Svanur ræktar kjúklinga í Grindavík
Öflugur kjúklingabúskapur í samstarfi við Reykjagarð
„Ungarnir koma dagsgamlir til mín og eru hér eins og á fimm stjörnu hóteli þar sem þeir fá fyrsta flokks fóður, gott vatn að drekka og spranga frjálsir um í góðum hita. Ég leyfi mér að fullyrða að þeim líður mjög vel hjá mér, öðruvísi myndu þeir ekki vaxa og stækka. Mér er mikið í mun að dýrum líði vel,“ segir Svanur Ingi Sigurðsson, kjúklingabóndi frá Grindavík.
Svanur ólst upp á Akranesi en kom til Grindavíkur til að hjálpa Halldóri bróður sínum heitnum við að byggja einbýlishús. Halldór hafði flutt nokkru fyrr til Grindavíkur og var orðinn verkstjóri í Hraðfrystihúsi Grindavíkur, sem varð fyrsta starfsstöð Svans í Grindavík.
„Dóri bróðir var tíu árum eldri en ég og var búinn að vera í Grindavík í nokkur ár þegar ég ákvað að elta hann árið 1973, ég þá á átjánda ári. Dóri var að byggja og ég kom til að hjálpa honum og hér er ég ennþá, þótt ég búi tímabundið í Reykjavík vegna hamfaranna í Grindavík. Ég hafði verið að vinna hjá Sementsverksmiðju ríkisins fyrir vestan en þeirri vinnu lauk í ágúst þetta ár og ég skellti mér suður. Ég byrjaði að vinna undir verkstjórn Dóra hjá HG, fór þaðan yfir í kaupfélagið í nokkur ár og réði mig svo til Kristins Gamalíelssonar sem var með eggja- og kjúklingabúskap, og hef verið í því síðan þá. Þegar hann flutti austur fyrir fjall árið 1985, nálægt Selfossi, þá keypti ég af honum búið og er því að fagna 40 ára afmæli á þessu ári. Þar sem Kiddi var ættaður af Stað vestur á Reykjanesi, skýrði hann búið sitt Staðarbúið og ég ákvað bara að halda því nafni. Kiddi hafði verið jöfnum höndum í eggjabúskap, kjúklingarækt og sauðfjárbúskap en ég hafði engan áhuga á því síðastnefnda. Ég var í eggjum og kjúklingum fyrstu tíu árin, var mest með 4500 varphænur en ákvað svo að hætta með eggin, mér fannst það ekki fara vel saman með kjúklingarækt því það getur verið mikil smithætta frá hænum.“
Stækkun
Ekki leið á löngu þar til húsakosturinn stækkaði hjá Svani.
„Kiddi hafði verið með rollurnar í húsi tvö eins og það var kallað, ég lengdi það síðar og byggði svo hús þrjú stuttu síðar. Þegar mest var áður en reglurnar breyttust, var ég með um tuttugu þúsund fugla í þessum þremur húsum en í dag eru þeir rúmlega fimmtán þúsund. Ég er í samstarfi við Reykjagarð en þeir eru með útungunarstöð og koma með ungana dagsgamla og skaffa auk þess fóður og spæninn sem fer á gólfið. Ég hef alltaf fengið ungana, þ.e. hef ekki verið með útungun sjálfur en ungarnir koma u.þ.b. degi eftir að þeir fæðast, eru á fimm stjörnu hóteli í u.þ.b. fimm vikur þar sem þeir fá fyrsta flokks fóður, vatn að drekka og spranga frjálsir um í góðum hita. Ég leyfi mér að fullyrða að þeim líður mjög vel hér hjá mér, öðruvísi myndu þeir ekki vaxa og stækka. Mér er mikið í mun að dýrum líði vel.

Hér áður fyrr tók átta til tíu vikur að koma kjúklingnum í rétta þyngd og stærð fyrir slátrun en stofnanir eru orðnir betri, í dag tekur ferlið ekki nema um fimm vikur og þá fer fram söfnun og tínsla á fuglunum. Það er í raun mjög þægileg aðferð, ljósin eru slökkt og þá halda fuglarnir að það sé kominn háttatími og þeir leggjast niður og því auðvelt að ná þeim, í stað þess að vera eltast við þá út um allt hús. Þeir fara tíu og tíu saman í safnkassa og þaðan út í flutningabíl sem flytur þá á Hellu þar sem Reykjagarður er með sláturhús en þeir eru líka með aðstöðu á Ásmundarstöðum rétt hjá Hellu. Þegar húsin eru orðin tóm þarf ég að moka öllum spæni og skítnum undan fuglunum út, allt er svo vandlega þrifið og sótthreinsað, svo er spænir lagður á gólfin og nýtt ferli fer í gang,“ segir Svanur.

