

Alþjóðaforseti Lions djúpt snortinn eftir heimsókn til Grindavíkur

Góðar líkur á stuðningi Alþjóðahjálparsjóðs Lions til Grindvíkinga

„Það var hreinlega magnað að koma til Grindavíkur, það fékk á mig að sjá hvernig náttúran hefur farið með bæinn en ég þekki til íbúanna og vona að  Grindavík muni rísa upp að nýju áður en langt um líður,“ segir Geirþrúður Fanney Bogadóttir, fjölumdæmisstjóri Lions á Íslandi. Alþjóðaforseti Lions, Fabricio Oliveira sem er frá Brasilíu var á Íslandi seinasta haust ásamt Amariles eiginkonu sinni og af því tilefni var farið í skoðunarferðir, m.a. til Grindavíkur.
Geirþrúður Fanney Bogadóttir

Geirþrúður sem býr í Reykjanesbæ og hefur verið virk í Lions þar síðan 1990, var með í för og var að koma í fyrsta sinn til Grindavíkur síðan hamfarirnar hófust. Það sem fyrir augu bar kom jafn mikið við Geirþrúði og brasilísku gestina.

„Að vera alþjóðaforseti Lions er í raun fjögurra ára ferli, viðkomandi byrjar sem þriðji varaforseti og endar á fjórða ári sem alþjóðaforseti Lions. Sitjandi forseti heimsækir mörg lönd og það hefur alltaf verið vinsælt að koma til Íslands því við teljumst vera sterkt svæði hjá Lions, erum nánast örugglega best ef við miðum við hina frábæru höfðatölu. Fabricio gat ekki stoppað eins lengi á Íslandi og hann hefði viljað svo það var stíf dagskrá allan tímann og að sjálfsögðu reyndum við að sýna honum hvað við erum að gera og erum stolt af. Nánast undantekningarlaust er farið á Bessastaði og það var mjög gaman að hitta nýja forsetann, Höllu Tómasdóttur, en þar fer einkar góður forseti held ég. Við heimsóttum Píeta-samtökin, það eru samtök sem berjast gegn sjálfsvígum. Í apríl mun landssöfnun Lions, „Rauða fjöðrin“ renna til Píeta í átak sem nefnist „Segðu það upphátt“. Með verkefninu verður opnað á umræðuna um sjálfsvíg og geðheilbrigði hjá ungu fólki. Það er gaman frá því að segja að geðheilsa og vellíðan hefur lengi verið eitt helsta hugðarefni Fabricio og þess vegna var hann sérstaklega áhugasamur um þetta samstarf Lions og Píeta.“

Halldór Kristjánsson, alþjóðastjórnarmaður í Lions international, sýnir Fabricio varnargarðana og hraunið sem rann við Svartsengi.

Heimsókn til Grindavíkur hápunkturinn

„Ýmislegt annað var gert en ég held að mér sé óhætt að segja að hápunktur ferðarinnar hafi verið að koma til Grindavíkur og sjá með eigin augum hvað hefur gengið þarna á. Í fylgdarliði alþjóðaforseta voru níu Lionsfélagar, þar af vorum við tvær úr Reykjanesbæ en auk mín var Inga Lóa Steinarsdóttir, umdæmisstjóri 109A, með í för. Við stoppuðum við varnargarðana við Svartsengi og fannst Fabricio hreinlega magnað að sjá hvað búið er að gera. Ég hafði ekki komið til Grindavíkur síðan ósköpin hófust og verð að viðurkenna að þetta fékk á mig. Það er ömurlegt að sjá sprungurnar, skökk húsin við Víkurbrautina, skemmdirnar á Víðihlíð o.s.frv. Þegar við komum inn í bæinn tóku á móti okkur nokkrir Lionsfélagar frá Grindavík auk Fannars Jónassonar, bæjarstjóra. Formaður Lionsklúbbs Grindavíkur, Eiríkur Óli Dagbjartsson, skellti sér í hlutverk leiðsögumanns og fræddi okkur um allt í Grindavík og leysti hann verkefnið með miklum sóma, talaði reiprennandi ensku en brasilísku gestirnir voru með túlk. Eiríkur fór með okkur á pallinn heima hjá sér en þar er hin rómaða hvítvínskúla þeirra hjóna og fannst okkur mögnuð upplifun að sjá varnargarðinn einungis nokkrum metrum frá lóðinni þeirra. Þarna þurfti útsýnið að víkja fyrir varnargörðum en eins og Eiríkur benti á, hinum megin við garðinn er nýrunnið hraun og miklar líkur á að húsið hefði farið undir hraun ef garðurinn hefði ekki verið reistur. Við komum svo við í Kvikunni og þar skiptust Fannar og Fabricio á gjöfum og eftir þessa heimsókn til Grindavíkur fórum við á Hótel Keflavík og borðuðum þar dýrindis hádegisverð. Fabricio var einkar ánægður með þessa heimsókn og alla ferðina á Íslandi. Hann var sérstaklega ánægður með að hitta Guðrúnu Björt Yngvadóttur, félaga í Lionsklúbbnum Eik í Garðabæ, sem kosin var alþjóðaforseti Lions starfsárið 2018-2019, fyrst kvenna. Guðrún Björt er jafnframt eini Íslendingurinn sem gegnt hefur þessu mikilvæga embætti.“

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, og Fabricio Oliveira, alheimsforseti Lions, skiptust á gjöfum í Kvikunni, menningarhúsi Grindavíkur.

Sjö Lionsklúbbar á Suðurnesjum

Geirþrúður á 34 ára farsælan feril innan raða Lionshreyfingarinnar og er hvergi nærri hætt.

„Við hjónin fluttum til Njarðvíkur árið 1984. Árið 1990 bauðst mér að fara á fund hjá Lionessuklúbbi Njarðvíkur. Ég hreifst strax af starfinu og hef gefið mig að því allar götur síðan. Árið 1997 var Lionessuklúbburinn lagður niður og Lionsklúbburinn Æsa stofnaður í staðinn og þá fengum við full réttindi sem lionsfélagar. Í Reykjanesbæ eru starfandi þrír Lionsklúbbar, kvennaklúbbarnir Æsa og Freyja og Lionsklúbbur Njarðvíkur sem er karlaklúbbur.

Saga Lionshreyfingarinnar á heimsvísu nær aftur til ársins 1917. Fyrsti klúbburinn var stofnaður í Bandaríkjunum og í dag eru félagar rúmlega 1,4 milljónir í 46 þúsund klúbbum í yfir 200 löndum. Markmið Lions er að í árslok 2026 verði Lionsfélagar orðnir 1,5 milljón. Á Íslandi eru starfandi 74 Lionsklúbbar, þar af eru sjö á Suðurnesjum en þeir eru auk klúbbanna í Reykjanesbæ, Lkl. Keilir í Vogum, Lkl. Garður í Garði, Lkl. Sandgerðis og Lkl. Grindavíkur. Suðurnesjaklúbbarnir eru á svæði fimm í umdæmi 109 A en umdæmið okkar nær frá Reykjavík austur á Seyðisfjörð.

„Lions leggur lið“ eru einkunnarorð hreyfingarinnar og þess má geta að Lions á Íslandi færði Lionsklúbbi Grindavíkur rúmar níu milljónir síðastliðið vor að frumkvæði Lionsklúbbs Vestmannaeyja,” segir Geirþrúður.

Alþjóðahjálparsjóður Lions

Hefð er fyrir því að alþjóðaforseti Lions taki við formennsku í Alþjóðahjálparsjóði Lions að forsetaárinu liðnu, en fordæmi er fyrir styrk úr sjóðnum til Íslands þegar hamfarir hafa átt sér stað. Eyjamenn fengu t.d. að njóta gjafmildis Lions þegar gaus hjá þeim árið 1973. Grindvíkingar vonast eftir að heimsókn Fabricio Oliveira til bæjarins, minnki ekki líkurnar á að Lionshreyfingin á heimsvísu aðstoði við uppbyggingu bæjarins.

„Fabricio var djúpt snortinn eftir heimsóknina til Grindavíkur og að heyra hve margir ættu um sárt að binda, m.a. grindvísk börn sem eiga í erfiðleikum með að aðlagast nýjum veruleika. Ég efast ekki um að hann hafi Grindavík og Grindvíkinga í huga þegar hann tekur til starfa í Alþjóðahjálparsjóðnum. Íslendingar hafa nokkrum sinnum fengið styrki úr sjóðnum, t.d. eftir gosið í Vestmannaeyjum, þegar styrkur frá Lions varð til þess að hægt var að ljúka við byggingu sjúkrahússins í Vestmannaeyjum og í vor fengu tveir Lionsklúbbar í Reykjavík styrk frá sjóðnum til að kaupa tæki til mælinga og rannsókna á heyrn ungra barna, fyrir Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.  Alþjóðahjálparsjóður Lions er einstakur á heimsvísu þar sem söfnunarféð rennur beint til verkefnanna, ekki ein króna af söfnunarfénu fer í yfirbyggingu sjóðsins, eins og algengt er. Lionsklúbbar á Íslandi greiða flestir hluta af því fé sem þeir safna til Alþjóðahljálparsjóðsins en einnig leggja margir Lionsfélagar sjóðnum lið persónulega, með mánaðarlegri greiðslu. Við erum alltaf að reyna fá fleiri á þann vagn, þetta er jú sjóðurinn okkar. Það gilda mjög strangar reglur varðandi úthlutun úr sjóðnum. Ég hef setið í þriggja manna teymi sjóðsins á Íslandi og við höfðum strax samband vegna Grindavíkur. Það má ekki líða nema ákveðinn langur tími frá því að atburði lýkur þar til umsókn berst en atburðinum er ekki lokið í Grindavík, því miður og því er ekki einfalt mál að sækja um aðstoð. Þeir sem stýra sjóðnum úti eru vel upplýstir um stöðu mála og ég er bjartsýn fyrir hönd Grindvíkinga að þegar þessum hremmingum lýkur muni Lions rétta fram hjálparhönd og það mun þá fara fram í gegnum viðkomandi Lionsklúbb, í þessu tilviki Lionsklúbb Grindavíkur.

Ég á lengi eftir að muna eftir þessari ferð til Grindavíkur og vona svo sannarlega að þessi fallegi bær nái að blómstra á ný,” sagði Geirþrúður að lokum.