… fá fyrsta flokks fóður, gott vatn og eru í góðum hita.
Lok, lok og læs í rýmingu
Svanur var nýlega búinn að fá sendingu af dagsgömlum ungum þegar ósköpin dundu yfir í Grindavík 10. nóvember ´23.
„Ég fékk að fara inn 12. nóvember til að sækja fuglana sem ég var nýlega búinn að fá og þeim var komið fyrir á Ásmundarstöðum. Ég gat ekkert framleitt í ár og er með aðra framleiðsluna núna í gangi eftir að ég gat byrjað aftur seint á síðasta ári. Ég er með söfnun á tilbúnum fugli á u.þ.b. hálfsmánaðar fresti en ég er að fara skipta um vatnskerfið í tveimur húsanna, þess vegna verður smá bið þar til ég tek inn næsta skammt en um þrjú þúsund fuglar eru hjá mér núna í einu húsi og verða tilbúnir eftir u.þ.b. þrjár vikur. Venjulega fyllti ég öll húsin þrjú af fuglum en vegna ástandsins í Grindavík ákváðum við að gera þetta frekar í tveimur skömmtum og er ágætis reynsla komin á það.

Reykjagarður kemur með ungana nýfædda, skaffa fóðrið og spæninn sem fer á gólfið, hér er verið að sækja fuglana.
Það er búið að vera frábært að vera í þessu samstarfi við Reykjagarð, hér áður fyrr þurfti ég að sjá nánast um allt, ég slátraði ekki en ég var með sölumál og flest á minni könnu. Eftirspurnin jókst nánast dag frá degi og þetta var einfaldlega of mikið svo ég hoppaði á tækifærið þegar Reykjagarður hafði samband við mig og óskaði eftir samstarfi, kjúklingarnir frá mér eru því seldir undir merki Holta kjúklinga. Í dag er ég bara að sjá um eldið, taka við ungunum og hugsa um þá, safna þeim svo saman og þríf og geri klárt fyrir næstu heimsókn, þetta hentar mér mjög vel í dag og er ég mjög ánægður með þetta samstarf.“

Búið að slökkva ljósin og þar með leggjast fuglarnir niður og halda að það sé kominn háttatími.
Rúntur fyrir Höllu og tvær flugur slegnar í sama höggi
Svanur eignaðist dótturina Helenu Lind þegar hann var ungur og á þrjú börn með eiginkonu sinni, Matthildi Níelsdóttur. Halla er elst, svo kemur Matthías og Níels er yngstur, öll hafa þau hjálpað foreldrum sínum með kjúklingabúskapinn í gegnum tíðina og eins hafa barnabörnin hjálpað til. Þessi Halla er nokkuð þekkt stærð á Suðurnesjunum en hún rekur matsölustað sinn, hjá Höllu, á Keflavíkurflugvelli og var sömuleiðis með stað í Grindavík fram að rýmingu. Hún var nýlega búin að kaupa iðnaðarhúsnæði í Grindavík og breyta því í framleiðslueldhús, þegar hamfarirnir eyðulögðu húsnæðið. Svanur hefur verið dóttur sinni stoð og stytta allar götur síðan starfsemi hennar hófst og hann er í aukavinnu hjá henni og nær að slá tvær flugur í sama högginu.
„Ég hef í nokkur ár verið að aðstoða Höllu dóttur mína og síðan við þurftum að rýma Grindavík hef ég náð að samtvinna keyrslu á mat fyrir hana með eftirlitsferð minni í kjúklingabúið. Halla var nýbúin að festa kaup og gera upp glæsilega aðstöðu í iðnaðarbilinu í Grindavík en það húsnæði er ónýtt en sem betur fer komst hún strax inn hjá Axel í Skólamat og hefur undanfarna mánuði verið með eldunaraðstöðu úti í Sandgerði. Ég kem þangað flesta daga og keyri matarskammta til vinnandi fólks á Reykjanesi og get í leiðinni kíkt á fuglana mína og gengið úr skugga um að allt sé í lagi en ég get líka fylgst með gangi mála í símanum hjá mér, ég er með myndavélakerfi í öllum húsunum. Fyrir rýmingu þá var hluti af fjáröflunum fyrir íþróttadeildirnar í Grindavík og fleiri, að mæta í söfnun og tínslu á fuglunum. Þetta er mikið stuð, menn og konur fara í samfesting og svo er bara tekið á því í tvo til þrjá tíma og fuglunum safnað saman í kassa en alltaf er passað upp á að fara vel með fuglinn, ég legg alltaf þunga áherslu á það. Þessi háttur hefur ekki gengið síðan við rýmingu, það eru svo fáir í Grindavík svo Reykjagarður hefur útvegað mér duglegan mannskap sem vinnur þetta með mér. Þetta er búið að vera aldeilis ótrúlegur tími, eitthvað sem maður hélt að maður myndi aldrei upplifa. Við konan komum okkur fyrir í Reykjavík en hvort við snúum til baka til Grindavíkur verður bara að koma í ljós, það verður alla vega ekki á meðan þessar jarðhræringar eru í gangi. Ég er nú kominn á aldur og er farinn að huga að því að setjast í helgan stein, ég verð sjötugur á þessu ári svo þetta er kannski bara komið gott. Það er bara ekki góður tímapunktur núna að selja, á meðan ástandið er svona svo ég held eitthvað áfram og hver veit nema afkomendur mínir taki við búinu, það væri fínt. Ég hef ennþá mjög gaman af þessu en eins og ég segi, ef einhver áhugasamur um svona búskap er þarna úti þá er ég opinn fyrir að ræða það,“ sagði Svanur að lokum.
